Það er mjög skynsamlegt af ESB að leggja ekki tolla á bandarískar vörur þrátt fyrir að nú verði lagður 15 prósenta tollur á evrópskar vörur í Bandaríkjunum. Þetta lágmarkar tjónið sem stafar af hinni gölnu stefnu Donalds Trump að reisa tollamúra um Bandaríkin. Sú stefna mun bitna illa á bandarískum neytendum, sennilega strax á komandi vetri.
Donald Trump hefur sett allt sem snýr að alþjóðaviðskiptum upp í háa loft með glórulausum tollum. Án efa munu tollar koma illa við mörg ríki, enda mörg þriðja heims ríki mjög háð tekjum af útflutningi til vestrænna ríkja, m.a. Bandaríkjanna. Þegar upp er staðið bendir hins vegar allt til þess að helstu fórnarlömb tollbrjálæðis Trumps verði Bandaríkjamenn sjálfir.
Svo virðist sem Trump og hans helstu ráðgjafar átti sig ekki á því að við lifum á 21. öldinni en ekki þeirri 19. Landakröfur hans á nágranna- og vinaríki Bandaríkjanna eru reyndar svo langsóttar að jafnvel heimsvaldasinnaðir einræðisherrar 19. aldar hefðu ekki farið með slíkt á hendur vina- og bandalagsþjóðum.
Tollastefna Trumps ber svo öll merki merkantílisma sem þjóðir heims, undir forystu Bandaríkjanna, báru gæfu til að losa sig undan. Þá virðist Trump og hans ráðgjafar ekki átta sig á því að alþjóðaviðskipti takmarkast ekki við fýsískar vörur sem fluttar eru milli landa. Þegar viðskipti landa í milli eru skoðuð verður að horfa líka til viðskipta með þjónustu og þekkingu. Nokkuð ljóst er að þegar heildarviðskipti Bandaríkjanna við önnur ríki eru skoðuð birtist allt önnur mynd af viðskiptajöfnuði en þegar aðeins er horft til vöruviðskipta.
Allt bendir til þess að tollaæði Trumps muni hafa þau áhrif að eitthvað af iðnaðarframleiðslu, sem flust hafði til ríkja sem framleitt geta vörur á ódýrari og hagkvæmari hátt en Bandaríkjamenn, muni á næstu árum flytjast aftur til Bandaríkjanna. Erfitt er að sjá aðrar afleiðingar af því en þær að verð á þessum vörum muni hækka og almenn lífsgæði í Bandaríkjunum (og víðar) skerðast. Trump virðist leggja allt kapp á að endurheimta hagkerfi liðins tíma en missir algerlega sjónar á stóru myndinni.
Í vikunni samdi Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við Trump um að tollar á Evrópskar vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna verði 15 prósent. ESB leggur engan toll á bandarískar vörur á móti. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna von der Leyen og ESB fyrir að svara ekki í sömu mynt. Talað hefur verið um að hún hafi lögst flöt fyrir Trump, lúffað fyrir honum og beðið algeran ósigur.
Þessi gagnrýni á von der Leyen er byggð á fullkomnum misskilningi og þekkingarleysi. Staðreynd málsins er sú að Trump er eins og fíll í glervörubúð sem brýtur allt og bramlar. Ekki virðist hægt að koma vitinu fyrir manninn með rökum og nokkuð ljóst að hann mun fara sínu fram. Það sem skiptir máli er að lágmarka tjónið sem verður af tollastefnu hans.
Það þarf ekki lærðar hagfræðigráður til að átta sig á því að tollur á innfluttar vörur hækkar vöruverð til neytenda í einu landi. Trump er því að hækka vöruverð í Bandaríkjunum. Þetta er aðgerð á kostnað bandarískra neytenda og í þágu bandarískra framleiðenda. Einnig bitna þessir tollar á erlendum framleiðendum sem standa nú frammi fyrir því að vörur þeirra hækka í verði á Bandaríkjamarkaði án þess að sú hækkun renni til þeirra. Þar með kemur þetta niður á efnahag þeirra ríkja sem fá á sig bandaríska tolla.
Með því að leggja ekki tolla á bandarískar vörur sem fluttar eru til Evrópu er ESB að vernda hagsmuni evrópskra neytenda. Ef sambandið leggur tolla á bandarískar vörur mun það gagnast evrópskum framleiðendum á kostnað evrópskra neytenda vegna þess að vöruverð hækkar. Við Íslendingar þekkjum vel virkni tolla vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa löngum lagt á verndartolla, t.d. á landbúnaðarafurðir, beinlínis til að hækka vöruverð og vernda íslenska framleiðendur á kostnað neytenda.
Með því að leggja ekki tolla á bandarískar vörur er ESB að lágmarka tjónið fyrir Evrópu af hinni gölnu tollastefnu Trumps. Það er verið að horfa á stóru myndina og tryggja hag neytenda svo sem mögulegt er. Bandarískir neytendur bíta hins vegar í það súra epli að tollastefna Trumps lendir á þeim af fullum þunga og munu þeir að líkindum finna vel fyrir því strax á komandi vetri.