fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun

Svarthöfði
Fimmtudaginn 26. júní 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Augljóst að stjórnarandstöðunni hefur gjörsamlega mistekist,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, fyrrum prófessor og helsti greinandi stjórnmála á Íslandi hin síðari ár. Þetta kom fram í viðtali á Vísi í dag þegar hann var spurður álits á nýrri skoðanakönnun sem sýnir að Samfylkingin bætir enn við sig fylgi, er komin í 28 prósent en hafði 20,8 prósenta stuðning í kosningunum 30. nóvember sl. Á sama tíma tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi og dettur nú niður í 17 prósenta fylgi en fékk rúm 19 prósent í kosningunum.

Svarthöfði verður að vera sammála Ólafi Þ. Harðarsyni. Niðurstaða þessarar nýju könnunar gefur til kynna að falsfréttir og ómálefnalegur málflutningur Sjálfstæðismanna fer öfugt ofan í fólk. Fólkið áttar sig á því að sangjarnt og rétt er að fólk greiði leigu fyrir afnot af eign sem það á ekki en fær að nýta. Leiga er ekki skattur, svo einfalt er það nú.

Svarthöfði er á þeirri skoðun að það sé afbragðsgóður árangur hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum að halda því fylgi sem þeir fengu í kosningunum fyrir sjö mánuðum. Yfirleitt lætur fylgi stjórnarflokka undan síga þegar miklar árásir eru gerðar á þá eins og verið hefur. Samt er fylgi ríkisstjórnarflokkanna áfram rúm 50 prósent en fylgi stjórnarandstöðuflokkanna þriggja er óbreytt í 37 prósentum þrátt fyrir að stjórnarandstaðan og fjársterk öfl í samfélaginu hafi hvergi dregið af sér í gríðarlegum áróðri, gagnrýni og beinlínis árásum á stjórnarflokkana og einstaka ráðherra.

Einna helst hefur áróðurinn bitnað á Flokki fólksins sem tapar fylgi en Samfylkingin bætir aftur á móti verulega við sig fylgi sem hefur aukist um rúman þriðjung frá kosningum. Svarthöfði hefur þá bjargföstu trú að þakka megi það staðfestu og myndarlegri framgöngu forsætisráðherrans, Kristrúnar Frostadóttur, sem haggast ekki þótt ómaklegar árásir og lygaáróður dynji á ríkisstjórn hennar heldur verst fimlega og blæs til sóknar.

Væri Svarthöfði í PR-ráðgjöf, sem hann er raunar ekki, myndi hann hvetja forystufólk Sjálfstæðisflokksins til að staldra nú við. Flokknum var hafnað í síðustu kosningum sennilega vegna þess að hann var burðarás í ósamstæðri og verklausri vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur í nærri sjö ár. Bjarni Benediktsson játaði sig sigraðan og vék til þess að flokkurinn gæti valið sér nýjan formann og hafði nýja sókn. Nýr formaður var kjörinn en batinn lætur á sér standa.

Svarthöfði er ekki frá því að ástæða þess að málatilbúnaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi virkar ekki sé sú að flokkurinn hefur látið Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi draga sig út í vanhugsaða og barnalega hagsmunagæslu fyrir sægreifana. Reitt var hátt til höggs og sett í gang herferð til að skapa samúð með sægreifunum og fólkinu úti á landi. Tangarsókn var skipulögð þar sem samtök sægreifa keyrðu rándýrar auglýsingar í sjónvarpi og þingmenn Sjálfstæðisflokksins stóðu vaktina í þinginu.

Niðurstöðurnar eru sorglegar fyrir bæði flokkinn og greifana. Allt virkaði þetta öfugt. Auglýsingarnar eru aðhlátursefni sem og þingmenn Sjálfstæðisflokksins og málflutningur þeirra. Svarthöfði veltir fyrir sér hvort þar kunni að gæta áhrifa þess að þingflokkur Sjálfstæðismanna er ekki svipur hjá sjón. Hann má muna fífil sinn fegurri. Þar sem eitt sinn riðu um héruð hetjur á borð við Ólaf Thors, Gunnar Thoroddsen, Davíð Oddsson og Friðrik Sophusson sitja nú eftir Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Jón Pétur Zimsen og Jens Garðar Helgason. Í hvert sinn sem þetta fólk stígur í ræðustól Alþingis með skæting um veiðigjöld reytist fylgið af flokknum.

Framsóknarflokkurinn er svo gjörsamlega rúinn trausti eftir síðustu kosningar og auma frammistöðu á pólitíska sviðinu síðan að varla tekur því að nefna hann. Af virðingu við þennan elsta flokk landsins ætlar Svarthöfði samt að gera það. Flokkurinn er fastur í sjö prósenta fylgi og ekki er að sjá að neitt muni þar rofa til. Fylgið sem Sjálfstæðisflokkurinn missir um þessar mundir færist yfir á Klausturdrengina í Miðflokkum, eins ótrúlegt og það sýnist vera. Kjósendur virðast ekki gleyma því svo glatt að Framsókn bar ábyrgð á vinstri stjórn Katrínar ásamt Sjálfstæðisflokknum.

Flokkur fólksins hefur orðið fyrir mestum árásum allra það sem af er kjörtímabili. Í vissum tilvikum geta forystumenn flokksins sjálfum sér um kennt en í öðrum tilvikum var gert áhlaup á flokkinn og ráðherra hans sem hafði afleiðingar. Illskeyttar árásir sem RÚV hóf gagnvart Ásthildi Lóu Þórsdóttur sem þá gegndi stöðu ráðherra. Morgunblaðið og þingmenn stjórnarandstöðunnar slógust í hópinn með RÚV og héldu óhæfuverkunum áfram uns hún sagði af sér ráðherradómi. Nú hefur það komið á daginn að Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað að fréttamaður RÚV, Sunna Karen Sigþórsdóttir, hafi brotið siðareglur Blaðamannafélagsins með ámælisverðum hætti enda var umfjöllun hennar og fréttastofunnar einkar ósvífin.

Svarthöfði er þeirrar skoðunar að málþóf stjórnarandstöðuflokkanna hafi þegar valdið þeim miklum skaða. Bregðist honum ekki minni hneykslaðist enginn eins mikið á ítrekuðu málþófi Pírataflokksins og sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn. Nú er hann tekinn við þessu vafasama hlutverki Pírata og þykir mörgum lítið leggjast fyrir hetjur Valhallar.

Svarthöfði ber þá von í brjósti að forseti Alþingis grípi fljótlega til úrræða til að stöðva ruglið með beitingu 71. greinar þingskapalaga. Það þarf að frelsa þingheim og þjóðina frá því böli sem innihaldslaust málþóf er sem gerir ekki annað en að rýra virðingu þingsins enn frekar. Skrípalætin sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sýnt nú þegar munu án efa hjálpa kjósendum að gera upp hug sinn í næstu kosningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eze fer til Tottenham
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða
EyjanFastir pennar
13.07.2025

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald