Orðið á götunni er að vandræðagangurinn við að semja um þinglok milli stjórnar og stjórnarandstöðu stafi öðru fremur af því að mikil sundrung er í röðum stjórnarandstöðunnar og fullkomin ósamstaða þegar kemur að áherslum og forgangsröðun.
Nú virðist eitthvað hafa rofað til með þinglokasamninga en orðið á götunni er að enn sé samt allt í óvissu um þinglok vegna þess að þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna séu í raun umboðslausir til að ganga til samninga um framgang mála. Ítrekað hafi vaknað vonir um að einhver skriður væri að komast á mál, þingflokksformenn hafi vongóðir farið með tillögur inn í þingflokka sína en einatt komið til baka með þvert nei.
Hjá Sjálfstæðismönnum er staðan sú að formaður flokksins er í minnihluta í eigin þingflokki. Guðrún Hafsteinsdóttir vill losna við Hildi Sverrisdóttur sem formann þingflokksins en hefur ekki afl til þess. Hildur er talin veikur þingflokksformaður sem ekki hefur traust síns formanns og því erfitt að gera við hana samninga sem geta haldið.
Orðið á götunni er að í Framsóknarflokknum sé stemning á við það sem búast mætti við á líkvöku. Formaður flokksins er rúinn trausti en enginn sjáanlegur eftirmaður hans er í þingflokknum. Haft er á orði að það hafi verið ógæfa flokksins er Willum Þór Þórsson datt út og Sigurður Ingi Jóhannsson inn þegar síðustu atkvæðin höfðu verið talin í kosningunum í nóvember. Willum hefði verið sjálfsagður formaður flokksins hefði hann náð inn á þing. Ingibjörg Ísaksen, þingflokksformaður, heldur tryggð við Sigurð Inga en öllum er ljóst að grafalvarleg forystukrísa er í Framsóknarflokknum.
Orðið á götunni er að gott sé að eiga við Bergþór Ólason, þingflokksformann Miðflokksins, hann sé sanngjarn og raunhæfur þegar kemur að samningum um þinglok. Vandamálið sé bara að rétt eins og hinir þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar sé hann umboðslaus þegar allt kemur til alls. Formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ráði því sem hann vill ráða í flokknum og hann hafi slegið allar tillögur um þinglok út af borðinu fram til þessa.
Orðið á götunni er að Sigmundur Davíð sjáist sjaldan í þinghúsinu fyrr en líða tekur að kvöldmat og því séu enn nokkrar líkur á að það samkomulag um þinglok sem nú virðist í uppsiglingu sigli í strand seinna í dag. Einnig á eftir að koma í ljós hvort einhver samningsvilji er innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Orðið á götunni er að meðal þeirra mála sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi boðist til að fresta sé Bókun 35. Það ætti að kæta Miðflokksmenn sem voru þeir einu sem beittu sér í málþófi gegn framgangi þess. Hins vegar er veiðigjaldamálið ekki uppi á samningaborðinu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Því máli verður siglt í höfn á þessu þingi með góðu eða illu.