
Kirkjan tekur á móti öllum opnum örmum og engu máli skiptir hvort fólk er í Þjóðkirkjunni eða ekki. Um 75% þjóðarinnar er í Þjóðkirkjunni og hlutfallsleg fækkun stafar fyrst og fremst af því að samsetning þjóðarinnar hefur breyst mikið á skömmum tíma. Hingað flytja margir kaþólikkar, auk þess sem margir búa hér um stundarsakir og hirða ekki um að skrá sig í trúfélag. Jólin eru einn helgasti tími ársins og gott að koma í kirkju á þeim tíma. Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Við lifum í heimi sem er að breytast, sennilega bara alltaf hraðar og hraðar. Það hlýtur að vera sífellt meira og umfangsmeira starf að, já, svo maður sletti bara, að halda kirkjunni relevant.
„Algjörlega, og ég hef lagt mér mikla áherslu á það, núna þetta fyrsta ár einmitt, að til dæmis að nýta alla þá miðla sem mögulegt er til þess að koma kirkjunni og kristninni á framfæri. Það er búið að breyta merki Þjóðkirkjunnar, einfalda merkið.“
Þetta er bara krossinn, þetta er bara merki Krists.
Akkúrat, þetta er bara aðalatriðið. Við við erum að fara bara í ræturnar. Og opna nýja heimasíðu, með öllu því sem þarf að vera á nútíma heimasíðu. Ég hef lagt mig mjög fram um það að vera ínáanleg og gera það sem að ég get til þess að sýna hvað er raunverulega að gerast inni í kirkjunni, sem er svo óheyrilega mikið og gott.“
Það er nú þannig að jafnvel þeir sem eru ekki, fólk sækir, jafnvel kannski á sínum verstu stundum, þá geturðu þá sótt huggun til Kirkjunnar.
„Akkúrat. Það er nefnilega þannig sem þetta er og það sem að við erum svolítið að reyna að leggja áherslu á núna innan kirkjunnar er hvað er það sem sameinar okkur? Hvað er það sem sameinar okkur fólk hér á landi? Og það eru ákveðin gildi. Hvort sem þú ert heittrúaður, vantrúaður, eða þú ert svona bara svolítið óviss.
Og hér er það þannig að fólk leitar til kirkjunnar alveg sama hvort það er trúað eða ekki þegar kemur að sálgæslu, þegar kemur að athöfnum. Og síðan er alltaf spurningin, hvað er það að vera trúaður? Er það að vera opinn fyrir því að það sé eitthvað æðra og meira en við og vera tilbúinn til þess að svona nálgast það og finna út úr þessu? Eða er það að vera með allt sem er kristið algjörlega á hreinu? Og oft erum við Íslendingar kannski svona einhvers staðar þarna á milli. Kirkjan er nú þegar opin öllum, alveg sama hvort fólk trúir eða ekki.“
Það er ekkert flett upp og tékkað: Er hann í Þjóðkirkjunni þessi?
„Það er ekki flett upp og það er ekki flett upp hvort þú sért skírð eða fermdur. Þú ert velkominn í kirkjuna með þitt, alveg sama hvað það er og hvernig.“
Og það er nú kannski ágætt svona rétt í lokin koma inn á að það hefur verið mikil umræða um það að það sé að fækka. í Þjóðkirkjunni. En það er ekki alveg rétt, er það?
„Ef við skoðum bara raunverulega fækkun, þá hefur fækkað líklega um 800-900 manns á þessu ári. En það deyja 3-4.000 á hverju ári á Íslandi. Það er fleira fólk sem er skráð í kirkjuna heldur en nokkurn tíma úr henni. En þessi fækkun, það er það sem er svo áhugavert. Þetta eru börn frá 0 til 13 ára. Og það er ekki vegna þess að þessi börn séu öll að fara inn á skra.is og skrá sig úr Þjóðkirkjunni. Heldur er það vegna þess að vegna ákveðinna breytinga á skráningum barna í kirkjuna þá er það þannig í dag að börn sem eru skírð eru ekki að skila sér að öllu leyti inn sem skráðir meðlimir Þjóðkirkjunnar. Og þetta er eitthvað sem við erum að, að vinna í núna og skoða því að þetta fyrirkomulag gengur ekki. En svo er annað í þessu líka, að það er talað um hlutfallslega fækkun. Og hún eiginlega gengur ekki alveg upp vegna þess að við vitum að samsetning íbúa hér á landi hefur breyst mjög mikið.“
Við höfum farið frá því á örfáum áratugum að vera bara ættuð annaðhvort úr Skagafirðinum eða að austan í það að sumir eru úr Skagafirðinum, aðrir eru bara frá Kína og þetta eru allt Íslendingar í dag.
„Já, og mikið af fólki sem kemur hingað er til dæmis kaþólskt og þess vegna fjölgar einmitt í kaþólsku kirkjunni. Svo náttúrlega mikið af fólki sem flytur hérna tímabundið og það er ekkert að skrá sig í kirkju, alveg sama hvað. Þannig að ef við skoðum núna íslenska ríkisborgara þá eru rétt tæplega 75% íslenskra Íslendinga í Þjóðkirkjunni. Og ég er nokkuð viss um að ef við myndum skoða hlutfall þeirra sem eru fædd á Íslandi, þá væri hlutfallið enn hærra. Þannig að ég vil eiginlega tala þannig núna að það eru 75% tæplega íslenskra ríkisborgara í Þjóðkirkjunni.“
Það er þokkalegt hlutfall.
„Það er nefnilega ágætis hlutur. Og það hefur haldist nokkurn veginn þannig undanfarin fimm, sex ár. Þannig að undanfarin ár hefur ekki orðið raunveruleg fækkun í Þjóðkirkjunni.“
Þannig að það má segja að kirkjan, Þjóðkirkjan, hún er að halda sínu.
„Hún er að halda sínu en við þurfum að taka skráningarmálin okkar í gegn þegar kemur að skírnum og við þurfum að halda betur utan um félagatalið okkar. Það er þannig.“
Nú fer í hönd skemmtilegasti tími ársins í kirkjunni, eða hvað?
„Já, hann er það. Einn af þeim, einn af þeim, já. Þetta er svo heilagur tími. Það er svo mikil helgi í loftinu í kirkjunum. Og alveg sama hvort að þú kemur inn með í gleði eða sorg og og hvernig þessi árstími er fyrir þig, þá er hann heilagur í kirkjunni.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify