

Það er eitthvað töfrandi við aðventuna. Þrátt fyrir eril, innkaupa- og gátlista, endalaus þrif og ákveðið stress, þá fylgir henni á einhvern undarlegan og þversagnarkenndan hátt líka ákveðin innri ró. Í sítengdri veröld sem krefst þess að við svörum skilaboðum samstundis og stöðugrar kröfu um afköst, er kærkomið að leyfa sér smá kæruleysi. Það má sleppa því að svara. Það má vera utan þjónustusvæðis. Því þannig eru jólin.
Þau færa okkur annan takt sem býður okkur að staldra aðeins við. Og bara vera. Hvernig sem við viljum.
Ég brunaði heim á Flateyri á sunnudag, með bílinn fullan af spenntum börnum, jólagjöfum og kósífötum. Um kvöldið sat ég í stofunni og horfði út um gluggann sem vanalega býður upp á stórbrotið útsýni yfir Önundarfjörð. En það sást ekki út. Það var kolniðamyrkur. Ég gleymi því alltaf hvað það verður dimmt í desember heima.
En við fundum jólaljósin og kveiktum á þeim, ásamt nokkrum kertum og strax varð myrkrið fjarlægara.
Þetta er akkúrat tíminn þegar við kveikjum ljós í myrkrinu. Bæði bókstaflega, en líka í einhverjum æðri skilningi. Kannski er það ástæðan fyrir því að jólin snerta okkur svona djúpt. Skipta okkur svona miklu máli. Þau minna okkur á að þrátt fyrir áreitið og alla ringulreið heimsins þá þráum við kannski alltaf það sama. Öryggi, samkennd, frið og frelsi. Og auðvitað líka svolítil huggulegheit.
Jólin eru hátíð ljóss og friðar. Friður á jörð kann að hljóma sem fjarlæg hugmynd um þessar mundir. Því miður. En hér á landi búum við sem betur fer við frið og frelsi. Flest okkar fara tiltölulega óttalaus að sofa og vakna örugg.
Það eru þó ekki allir sem búa við þau forréttindi. Ekki einu sinni á Íslandi. Um jólin skerpist þessi vitund. Við sjáum hvar skórinn kreppir. Það eru því miður einstaklingar í okkar samfélagi sem standa fyrir utan ljósið, hvort sem er vegna veikinda, fátæktar, jaðarsetningar, einangrunar eða ofbeldis.
Þá reynir á samfélagsgerðina. Hvernig við vörpum ljósi á þau sem standa höllum fæti. Hvernig við tökum utan um hvert annað. Hvernig kerfin okkar eru hönnuð og hvort öryggisnetin okkar séu nógu þéttofin.
Jólasagan sjálf byggir á þessari spurningu. Saga um brothætt líf, lítið barn sem fæðist við ótryggar aðstæður. Um foreldra á flótta, í samfélagi sem átti ekki pláss. Um fólk á jaðrinum. Þetta er ekki saga um fullkomnar aðstæður, heldur um mannlega reisn við erfið skilyrði.
Kannski er það kjarni jólanna, að minna okkur á að friður og frelsi er ekki einstaklingsbundið, heldur samfélagslegt verkefni. Að enginn er raunverulega frjáls ef aðrir búa við ótta, skort eða útilokun. Að frelsi okkar allra stendur og fellur með frelsi annarra.
Í heimi þar sem ótti og myrkur eru notuð sem stjórntæki eru jólin kærkomið mótvægi. Þau minna okkur á að loka ekki augunum fyrir þeim sem standa utan ljóssins. Samkennd er ekki veikleiki, heldur styrkur. Fjölbreytileiki er ekki ógn heldur auður. Það krefst hugrekkis að halda augunum opnum og halda áfram að kveikja ljós í hvert sinn sem myrkrið nær yfirhöndinni.
Ég vona að jólin færi ykkur þá gæfu að hægja aðeins á. Að hlusta betur, á hvert annað og á þau sem fá kannski ekki alltaf að láta rödd sína heyrast. Ég ætla hið minnsta að njóta þess að halda jól með fólkinu sem ég elska mest. Horfa sem minnst á klukkuna og leyfa tímanum að liða. Leika við börnin mín, spila, borða góðan mat og slaka á. Ég get leyft mér slíkan munað vegna þess að ég bý við frið og forréttindi.
Munum að friður er ekki sjálfgefinn. Frelsið ekki heldur. Látum það vera okkar leiðarljós.
Besta jólagjöfin sem við getum gefið hvert öðru er að axla þá sameiginlegu ábyrgð að kveikja ljós, aftur og aftur.
Því þar sem ljósið er, þar býr vonin.
Gleðileg jól!