fbpx
Miðvikudagur 30.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þáttaskil í Evrópuumræðu

Eyjan
Fimmtudaginn 12. júní 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirlýsing Árna Þórs Sigurðssonar fyrrum formanns utanríkisnefndar Alþingis um stuðning við þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið markar nokkur þáttaskil í pólitíkinni.

Óvanalegt er að svo afdráttarlaus stuðningur um fulla aðild að Evrópusambandinu komi úr röðum áhrifamanna til vinstri við Samfylkinguna. Það mengi er nú um tíundi hluti kjósenda.

Að ljá kjósendum rödd

Í langan tíma hafa skoðanakannanir sýnt að um og yfir helmingur kjósenda VG hefur verið fylgjandi aðild.

En þessi helmingur kjósenda VG átti aldrei rödd í forystu flokksins. Í síðustu kosningum fóru þessir kjósendur í stórum stíl yfir til Samfylkingar af ýmsum ástæðum.

Árni Þór hefur nú ljáð Evrópuskoðun þessa þögla hóps kjósenda rödd. Tímamótin eru fyrst og fremst fólgin í því.

Á þessu stigi er þó ekki sjálfgefið að þetta hafi áhrif á fylgi VG. Ætla má að það ráðist fremur af því hvort núverandi forysta hyggst þrengja málefnastöðuna til vinstri eða opna hana nær miðjunni eins og flestir systurflokkar VG á Norðurlöndum hafa gert.

Kaflaskil

Það eru líka teikn á lofti um breiðari stuðning við aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins. Umræður um bókun 35, sem snýst um að treysta réttarstöðu borgaranna við framkvæmd EES-samningsins, endurspegla einnig nokkur tímamót.

Bókun 35 er eitt af þeim málum, sem gamla ríkisstjórnin gat ekki leyst. Nýja ríkisstjórnin fékk það í arf. Áframhaldandi seta gömlu stjórnarinnar hefði stefnt EES-samningnum í uppnám.

Fyrrverandi utanríkisráðherra flutti málið fyrst. Framgangur þess strandaði ekki bara á ágreiningi milli þáverandi stjórnarflokka heldur einnig á kröftugri andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins.

Sá klofningur var snar þáttur í því að Sjálfstæðisflokkurinn átti takmarkaða möguleika á áframhaldandi setu við ríkisstjórnarborðið.

Nú benda umræður á Alþingi til þess að nýjum formanni hafi tekist að yfirvinna þennan klofning í þingflokknum, nema móthaldsmennirnir hafi bara dottið út.

Miðflokkurinn virðist því vera einangraður í málinu. Þessi umskipti marka því líka nokkur pólitísk kaflaskil, sem ekki hefur verið gaumur gefinn.

Nýr tími eða liðin öld

Fyrir sextán árum gekk Framsókn til kosninga með fulla aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá. Það var arfleifð frá þeirri frjálslyndu forystu, sem vildi fremur líta til nýrra tíma en liðinnar aldar.

Þetta viðhorf breyttist fljótt og Framsókn hefur síðan átt erfitt með að finna hugmyndafræðilega fótfestu, sem félli að miðjuhlutverkinu í nútímanum.

Tveimur vikum fyrir kosningarnar 2021 sveiflaðist fylgi frá Viðreisn og Samfylkingu yfir til Framsóknar. Flokkurinn fylgdi þessum mikla kosningasigri eftir í borgarstjórnarkosningum árið eftir. Nú er þessi sveifla ríflega gengin til baka.

Ein af ástæðunum fyrir því að Framsókn tókst ekki að halda stöðunni er sú að hún hélt áfram að þrengja afstöðu sína til alþjóðlegrar samvinnu fremur en að mæta viðhorfum nýrra kjósenda, sem augljóslega voru í ríkum mæli fylgjandi fullri Evrópusambandsaðild.

Gamli frjálslyndi armur Framsóknar hefur ekki ljáð þessum kjósendum rödd á miðjunni með þeim hætti, sem Árni Þór Sigurðsson hefur gert lengst til vinstri.

Ómöguleikakenningin

Mengi þeirra kjósenda allra flokka, sem styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna, fer stækkandi. Að sama skapi er meiri breidd í hópi talsmanna fyrir þessari afstöðu.

Þessi kaflaskil í Evrópuumræðunni rifja upp ómöguleikakenninguna, sem þingflokkur sjálfstæðismanna bjó til fyrir tólf árum þegar hann ákvað að svíkja kosningaloforðið um þjóðaratkvæði. Framsókn og Miðflokkur hafa fylgt þessari kenningu síðan.

Ómöguleikakenningin er fólgin í því að þjóðaratkvæði sé óframkvæmanlegt því að flokkarnir þrír vilji ekki fylgja ákvörðun meirihluta þjóðarinnar gangi hún á svig við stefnu þeirra, öfugt við það sem algengast er við slíkar aðstæður.

Þetta er þó alveg gild afstaða. En afleiðingin er skýr:

Ómöguleikakenningin þýðir einfaldlega að flokkarnir vilja hvorki bera stjórnskipulega ábyrgð á viðræðum né framkvæmd aðildarsamnings. Fari svo að meirihluti þjóðarinnar samþykki framhald aðildarviðræðna hafa þessir flokkar sjálfir útilokað sig frá ríkisstjórnarþátttöku til lengri tíma.

Þegar nær dregur þjóðaratkvæðinu, sem vaxandi stuðningur er við, þurfa stjórnarandstöðuflokkarnir því að svara spurningunni: Er ómöguleikakenningin enn í gildi?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Högg í maga United
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir
EyjanFastir pennar
25.06.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar
EyjanFastir pennar
25.06.2025

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!