fbpx
Föstudagur 11.júlí 2025
Eyjan

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“

Eyjan
Föstudaginn 11. júlí 2025 10:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gnarr settist á þing fyrir Viðreisn eftir síðustu Alþingiskosningar og finnst starfið bæði skemmtilegt og gefandi. Ólíkt því þegar hann sat í borgarstjórn gæti hann hugsað sér að sitja annað kjörtímabil á þingi, hafi kjósendur áhuga á áframhaldandi veru hans þar. Hann segir pólitíkina minna um margt á sviðslistir. Þar sé ákveðinn leikaraskapur til staðar samhliða einlægni og metnaði. Og líkt og með sviðslistirnar er ekki alltaf allt sem sýnist.

Jón birti rétt í þessu langa færslu á Facebook þar sem hann virðist vorkenna stjórnarandstöðunni út af þeirri stöðu sem þar er komin upp, en Jón spáir því að málþófið snúist fyrst og fremst um hræðslu.

„Mér fannst þetta málþóf um veiðigjöldin áhugavert og jafnvel smá fyndið til að byrja með. Ég ímyndaði mér að þingmenn stjórnarandstöðunnar myndu fljótt þreytast á þessu, sérstaklega í ljósi þess að mér finnst þau ekki hafa haft neitt málefnalegt til málanna að leggja heldur helst hengja sig í sparðatíningi um formsatriði, orðalag, talnaspeki eða jafnvel hreinar rangfærslur. En svo gerðist það ekki heldur héldu þau bara áfram og margar þær ræður sem fluttar hafa verið eru örugglega með því innihaldslausasta þvaðri sem sagt hefur verið á Alþingi.

Á tímabili var hlaupinn svo mikill galsi í hópinn og jafnvel kvöldúlfur þannig að þau flissuðu og sprungu jafnvel úr hlátri uppí pontu undir eigin bulli.“

Raus í fulla kallinum

Jón rekur að hagsmunasamtök útgerðarinnar, SFS, hafi ráðist í metnaðarfulla auglýsingaherferð samhliða þófinu sem þó fór öfugt ofan í landsmenn. Eins hafi hver skoðanakönnun eftir annarri sýnt að meirihluti þjóðarinnar styður frumvarpið. Jón hélt í ljósi þessa að stjórnarandstaðan færi að kalla þetta gott, en annað kom á daginn.

„Mér fannst það svo skrítið því fyrir mér var þetta svo augljóstlega töpuð barátta. Ræðurnar voru nú teknar að minna á raus í fulla kallinum, sem reynir að króa þig af eða halda þér föstum því hann segist vilja segja þér eitthvað gríðarlega merkilegt en getur svo ekki komið því skiljanlega frá sér. En maður má alls ekki segja fulla kallinum að hann sé þreytandi og leiðinlegur því þá er hætt við að honum sárni. Málþófið hélt bara áfram og súrnaði meira með hverjum deginum og partýið breyttist fljótt úr venjulegu partýi í lengsta eftirpartý Íslandssögunnar.“

Þá fór Jón að velta fyrir sér hvers vegna stjórnarandstaðan stæði í þessu. Hann telur sig skilja þingmenn Miðflokks enda sé sá flokkur með sérhæfingu í að vera á móti alls konar og kunni málþófslistina vel. Sjálfstæðisflokkurinn sé svo með mestu tengsl allra flokka við útgerðina. Jón vekur athygli á því að fulltrúar Morgunblaðsins hafi verið nær daglegir gestir á Alþingi undanfarnar vikur.

„Og oft má sjá Andrés Magnússon sitja þungbrýndan á pöllunum. Líklegast er hann að brýna sína menn til dáða og færa til bókar hverjir eru að standa sig og hverjir ekki. Tilskipanirnar úr höfuðstöðvunum eru skýrar: hér skal barist til síðasta manns.“

Jón á erfiðara með að átta sig á Framsókn. Mögulega hafi þingmenn flokksins haldið í vonina að stjórnarliðar myndu þreytast og draga frumvarpið til baka, en í dag ætti öllum að vera ljóst að það er ekki að fara að gerast.

Fyrst grín, svo sprell en nú bara fíflagangur

Jón segir að málþófið hafi verið fyndið til að byrja með en nú sé það orðið hallærislegt.

„Þetta málþóf byrjaði sem grín en varð svo smátt og smátt að sprelli. En nú er þetta orðið hreinn og klár fíflagangur. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar minna mig helst á langdrukkið fólk sem kemur til dyra, hálfopnar svo ekki sjáist inn og heldur því blákalt fram að það sé ekkert partý í gangi í íbúðinni þótt það heyrist mjög greinilega um allt húsið.“

Nú hafi stjórnarandstaðan gert hagsmunamál ákveðinnar valdastéttar að sínu helsta baráttumáli og þannig tafið afgreiðslu margra mikilvægra mála og takmarkað getu Alþingis til að gegna hlutverki sínu í lýðræðissamfélagi. Jón hafði furðað sig á þessari stöðu en telur sig nú vita hvers vegna stjórnarandstaðan getur ekki látið af þófinu. Hún sé hreinlega hrædd við atkvæðagreiðsluna.

„Í rauninni skelfingu lostin. Þegar þau æpa uppí pontu um áhyggjur sveitarfélaganna þá held ég að þar sé aðeins yfirfærsla á þeirra eigin óöryggi. Og hreint ekki að ástæðulausu. Þau eru milli steins og sleggju.“

Annað hvort þurfi þau að kjósa gegn frumvarpinu og þá gegn vilja meirihluta þjóðarinnar, eða þau kjósa með því og styggja þar með valdamikinn hóp auðmanna sem geti upplifað það sem svik sig og brugðist hranalega við. Þar með sé það eina í stöðunni að tefja málið með öllum ráðum.

„Það held ég að sé mergurinn málsins. En hvað veit ég sossem?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Ísak Snær til Lyngby
Eyjan
Í gær

Diljá Mist segir sig og nágranna sína upplifa sig afskipta – „Höfum misgóða reynslu af áhuga og umhyggju stjórnmálamanna fyrir hverfinu okkar“

Diljá Mist segir sig og nágranna sína upplifa sig afskipta – „Höfum misgóða reynslu af áhuga og umhyggju stjórnmálamanna fyrir hverfinu okkar“
Eyjan
Í gær

Svona býr Áslaug Arna í New York – „Indæla Upper West Side er nýja heimilið mitt“

Svona býr Áslaug Arna í New York – „Indæla Upper West Side er nýja heimilið mitt“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjáðu kostulega ræðu flissandi Guðlaugs á Alþingi í dag „ÞETTA ER GEGGJAÐUR DAGUR“

Sjáðu kostulega ræðu flissandi Guðlaugs á Alþingi í dag „ÞETTA ER GEGGJAÐUR DAGUR“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur súr í pontu Alþingis – „Við skulum þá bara fara heim virðulegi forseti“

Vilhjálmur súr í pontu Alþingis – „Við skulum þá bara fara heim virðulegi forseti“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni