fbpx
Þriðjudagur 01.júlí 2025
Eyjan

Jón Gnarr spenntur fyrir málþófinu í dag – „Ég veit að það er mikil spenna yfir því að minnsta kosti innanhúss“

Eyjan
Þriðjudaginn 1. júlí 2025 11:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar er heldur betur peppaður fyrir deginum. Dagurinn virðist ætla að verða bjartur og sólríkur, hann er á leið í göngutúr með hundinn sinn Klaka og svo er auðvitað málþóf á Alþingi. Þó að hann nái ekki að hlusta á allar ræðurnar í dag þá huggar hann sig við það að þær eru allar teknar upp og verða varðveittar til frambúðar. Þetta kemur fram í færslu Jóns þar sem hann slær á létta strengi í tilefni dagsins og fer yfir stöðuna.

Stór dagur hjá Jóni Pétri og Ólafi

„Stór dagur hjá Jóni Pétri Zimsen sem fagnar í dag sinni tuttugustu ræðu um sama mál. Jón er ræðumaður sem nær að gera hverja ræðu einstaka. Tólfta ræðan hans er ógleymanleg en þó bara einsog fyllerísraus samanborið við þá sautjándu sem sýnir vel hvað hann er að þroskast sem ræðumaður.“

Jón segist eiga erfitt með að svara spurningum um hver sé hans uppáhalds ræðumaður í umræðunni. Það sé erfitt að gera upp á milli, allir séu svo frábærir. Hann nefnir þó sérstaklega Sigmund Davíð Gunnlaugsson og félaga hans í Miðflokknum – enda fagmenn þar á ferð sem eigi núverandi Íslandsmet í málþófi, met sem mögulega verður slegið í sumar. „Það verður spennandi að sjá.“

Þingmaðurinn rekur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi litla reynslu af því að vera í stjórnarandstöðu en sé þó að koma sterkur inn.

„Mörgum gamalreyndum pólitíkusum fannst nokkur viðvaningsbragur af því að fara strax af stað með málþóf í fyrstu umræðu og sögðu að það væri einsog að brenna af stað og beint á harðasprett í langhlaupi og hætt við að fólk myndi fljótt þreytast og jafnvel örmagnast. En það hefur enn ekki gerst og þrátt fyrir reynsluleysi sitt, eftir að hafa lengstaf setið við stjórnarborðið, er Sjálfstæðisflokkurinn að sýna okkur að hann er enginn eftirbátur Miðflokksins í þessari fornu ræðulist.“

Jón rekur að Sjálfstæðismaðurinn Ólafur Adolfsson sé í dag að flytja sína 32. ræðu. „Ég veit að það er mikil spenna yfir því, að minnsta kosti innanhúss. Hvernig mun hann toppa síðustu ræðu?“

Fátt fólk er samt líka fólk

Þegar þessir þingmenn eru ekki að halda ræðu eru þeir að semja ræðu, flytja fyrir fjölskyldur sínar eða æfa sig fyrir framan spegil. Mögulega eru þeir líka að hittast utan funda til að stilla saman strengi. Jón vísar ásökunum um að sumar ræðurnar séu samdar af gervigreind alfarið á bug.

Loks minnir þingmaðurinn á að stjórnarandstaðan hafi verið sökuð um sérhagsmunagæslu. Fólk þurfi að hafa í huga að sægreifarnir geti ekkert að því gert þó að stétt þeirra sé fámenn.

„Ég vil líka hér tæpa á einu, varðandi þessa umræðu um veiðigjöld, og það nöldur sem ég heyri stundum um að þetta sé mál sem varði hag fárra en sé á kostnað allrar þjóðarinnar, að sumir séu hér að sjá ofsjónum yfir því að eiga á hættu að missa spón úr aski sínum sem verði eftir sem áður kúfullur og þetta sé bara sérhagsmunagæsla og níska. Það getur vel verið rétt. En við megum ekki gleyma því að fátt fólk er samt líka fólk. Það getur ekkert gert að því þótt það sé fátt. Gleymum því ekki.“

Skemmtilegast þykir Jóni þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar springa úr hlátri í pontu. Þá sé erfitt að hlæja ekki með þeim. Jón þekkir það sjálfur úr gríninu og segir gott að geta hlegið að sjálfum sér, sérstaklega þegar enginn annar er að því.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Bygging á Orkureitnum fær Svansvottun 4 fyrst allra húsa á Norðurlöndunum

Bygging á Orkureitnum fær Svansvottun 4 fyrst allra húsa á Norðurlöndunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Nýtt kaupaukakerfi í Íslandsbanka ofan á 12 prósenta kauphækkun stjórnenda

Orðið á götunni: Nýtt kaupaukakerfi í Íslandsbanka ofan á 12 prósenta kauphækkun stjórnenda
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Skotin ganga á víxl á Alþingi – Stjórnarandstaðan móðguð út í Ingu og Kristrúnu

Skotin ganga á víxl á Alþingi – Stjórnarandstaðan móðguð út í Ingu og Kristrúnu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar