Fyrir réttri viku bauð Mette Frederiksen, forsætiráðherra Dana, til kvöldverðar þar sem boðið var upp á „porretærte med skagenskinke, kylling med æblesovs, gulerødder og broccoli og en dessert af tre små basser, vandbakkelse, marcipan og hindbærsnitter“ og þar sem við erum vön að lesa danskar uppskriftir og innihaldslýsingar matvæla er óþarf að þýða matseðilinn. En þetta var samt ekkert venjulegt kvöldverðarboð fyrirmenna því mikið lá við. Boðsgestirnir voru forsætisráðherrar Noregs og Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre og Ulf Kristersson, og Finnlandsforseti Alexander Stubb. Brýnt þótti að leiðtogar norrænu ríkjanna fjögurra hittust með hraði enda viðsjárverðir tímar í varnar- og öryggismálum.
Ljósmynd frá boðinu birtist í miðlum víðsvegar um heim en menn undruðust að vonum að fulltrúi fimmta norræna ríkisins sæti ekki við borðið. Í svari Stjórnarráðsins sagði að til fundarins hefði verið boðað með of skömmum fyrirvara til að Kristrún Frostadóttir hefði getað mætt. Þetta er vitaskuld miður en þörf áminning um mikilvægi þess að við Íslendingar séum ætíð hlutgengir í norrænu samstarfi — að við eigum sæti við borðið.
Ég var þess heiðurs aðnjótandi síðastliðinn föstudag að fá að stýra fjölsóttu málþingi Dansk-íslenska félagsins um gildi kunnáttu í dönsku og öðrum norrænum málum, en að málþinginu stóðu sömuleiðis Norræna félagið, Stúdentafélag Reykjavíkur, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, mála- og menningardeild Háskóla Íslands og Félag dönskukennara. Framsögumenn voru sammála um brýna nauðsyn þess að Íslendingar lærðu dönsku og önnur norræn mál en í umræðum að loknum erindum frummælenda nefndi Auður Hauksdóttir, fyrrverandi prófessor í dönsku, að við skyldum hafa hugfast að þekking flestra Íslendinga á danskri tungu sé meiri en menn viðurkenni jafnan, við skyldum ekki gera lítið úr þeirri kennslu sem við fáum í dönsku. Kunnátta í dönsku verði ekki dæmd úr frá talmálinu einu, sem geti reynst mörgum strembið.
Einn framsögumanna, Tryggvi Gunnarsson, fyrrv. umboðsmaður Alþingis, gerði einmitt að umtalsefni að meðal lögfræðinga skipti hæfni í lestri dönsku meginmáli — að geta aflað sér heimilda á öðrum norrænum tungumálum — meðal margfalt stærri þjóðfélega sem styddust að miklu leyti við sama lagakerfi. Hlynur Davíð Stefánsson röntgenlæknir impraði í sínu erindi á mikilvægi norræns samstarfs á sviði læknisfræðinnar. Hin Norðurlöndin mennta ekki einasta íslenska lækna heldur taka þau við sjúklingum sem okkur er ófært að sinna. Og í máli Ann-Sofie Nielsen Gremaud, dósents í dönsku, kom fram að ekkert svæði heims væri nátengdara en hið norræna og þar gegndu tungumálin lykilhlutverki. Þetta er þörf brýning um mikilvægi þess að Íslendingar læri dönsku og önnur norræn mál.
Í þýskum miðlum mátti fyrir skemmstu lesa harðar ádeilur skólamanna á Winfried Kretschmann, forsætisráðherra Baden-Württemberg, sem kemur úr flokki græningja, en hann lagði til að látið yrði af kennslu erlendra tungumála og landafræði í skólum, þar sem vélar gætu annast þýðingar og kortalestur. Áþekk sjónarmið heyrast af og til hér á landi, svo sem meðal þeirra sem heimta að hætt verði kennslu í dönsku.
Ég sá í fyrradag í Welt að pistlahöfundurinn Alan Posener lagði út af yfirlýsingum Kretschmann með þeim orðum að hann skildi bersýnilega ekki inntak orðsins menntun, eða þess sem Þjóðverjar kalla Bildung og ekki er fyllilega sömu merkingar (enda hugsun sjaldnast nákvæmlega hin sama frá einu tungumáli til annars). Posener tók sem dæmi Humboldt-bræður, einhverja kunnustu lærdómsmenn þýskrar sögu og upphafsmenn þeirrar menntahugsjónar sem enn ríkir í Þýskalandi; þeir bræður hefðu hvorki „þurft“ á kunnáttu í kortalestri að halda né þekkingu á erlendum tungumálum enda vellauðugir og gátu ráðið sér færustu fararstjóra og þýðendur. Margir þekkja bækur P.G. Wodehouse um hinn stórefnaða ónytjung Bertie Wooster sem lætur eitursnjallan einkaþjón sinn, Jeeves, hugsa fyrir sig. Heimskinginn Wooster hefur verið lesendum aðhlátursefni í á aðra öld.
Posener minnir á að við lærum ekki tungumál til að fá leiðbeiningar um hvernig við komumst niður á baðströndina og okkur er ekki kennt að lesa kort svo við rötum á barinn. Við lærum tungumál vegna þess að sérhvert nýtt tungumál sem við nemum opnar okkur nýjan menningarheim og það að læra tungumál þroskar hugsun okkar. Allt eins mætti spyrja hvers vegna við ættum yfir höfuð að læra að lesa þegar við höfum aðgang að öllum nýjustu spjallmennunum í símanum. Eða hvers vegna skyldum við læra stafsetningu þegar vélar geta leiðrétt allt sjálfkrafa? Hvers vegna kennum við börnum að beita verkfærum þegar hægt er að kaupa allt ódýrt í Ikea frekar en lagfæra hlutina sjálfur? Svona mætti áfram telja.
Hvers vegna látum við ekki bara vélarnar hugsa fyrir okkur og einbeitum okkur að því að njóta lífsins? spyr Posener og svarar: Jú, vegna þess að það að vera maður er annað og meira, að vera maður snýst um að hámarka getu sína, jafnvel þó svo að við höfum aðgang að vélmennum sem geta gert margt betur. Hann vitnar til orða Wilhelms von Humboldt: „Ein Tischler müsse auch philosophieren, ein Philosoph auch tischlern können,“ — smiðurinn verður að geta lagt stund á heimspeki og heimspekingurinn þarf að geta smíðað. Posener tekur svo sterkt til orða að segja það mælikvarða á villimennsku okkar hversu langt við fjarlægjumst þessa hugsjón („Unsere Entfernung von diesem Ideal ist das Maß unserer Barbarei“).
Ég ætla að taka svo djúpt í árinni að kalla sjónarmið Kretschmann forsætisráðherra menningarlega niðurrifsstarfsemi. Og af því að danska og önnur norræn mál voru hér til umræðu þá hefur dvínandi kunnátta Íslendinga í norrænum málum þegar haft þær afleiðingar að við fjarlægjumst þær þjóðir sem okkur eru skyldastar. Með sama áframhaldi munum við ekki eiga sæti við borðið þegar mikilvægustu úrlausnarefni okkar heimshluta verða til umræðu.
En hér eru ýmis margbrotnari álitaefni undir og menn þurfa að spyrja sig um markmið skóla. Það er nefnilega æðra og meira en það að geta unnið tiltekin störf á vinnumarkaði eða leyst afmarkaðar þrautir líkt og Kretschmann heldur fram. Posener tekur raunar svo djúpt í árinni í grein sinni í Welt að segja að takist vel til gæti skólinn orðið til að hjálpa mönnum til að fást ekki við störf sem reyna ekki nægilega á getu þeirra — og geri þá þar með kröfuharðari gagnvart sjálfum sér. Áðurnefndur Wilhelm von Humboldt sagði nefnilega að um mannlegan þroska í ýtrasta margbreytileika væri meira vert en alla hluti aðra. Ég ætla að gerast svo djarfur að kalla það æðsta takmark sérhvers siðmenntaðs samfélags.