Við setningu Alþingis í gær vandaði Halla Tómasdóttir forseti Íslands um við þingmenn og hvatti þá til að bæta þingstörf. Hún sagði þingmenn ekki eiga að keppast við að setja met í málþófi. Hugsanlega væri kominn tími til að breyta þingskapalögum eða jafnvel stjórnarskrá í þessum tilgangi.
Við sömu athöfn birtist Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis auðmjúk og axlaði fulla ábyrgð á beitingu 71. greinar þingskapalaga og þinglok í sumar. Sagðist hún meðvituð um að sem forseti þurfi hún að endurvinna traust margra í þingsal og hygðist vinna að því af heilindum.
Orðið á götunni er að Halla Tómasdóttir hafi haft lög að mæla er hún skammaði þingmenn fyrir framgönguna í málþófinu og engum duldist að hún beindi máli sínu til stjórnarandstöðunnar sem varð sér til háborinnar skammar með málþófinu og margs konar tafaleikjum í þinginu í vor og fram á mitt sumar.
Skoðanakannanir hafa sýnt að almenningur hafði óbeit á framgöngu stjórnarandstöðunnar og tilræði hennar við lýðræðið sem fólst í því að reyna með öllum tiltækum og ótiltækum ráðum að koma í veg fyrir að réttkjörinn þingmeirihluti næði lögfesta stefnumál sín. Endurspeglast þetta í því að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru nú í lægsta fylgi sem þeir hafa haft allt frá stofnun.
Morgunblaðið agnúaðist út í Höllu á forsíðu í dag og hafði eftir ónafngreindum aðilum að það væri ekki í verkahring forseta að hlutast til um hvernig Alþingi hagaði störfum sínum eða ræða lagabreytingar og stjórnarskrárbreytingar. Orðið á götunni er að það sé einmitt hlutverk forseta að tukta til þingmenn þegar þeir fara gersamlega út af sporinu og ógna lýðræðinu í landinu. Fólk sé þakklátt Höllu fyrir að lesa yfir þingheimi með þessum hætti að gefnu tilefni.
Orðið á götunni er að Þórunn Sveinbjarnardóttir þurfi ekki að fyrirverða sig fyrir það að beita 71. grein þingskapalaga þegar stjórnarandstaðan hafði margtuggið sömu þvæluna í 160 klukkustundir í málþófinu um veiðigjaldamálið, auk annarra tafaleikja á borð við umræður um dagskrá þingsins og fundarstjórn forseta í tíma og ótíma. Þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins rændi meira að segja forsetavaldi og sleit fundi í óþökk forseta. Almenningur er Þórunni þakklátur fyrir að stöðva aðför stjórnarandstöðunnar að lýðræðinu og með réttu ætti stjórnarandstaðan að vera henni þakklát fyrir að koma í veg fyrir að þingmenn stjórnarandstöðunnar yrðu sér enn frekar til skammar en raun varð á.
Orðið á götunni er að forseti Alþingis hafi ekki á nokkurn hátt rýrt traust sitt gagnvart einum eða neinum. Þeir sem þurfa að endurvinna traust eru þingmenn stjórnarandstöðunnar sem lengst gengu í tafaleikjum og orðhengilshætti í málþófinu langt fram á sumar. Þeir þurfa svo sannarlega að endurheimta traust kjósenda.
Orðið á götunni er að forvitnilegt verði að sjá á nýju þingi hvort stjórnarandstaðan hefur lært eitthvað af óförum sínum í veiðigjaldamálinu og því sem lesa má úr skoðanakönnunum um fylgi flokka eftir málþófið og upphlaup m.a. vegna heimsóknar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands í sumar.
Orðið á götunni er að því miður sé líklegt að stjórnarandstaðan haldi uppteknum hætti hvað sem líður mannabreytingum í forystu sem orðið hafa frá því málþófinu lauk. Forseti Alþingis vann sér traust kjósenda með því að höggva á hnútinn í sumar og beita 71. greininni. Ekki kæmi á óvart þótt beita verði því ákvæði aftur á komandi þingvetri. Kjósendur vilja að lýðræðið virki og að minnihluti sem gengur erinda sterkra sérhagsmunaafla gegn þjóðarhagsmunum fái ekki að taka Alþingi Íslendinga aftur í gíslingu.