Fram undan er þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.
Þessum kosningum ber að fagna enda kemur þá fram upplýst afstaða þjóðarinnar til þessa mikilvæga máls. Kosningar eru mikilvægur hluti tjáningarfrelsis og skoðanaskipta enda eru þær bundnar í stjórnarskránni okkar.
Sumir hafa áhyggjur af því að kljúfa þjóðina með umfjöllun og kosningum í þessu máli en hafa skal í huga að skoðanaskipti eru óhjákvæmilega hluti af öllum lýðræðislegum kosningum.
Það skiptir miklu máli að fram að báðum þessum kosningum verði almenningur upplýstur um kosti og galla aðildarinnar. Undanfarnar vikur hefur verið áberandi hvað andstæðingar aðildar teikna upp slæma mynd af afleiðingum fullrar aðildar og ýta undir hræðslu við hana.
Í umræðunni sem er fram undan er mikilvægt að fylgjendur og andstæðingar aðildar setji sig í fótspor hver annars og leiti svara við því hvað er að óttast við aðild Íslands, hvaða kostir fylgja aðildinni og hvaða framtíð bíður landsins okkar með fullri aðild að ESB.
Hvað varðar óttann hefur eftirfarandi komið fram að undanförnu hjá andstæðingum aðildarviðræðna.
Þeir telja í fyrsta lagi að við munum tapa fullveldinu við inngöngu í ESB.
Þeir hafa fullyrt að við munum tapa yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni.
Fullyrt hefur verið að landbúnaði á Íslandi verði fórnað
Einnig er sagt að Ísland verði valdalaust á Evrópuþinginu.
Svo er sagt að með inngöngu í ESB væri Ísland að fara inn í „brennandi hús“.
Ég fullyrði að ekkert af þessu þarf að óttast. Skoðum það nánar.
Sagan segir okkur að öll þátttaka Íslands í alþjóðasamstarfi hefur orðið þjóðinni til hagsældar. Nægir þar að nefna NATO, SÞ, EFTA og EES.
Á ófriðartímum eins og í dag er mikilvægt að lítil þjóð njóti stuðnings og geti reitt sig á aðstoð stærri ríkja og alþjóðasamtaka eins og NATO og ESB.
Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hefur fært landið okkar inn í nútímann og verið grunnurinn að hagvexti síðustu áratuga.
En þátttaka okkar í EES er án atkvæðisréttar og áhrifa. Hún er eins og að búa í fjölbýlishúsi án þess að hafa atkvæðisrétt á húsfélagafundum. Enginn myndi sætta sig við það.
Þess vegna er þátttaka í EES er eins og að vera í anddyrinu hjá ESB. Við tökum upp allar tilskipanir ESB án þess að hafa atkvæðisrétt í stofnunum þess. Samstarf okkar við ESB er nú eingöngu um innri markað landanna án þess að hafa áhrif á stjórnmálastefnu eða utanríkismál.
Með inngöngu í ESB fáum við fullan atkvæðisrétt og áhrif. Við munum taka þátt í öllum stofnunum ESB og fáum sex þingmenn á Evrópuþinginu, aðild að ráðherraráðinu og við fáum fulltrúa í framkvæmdastjórn og öllum stofnunum ESB.
Þingmenn okkar munu flestir verða hluti af meirihluta þingsins þar sem kristilegir demókratar, frjálslyndir flokkar og jafnaðarmenn hafa 406 atkvæði af 720.
Nýlega kom fram að Ísland er orðið að dýrasta landi í heimi. Meðal stærstu kostnaðarliða íslenskra heimila eru vextir og matur.
Með upptöku evru munu vextir á Íslandi taka mið af stýrivöxtum Seðlabanka Evrópu sem eru í dag um 2,4% meðan stýrivextir á Íslandi eru 7,5%. Þarna munar um 5% sem hefur verið til langs tíma vaxtamunur á krónu og evru, oft kallað „krónuálagið“.
Húsnæðislán á Íslandi að upphæð 50 milljónir kostar um 4,7 milljónir á ári í vexti miðað við óverðtryggða 9,48% vexti fyrsta árið hjá Arion banka.
Sama lán hjá bönkum í Þýskalandi kostar um 1,7 milljónir fyrsta árið. Þarna munar um 3 milljónum króna eða rúmum 250 þúsund krónum á mánuði.
Matarverð á Íslandi er með því hæsta í heiminum. Þessu valda meðal annars himinháir verndartollar á matvæli sem myndu falla niður við aðild að ESB.
Óttinn við að missa fullveldið og fiskimiðin við inngöngu í ESB er óþarfur. Öll ríkin 27 í ESB eru fullvalda ríki sem sjá hag sínum best borgið í alþjóðasamstarfi með tilheyrandi skuldbindingum og réttindum.
ESB er með sameiginlega stefnu í fiskveiðimálum sem á að tryggja viðhald fiskistofna og afkomu sjávarbyggða. Fiskimið okkar hafa enga tenginu við landhelgi ESB ríkja, enga sameiginlega fiskistofna og því munum við geta samið um full yfirráð yfir okkar landhelgi.
Í landbúnaði vill ESB tryggja samkeppni og tollfrjáls viðskipti. Íslenskur landbúnaður býr við mikla sérstöðu sem verður tryggð í aðildarsamningum með löngum aðlögunartíma og stuðningi frá ESB við landbúnað á norðurslóðum eins og finnskir bændur hafa notið ríkulega.
Í Evrópu ríkir ein mesta velmegun í heiminum. Menningin í Evrópu blómstrar og mannréttindi eru meðal þeirra bestu á Vesturlöndum. Friður og stöðugleiki hefur ríkt í ESB löndum í rúm 80 ár sem er lengsti friðartími í Evrópu í um 3000 ár.
Hagvöxtur er í öllum ríkjunum, atvinnuleysi hefur minnkað, öll viðskipti milli ESB landa eru tollfrjáls, verðbólga er lítil og vextir lágir sem ýtir undir framkvæmdir og fjárfestingar. Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir hefur aldrei verið meiri.
Fjöldi ESB sjóða styðja við sjávarútveg, vega- og brúargerð, landbúnað, orkuframleiðslu, fjarskipta og upplýsingatækni. Þeir styðja ríki sem hafa orðið fyrir náttúruhamförum, líka eldgosum og jarðskjálftum!
ESB er stærsta viðskiptasamband í heiminum og er stærsti útflytjandi heims á vörum og þjónustu en um 14% allra viðskipta heimsins eru á vegum ESB landanna.
Allir ESB borgarar njóta sömu réttinda hvað varðar atvinnu, almannatryggingar og skattamál hvar sem þeir búa innan ESB.
Viðhorfskannanir meðal íbúa ESB (Eurobarometer) sýna að um 74% telja land sitt hafa mikinn hag af aðildinni, um 89% telja að ESB þátttakan auki öryggi í álfunni og um 79% eru ánægð með evruna.
Við Íslendingar höfum þegar notið nokkurra atriða sem ESB hefur leitt í lög. Þar má nefna meðal annars landamæralaus ferðalög og sama síma- og netkostnað innan allra ESB ríkja.
Með ESB aðild munu allir Íslendingar geta búið, stundað nám og starfað hvar sem er innan ESB landa án nokkurra hindrana.
Eftir upptöku evru munum við öll fá útborguð laun í evrum sem við getum notað í öllum evrulöndum án skiptikostnaðar.
Þannig mun ESB aðildin létta okkur lífið á Íslandi í smáum og stórum málum.
Ég hvet þig ágæti lesandi til að fræðast um kosti ESB aðildar án þess að hræðast hana.
Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni, www.evropa.is.