
Þjóðkirkjan er langsamlega fjölmennustu félagasamtök á Íslandi með um 250 þúsund félaga. Á síðustu árum hafa orðið stórfelldar breytingar á stjórnskipulagi Þjóðkirkjunnar og er hún nú orðin nær alfarið sjálfstæð og aðskilin íslenska ríkinu. Prestar eru t.d. ekki lengur opinberir embættismenn. Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar á jólum.
Guðrún Karls Helgudóttir - 4
„Djákni í söfnuði annast kærleiksþjónustu. Það má eiginlega segja að djákni sé svolítið svona, hvað á ég að segja, félagsráðgjafinn í kirkjunni. Og kærleiksþjónusta felst mikið til í sálgæslu. Það er að hafa það hlutverk að sjá þau sem að þurfa mest á kirkjunni að halda, að finna þau og styðja þau og svona færa inn í kirkjuna.“
Eru þá djáknar starfandi í öllum sóknum?
„Nei, því miður. En í þó nokkrum. En svo eru djáknar líka sem starfa á stofnunum, starfa á hjúkrunarheimilum til dæmis og Landspítalanum. Þannig að djáknar geta starfað á fleiri stöðum.“
Einmitt. Maður ímyndar sér að maður viti svona um það bil hvað prestur gerir, við ef maður veit það að hann er náttúrulega, ja, margir prestar sinna náttúrlega þessu djáknahlutverki líka og það er, það er sjálfsagt sko ríkur þáttur í þeirra starfi. Svo er það náttúrlega, svo eru það messurnar og svo eru það, það eru athafnir eins og, eins og skírnir og fermingar og, og brúðkaup og jarðarfarir.
En hvað gerir biskup?
„Einmitt. Mér þykir enn svolítið erfitt að svara þessu því að þrátt fyrir að ég sé búin að vera biskup í rúmlega eitt ár, þá er ég ekki búin að gera nærri því allt sem að biskup gerir.
En biskup fyrst og fremst leiðir kirkjuna, er leiðtogi kirkjunnar. Hann er hirðir hirðanna, það er að segja er hirðir prestanna og djáknanna ogvígða fólksins. Biskup á að sjá til þess að það sé vígsluþjónusta í boði um allt land og að það sé, og það sé yfirleitt þjónusta í boði um allt land og á að styðja og efla allt kirkjustarf. Og biskup á að vera svolítið í forsvari út á við þegar kemur að kirkjulegum málefnum.
Og svo það sem ég geri svona raunverulega, það er, þegar kemur að helgihaldi þá er ég voða mikið svona á hátíðarstundum. Er í hátíðarmessunum á stórum stundum, þingsetningu, jólum, páskum og þá er ég svona í útvarpsmessum og sjónvarpsmessum og svoleiðis, tek mikið þátt í kirkjuafmælum. Ég fékk það hlutverk að vígja kirkju í sumar. Og ég bjóst ekki endilega við að það yrði vígð ný kirkja á mínu, í minni biskupstíð en …“
Nei, það gerist ekki á hverjum degi.
„Nei, nákvæmlega, ekki lengur, því að við eigum nóg af kirkjum. En það var í Grímsey vegna þess að kirkjan þar …“
Já, alveg rétt.
„Og svo er ég t.d. vígsluvottur í biskupsvígslum erlendis. Ég á mína kollega, sérstaklega á Norðurlöndunum. Og við erum í mjög miklu samstarfi og við fundum árlega, höfuðbiskupar Norðurlandanna. Svo fundum við á fjögurra ára fresti, allir biskuparnir. Síðan held ég biskupafund og þá á ég fund með vígslubiskupunum tveimur sem eru í Skálholti og á Hólum. og þar eru teknar ákvarðanir, svona þegar kemur að þjónustu og skipulagi kirkjunnar. Þannig að það er svona, já, það er í mörg horn að líta.“
Það er í mörg horn að líta og kannski svona færri kirkjulegar athafnir sem að biskup annast heldur en prestur?
„Það er rétt. Það er rétt og ef það er eitthvað sem ég sakna svolítið, þá er það. Það eru færri athafnir og svona, já. Þær, það eru helst svona þessar stóru, miklu hátíðarathafnir sem ég tek þátt í. Og svo er ég líka heilmikið í því að að hitta fólk, eiga samtöl við fólk. Fólk getur bara bókað tíma og ég hitti fólk svona þegar það gengur. Síðan hef ég líka verið með skrifstofuna um landið, þannig ég er verið að fara á milli landshluta og bjóða upp á viðtalstíma og svona súpufundi og samverustundir, bara til þess að að komast í meiri tengsl við kirkjufólk. Og svo eru náttúrlega vísitasíurnar. Það eru svona formlegar heimsóknir biskups til safnaðanna í landinu.“
Það eru svona opinberar heimsóknir, já.
„Já, akkúrat. Og ég er ekki enn þá byrjuð á þeim. Ég byrjaði á svona þessum óformlegu skrifstofum. En ég mun byrja á vísitasíum núna næsta haust og það verður þá Kjalarnesprófastsdæmi þar sem ég mun ríða á vaðið.“
Já, eins og þú segir, það er í mörgu að snúast hjá biskup. Kirkjan er bara nokkuð stórt fyrirtæki ef maður lítur á það þannig.
„Já, hún er það nefnilega. Það eru um 250.000 félagar í kirkjunni. Þetta eru stærstu eða langfjölmennustu félagasamtök á Íslandi. Síðan eru um 140 prestar sem starfa í kirkjunni og djáknar sem eru í ráðningarsambandi við Þjóðkirkjuna. Og svo töluvert af starfsfólki. En þetta er mjög ólíkt, alla vega mjög mörgum fyrirtækjum, vegna þess að svo eru söfnuðirnir um landið og þeir eru sjálfstæðir. Þeir fá sitt rekstrarfé í gegnum sóknargjöldin. Og þau ráða alveg sínum rekstri og sinni starfsemi innan eðlilegra marka evangelískrar-lúterskrar kirkju. Þau velja prestana og svoleiðis, en prestarnir eru samt í ráðningarsambandi við Þjóðkirkjuna.“
Já, það er Þjóðkirkjan sem borgar þeirra laun.
„Já, en þeir eru valdir af söfnuðunum. Þannig að þetta er svolítið margslungið hvernig starfsemi Þjóðkirkjunnar fer fram. Það urðu mjög stórar breytingar á Þjóðkirkjunni frá 2019 og þangað til núna. Og þær eru svo stórar að það er eiginlega alveg merkilegt hvað þær hafa farið lágt.“
Hvaða breytingar eru þetta?
Þetta eru stærstu stjórnskipulegar breytingar sem orðið hafa á Þjóðkirkjunni á nútíma. Því það sem að breyttist var að Þjóðkirkjan varð í raun og veru alveg sjálfstæð í sínum málum, nánast, frá því að vera kirkja sem var nokkuð tengd ríkinu, þar sem að ríkið var með mjög nákvæma lagasetningu um Þjóðkirkjuna og starfsemi hennar. Þá eru bara örfáar lagagreinar núna um Þjóðkirkjuna. Að öllu öðru leyti ræður Þjóðkirkjan sínum málum. Það sem breyttist til dæmis er að prestar eru ekki lengur opinberir embættismenn. Nú eru prestar starfsmenn Þjóðkirkjunnar. Og þetta er alveg gríðarlega stór breyting.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify