fbpx
Þriðjudagur 20.maí 2025
EyjanFastir pennar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Evrópuferð ríkisstjórnarinnar

Eyjan
Þriðjudaginn 20. maí 2025 06:00

Davíð Þór Björgvinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB á árinu 2027. Ég held að margir sem studdu Viðreisn eða Samfylkinguna hefðu kosið að þetta yrði fyrr. Sú tilfinning hafur styrkst eftir valdatöku Trumps í Bandaríkjunum enda blasir við að Evrópuríki þurfa að þétta raðirnar. Hvað sem þessu líður er þegar nokkuð liðið á árið 2025 og ríkisstjórnin bráðum sex mánaða. Tíminn líður hratt og við því að búast að ríkisstjórnin þurfi að fara að huga að því að búa landsmenn undir að greiða atkvæði um hvort viðræðum skuli haldið áfram og móta áætlun um um hvernig á málum skuli haldið ef niðurstaðan verður sú að landsmenn vilja taka upp þráðinn að nýju.

Gerum ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram um mitt ár 2027 og í ljós komi að landsmenn vilji viðræður. Þá standa væntingar þeirra líklega til þess að viðræðurnar hefjist svo fljótt sem kostur er. En þá er bara eitt ár (eða í mesta lagi eitt og hálft ár) eftir af kjörtímabilinu, eftir því hvenær árs 2028 kosið verður. Vitaskuld er útilokað að ríkisstjórnin geti, meðan hún er við völd, klárað samningaviðræðurnar með samningsdrögum, setja þau í þjóðaratkvæði eins og boðað hefur verið og loks koma málinu til meðferðar til Alþingis enda þess að vænta að breyta þurfi fjölda laga og setja ný og svo raunar sjálfri stjórnarskránni áður en að aðild getur orðið! Ekki léttir róðurinn fyrir ríkisstjórnina að einn stjórnarflokkana, Flokkur fólksins, er á móti aðild, ef ég skil rétt, en hlynntur þjóðaratkvæðinu sem tækifæri til að taka málið af dagskrá!

Hinn pólitíski veruleiki er sá að Evrópusinnar geta í besta falli vænst þess við þessar aðstæður að þjóðaratkvæðagreiðslan verði í raun haldin, niðurstaða hennar verði jákvæð og loks að það takist að halda nokkra fundi í Brussel til að undirbúa raunverulegar samningaviðræður. Þegar þar er komið sögu er sá tími kominn að kjósa verði aftur til þings. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að upp úr kjörkössunum komi allt önnur ríkisstjórn sem láti það verða sitt fyrsta verk að skrifa bréf til Brussel og fresta frekari viðræðum vegna pólitísks ómöguleika og það jafnvel áður en þær í raun hefjast fyrir alvöru! Ég ráðlegg Evrópusinnum að stilla í hóf væntingum sínum um hversu miklu ríkisstjórnin fái áorkað í raun í þessu stóra máli þótt atkvæðagreiðslan verði haldin.

Eitt er það þó sem ríkisstjórnin gæti kannski gert á kjörtímabilinu ef hún vill sýna vilja sinn í verki, en það er að hlutast til um breytingar á stjórnarskrá til að gera aðild að ESB stjórnskipulega mögulega. Vandamálið er að hingað til hefur verið talið að ekki sé hægt að ganga í ESB að óbreyttri stjórnarskrá. Þetta álitamál sem slíkt hefur þó ekki verið skipulega rannsakað að því er varðar ESB sérstaklega þótt talsvert liggi fyrir um stjórnskipuleg vandamál tengd aðild að EES. Við skulum samt ganga út frá að stjórnarskrárbreyting sé nauðsynleg.

Um breytingar á stjórnarskrá gilda ákvæði 79. gr. hennar. Þar kemur fram að tillögu um breytingu á stjórnarskrá þurfi að samþykkja óbreytta á tveimur þingum með kosningum til Alþingis á milli. Breytir þá engu hversu margar þjóðaratkvæðagreiðslur fara fram í aðdragandanum. Með þeim er ekki hægt að breyta stjórnarskránni. Mér finnst stundum eins og sumir Evrópusinnar geri sér ekki grein fyrir þessu vandamáli, eða bara kjósi að gera eins og strúturinn og stinga hausnum í sandinn og láta eins og það sé ekki til eða sé bara einfalt og auðvelt formsatriði sem leyst verði í lokin þegar allt annað er komið. Hinn pólitíski veruleiki er allt annar á Íslandi. Hann er sá að þetta getur reynst hindrun sem mjög erfitt verður að yfirstíga nema breið pólitísk samstaða sé um breytingar á stjórnarskrá. Ekki er líklegt að slík samstaða skapist um breytingar á stjórnarskrá sem augljóslega hefur þann tilgang fyrst og fremst að greiða fyrir inngöngu í ESB. Algjörlega er fyrirséð að þetta eitt og sér verður alltaf sérstök hindrun sem þarf að komast yfir. Ríkisstjórnarflokkarnir sem í orði styðja aðild, Viðreisn og Samfylking, hafa samt ágætt tækifæri til að sýna í verki hug sinn til aðildar Íslands að ESB. Þetta geta þeir gert með því að setja strax af stað vinnu við undirbúning að breytingu á stjórnarskrá sem rúmar það framsal valdheimilda ríkisins til ESB sem þarf til fullrar þátttöku. Frumvarp til breytinga á stjórnarskrá þyrfti síðan að leggja fram á þingi og freista þess afgreiða undir lok kjörtímabilsins. Ég segi undir lok þess því rjúfa þarf þing strax ef breyting á stjórnarskrá er samþykkt í hið fyrra sinn og boða til kosninga. Vitaskuld getur ríkisstjórnin ekki tryggt að slík breyting verði samþykkt á nýju þingi, en hún hefur í hendi sér, eða öllu heldur sá þingmeirihluti sem hún hefur að baki sér nú, enda standi Flokkur fólksins ekki í vegi fyrir því. Með þessu yrði stigið nauðsynlegt skref til að aðild strandi ekki að lokum á stjórnarskránni. Með því að gera þetta sýna þeir flokkar ríkisstjórnarinnar sem eru hlynntir aðild í verki þann raunverulega vilja sinn að ganga í ESB. Það eitt og sér skiptir örugglega máli fyrir þá sem studdu þessa flokka einmitt vegna afstöðu þeirra til aðildar að ESB.

Höfundur er prófessor og deildarforseti við lagadeild HA

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að flensa afturendann
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Traust er undirstaða réttláts samfélags

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Traust er undirstaða réttláts samfélags
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tómarúm fyllt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tómarúm fyllt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Borgum meira!

Thomas Möller skrifar: Borgum meira!
EyjanFastir pennar
20.04.2025

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag
EyjanFastir pennar
19.04.2025

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!
EyjanFastir pennar
16.04.2025

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans
EyjanFastir pennar
16.04.2025

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum