Þetta vopn er oft sagt vera „bazooka“ því þetta er öflugasta vopnið, á efnahagssviðinu, sem ESB hefur nokkru sinni ráðið yfir.
ESB samþykkti vopnið í nóvember 2023 en hefur aldrei beitt því. En það getur breyst fljótt ef Trump stendur við hótanir sínar og gerir alvöru úr viðskiptastríði við ESB.
Vopnið er hannað til að beita gegn ríkjum sem beita ESB eða einstök aðildarríki pólitískum þvingunum eða efnahagslegum hótunum til að knýja fram breytingar.
Financial Times segir að ESB undirbúi nú beitingu vopnsins, sem nefnist ACI, gegn til dæmis stórum bandarískum tæknifyrirtækjum á borð við Amazon og Meta en þessi fyrirtæki eru orðnir „vinir“ Trump eftir forsetakosningarnar.
Embættismenn hjá ESB sögðu í samtali við Financial Times að hótanir Trump um að beita hervaldi eða efnahagslegum þvingunum gegn Danmörku til að ná Grænlandi, geti verið næg ástæða til að beita vopninu. Það sama á við ef Trump reynir með tollaárásum sínum að þrýsta á ESB um að láta stóru bandarísku tæknifyrirtækin vera undanþegin reglugerðum sambandsins.
Leynilegar áætlanir
Trump hefur ekki enn skýrt frá hvernig eða hvenær hann ætlar að setja toll á evrópskar vörur en samt sem áður byrjaði ESB strax síðasta haust að undirbúa svar sitt við slíkum aðgerðum af hálfu Trump.
Áætlanir ESB eru leynilegar en á leiðtogafundi sambandsins í síðustu viku sögðu leiðtogar ESB-ríkjanna að svar sambandsins við tollum Trump komi skjótt og verði öflugt.
Meðal þess sem ESB gæti gert er að banna bandarískum fyrirtækjum að fjárfesta í ESB-ríkjunum eða taka þátt í útboðum. Einnig verður hægt að setja útflutningsbann á ákveðnar vörur sem Bandaríkin hafa þörf fyrir, til dæmis lyf eða tæki.
ESB gæti einnig sett takmarkanir á starfsemi bandarískra banka og tryggingafélaga í ESB eða jafnvel afnumið eignarétt þannig að bandarísk einkaleyfi eða hugverkaréttur gildi ekki í ESB.