fbpx
Þriðjudagur 01.júlí 2025
Eyjan

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni

Ólafur Arnarson
Mánudaginn 30. júní 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa þrástagast á því í umræðu um leiðréttingu veiðigjalda á þingi að um skattahækkun sé að ræða. Þetta er furðuleg þráhyggja hjá stjórnarandstöðunni vegna þess að veiðigjöld eru ekkert annað en endurgjald fyrir afnot af eign sem aðrir eiga, rétt eins og húsaleiga eða rekstrarleiga á bíl eða öðru tæki.

Veiðigjöldin eru frádráttarbær rekstrarkostnaður fyrirtækja. Með öðrum orðum þau eru kostnaður sem dragast frá tekjum áður en skattur er lagður á.

Í þessu sambandi má nefna að margs konar kostnaðarliðir eru frádráttarbærir í rekstrarreikningi fyrirtækja. Húsaleiga er einn slíkur. Annar er rekstur þeirra tækja og tóla sem þörf er á til rekstrarins. Laun eru slíkur liður og það eru launatengd gjöld einnig. Mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóði eru frádráttarbær rekstrarkostnaður. Sama gildir um tryggingagjaldið, sem er nefnilega ekki skattur heldur launatengdur kostnaður og því frádráttarbært frá skatti.

Eðli skatta er að þeir eru ekki frádráttarbærir frá sköttum enda væri þá komin hringavitleysa í gang sem engan enda gæti tekið.

Önnur dæmi um gjaldtöku af hálfu ríkisins, sem ekki fellur undir skilgreininguna skattur af fyrirtækjum, eru t.d. eldsneytisgjald og bifreiðagjald sem koma að fullu til frádráttar í rekstri.

Einnig má taka dæmi um önnur veiðileyfagjöld. Þeir sem vilja skjóta hreindýr sækja um leyfi til þess og borga fyrir það leyfi fái þeir úthlutað. Þetta er ekki skattur heldur greiðsla fyrir afnot af takmarkaðri auðlind.

Þetta er ekkert frábrugðið því þegar keypt eru lax- eða silungsveiðileyfi. Í þeim tilvikum eru leyfin ekki keypt af ríkinu eins og þegar keypt eru veiðileyfi á hreindýr eða fiskinn í sjónum en grundvallaratriðin eru þau sömu. Þeir sem vilja nýta takmarkaða auðlind verða að greiða eigendum hennar fyrir afnot af henni.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Þeir sem ráða ríkjum innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi vilja ekki greiða eðlilegt endurgjald fyrir afnot af sameiginlegri þjóðarauðlind okkar Íslendinga. Ráðandi öfl þar eru stærstu útgerðarfyrirtæki landsins en eigendur þeirra hafa á nokkrum árum komið sér upp 500 milljarða eiginfjárstöðu og keypt upp flest stærri fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum.

Þetta hafa útgerðarfyrirtækin ekki gert vegna þess að stjórnendur þeirra og eigendur séu þvílíkir snillingar í rekstri að allt verði að gulli í höndum þeirra. Án þess að neinni rýrð sé kastað á þetta ágæta fólk er ástæðan fyrir auðsöfnuninni einfaldlega sú að þau hafa fengið fiskinn í sjónum umhverfis Ísland næstum gefins. Gjafakvótinn en ekki viðskiptasnilld er hornsteinn gróðans. Þetta er mergurinn málsins.

Grípi stórútgerðin til þess ráðs að flytja vinnslu úr landi og segja upp fólki er það einfaldlega meðvituð ákvörðun sægreifanna að gera slíkt en hefur ekkert með það að gera hvort veiðigjaldið er nokkrum milljörðum hærra eða lægra. Hærra veiðigjald getur dregið úr fjárfestingagetu eigenda stórútgerðarinnar í öðrum greinum en hefur engin áhrif á getu til að viðhalda blómlegri starfsemi í sjávarplássum í kringum landið.

Innan SFS takast á tveir pólar. Annars vegar eru harðlínumennirnir, sem mega ekki til þess hugsa að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni eðlilegt endurgjald. Talað er um að herforingjar þessa hóps séu Akureyringar og Vestmannaeyingar. Hins vegar eru þeir sem vilja gjarnan að stórútgerðin greiði eðlilegt endurgjald, það sé til vinnandi til að skapa sátt meðal þjóðarinnar um íslenskan sjávarútveg. Brotthvarf Guðmundar í Brim úr formannsstóli SFS er til merkis um að harðlínumennirnir hafa undirtökin þar á bæ. Þeir etja jafnframt stjórnarandstöðunni, sér í lagi Sjálfstæðismönnum og Miðflokki, á foraðið fyrir sig í umræðum á Alþingi með þeim árangri að Sjálfstæðisflokkurinn er nú kominn niður í rúm 17 prósent.

Engu máli skiptir hve mjög stjórnarandstaðan og SFS þenja sig um „landsbyggðarskatt.“ Leigugreiðslur fyrir afnot af annarra manna eign eru ekki og verða aldrei skattur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorbjörg Sigríður: Ríkisstjórnin klárar stóru málin – fólk kann að meta breytingarnar sem fylgja stjórninni

Þorbjörg Sigríður: Ríkisstjórnin klárar stóru málin – fólk kann að meta breytingarnar sem fylgja stjórninni
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Saka Heiðrúnu Lind um alvarlegar rangfærslur – „Notast áfram við tölur sem hún veit að eru ekki þær réttu“

Saka Heiðrúnu Lind um alvarlegar rangfærslur – „Notast áfram við tölur sem hún veit að eru ekki þær réttu“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorbjörg Sigríður: Annaðhvort veit Guðrún Hafsteinsdóttir ekki betur eða hún talar gegn betri vitund

Þorbjörg Sigríður: Annaðhvort veit Guðrún Hafsteinsdóttir ekki betur eða hún talar gegn betri vitund
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður las Sigurði pistilinn – „Ég veit ekki hvort þetta er bíræfni eða ósvífni af hálfu formanns Framsóknarflokksins“

Þorgerður las Sigurði pistilinn – „Ég veit ekki hvort þetta er bíræfni eða ósvífni af hálfu formanns Framsóknarflokksins“