Orðið á götunni er að almenningur sé búinn að fá sig fullsaddan af tíðum og kjánalegum upphlaupum og upphrópunum stjórnarandstöðunnar. Í veiðigjaldamálinu gekk stjórnarandstaðan gersamlega fram af fólki með Íslandsmeti í málþófi. Ræður stjórnarandstæðinga voru þar svo innihaldslausar að flestir töldu að ekki væri hægt að toppa sig á því sviði.
Orðið á götunni er að undanfarna daga hafi það mögulega gerst að einstakir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi toppað bullið sem borið var á borð í málþófinu. Nú eru það Evrópumál sem stjórnarandstæðingar sjá rautt yfir. Fyrst var það upphlaup vegna heimsóknar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands. Upp spruttu ásakanir um að von der Leyen gengi erinda íslensku ríkisstjórnarinnar og verið væri að smygla Íslandi bakdyramegin inn í sambandið.
Næst var rekið upp ramakvein þegar von der Leyen lýsti því yfir að aðildarumsókn Íslands frá 2009 væri í fullu gildi. Þetta kom engum á óvart nema stjórnarandstöðunni og skrímsladeildinni inni á Morgunblaðinu. Raunar virðist pínlegt minnisleysi hafa gripið um sig hjá starfsmönnum skrímsladeildar vegna þess að Morgunblaðið stóð á því fastar en fótunum að umsóknin væri í fullu gildi eftir að þáverandi utanríkisráðherra sendi eitthvert minnisblað til Brüssel um að í hans huga væri umsóknin afturkölluð.
Orðið á götunni er að það sé alveg dæmalaust að fullorðið fólk sem ætlast til að vera tekið alvarlega fabúleri með hluti eins og að halda því fram að einstakir þingmenn eða ráðherrar geti ógilt ákvarðanir Alþingis Íslendinga. Það sé t.d. ekki til að auka veg Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að ganga fram fyrir skjöldu vitleysingakórs og stagla á því að ESB hafi sagt ósatt í mörg ár. ESB hefur aldrei sagt umsóknina fallna úr gildi. ESB viðurkennir hins vegar rétt umsóknarríkja til að hægja á eða jafnvel gera hlé á umsóknarferlinu.
Svo tók nú kólfinn úr þegar það komst í fréttir að ESB íhugaði að setja tolla á íslenskt kísiljárn. Utanríkisráðherra var sakaður um laumuspil með málið, fullyrt að ekki hefði verið minnst einu orði á málið á fundi utanríkismálanefndar þrátt fyrir að ráðherra hefði þá haft vitneskju um málið í 10 daga. Gott ef ekki var fullyrt líka að Þorgerður Katrín hefði ekki rætt málið við Ursulu von der Leyen í heimsókn hennar.
Í laugardagsblaði Morgunblaðsins var haft eftir Guðlaugi Þór að Þorgerður Katrín hefði ekki nefnt tollamálið á fundi utanríkismálanefndar. Á mánudag dró hann í land og viðurkenndi að málið hefði verið nefnt en sagði ekki duga að hvísla um það á fundinum. Réttilega hefur verið bent á að sérstaklega hafði verið beðið um að ekki gilti trúnaður um orð Þorgerðar Katrínar á fundinum og því var ljóst að hendur hennar voru að mestu leyti bundnar þegar kom að þessu efnisatriði.
Orðið á götunni er að allt þetta mál sé hið furðulegasta af hálfu stjórnarandstöðunnar og þá ekki síst Sjálfstæðisflokksins. Ekkert tilefni hafi verið til að krefjast fundar í utanríkismálanefnd. Það hafi hins vegar tveir þingmenn gert, Sigurður Ingi Jóhannsson og Diljá Mist Einarsdóttir. Diljá Mist mun hafa verið erlendis þegar hún setti fram kröfuna með þeirri röksemd að mikilvægt væri að hitta ráðherrann. Þegar fundurinn var svo haldinn þremur dögum síðar var hún enn erlendis. Það var þá ekki mikilvægara en svo að hitta ráðherrann.
Orðið á götunni er að með furðulegum og kjánalegum yfirlýsingum undanfarna daga sólundi Guðlaugur Þór dýrmætu pólitísku kapítali sem hann hefur byggt upp á áratuga farsælum ferli. Kemur það mörgum á óvart.