
Stjórnarandstaðan varð sér eftirminnilega til skammar í sumar með því að setja Íslandsmet í málþófi um leiðréttingu veiðigjalda. Að lokum keyrði svo um þverbak að forseti Alþingis neyddist til að beita lýðræðisákvæði þingskapalaganna og knýja fram atkvæðagreiðslu um málið.
Nokkuð hefur örlað á töfum og orðalengingum stjórnarandstöðunnar í ýmsum málum á þessu þingi. Hefur það m.a. birst í endalausum upphlaupum stjórnarandstöðunnar í umræðum um fundarstjórn forseta og dagskrá þingsins.
Orðið á götunni er að málþófsdraugurinn hafi svo verið vakinn upp í annarri umræðu um bandorminn, sem jafnan fylgir fjárlögum. Síðustu tíu ár hefur önnur umræða jafnan verið afgreidd á 1-2 klukkustundum. Ræður hafa gjarnan verið á bilinu 15-60. En núna er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í stjórnarandstöðu og er greinilega viðþolslaus af valdamissinum. Í dag höfðu verið fluttar 157 ræður í annarri umræðu um bandorminn og umræður staðið í 18 klukkustundir eða lengur en samtals var talað á síðustu níu þingum.
Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi ráðherra, hafi sýnt áþreifanlega í umræðunni í dag hversu mjög honum svíður undan því eð aðrir skuli nú fara með völd hér á landi en Sjálfstæðisflokkurinn og hann sjálfur. Í eitt skiptið sem hann kom og tuðaði yfir því að allt sé afleitt síðan hann missti ráðherrastólinn fannst honum vel til fundið að tala um ræða um forsætisráðherra sem „hæstvirtan yfirlætisráðherra“. Svona hótfyndni þætti ekki einu sinni fyndin í Morfís og er ekki við hæfi úr ræðustól á Alþingi Íslendinga.
Orðið á götunni er að bersýnilega vaki fyrir stjórnarandstöðunni að beita nú málþófi og tafaleikjum til að koma í veg fyrir að ýmis mál ríkisstjórnarinnar fái afgreiðslu. Þetta var taktíkin í vor og sumar og þetta er taktíkin nú. Minnihlutinn er að reyna að beita ofbeldi til að koma í veg fyrir að meirihlutaviljinn nái í gegn. Þetta er beinlínis andlýðræðislegt.
Orðið á götunni er að almenningi hundleiðist málþóf eins og stjórnarandstaðan beitir nú. Fólk vill endilega að þingmenn skiptist á skoðunum og komi sínum sjónarmiðum á framfæri en kerfisbundið kjaftæði og tafir fara verulega í taugarnar á fólki. Nú eru að koma jól og athygli flestra er á jólunum en ekki kjaftæðinu sem vellur upp úr stjórnarandstöðunni niðri við Austurvöll. Eini almenni áhuginn á þingstöfum nú er að almenn kurteisi og mannasiðir fái að njóta sín, nokkuð sem stjórnarandstöðunni er ekki umhugað um.
Orðið á götunni er að forseti þingsins eigi ekki að hika við að láta þingmenn sitja fram að jólum, og jafnvel funda milli jóla og nýárs, reynist það nauðsynlegt vegna málþófs og tafaleikja stjórnarandstöðunnar. Einnig ætti alls ekki að útiloka beitingu lýðræðisákvæðisins, þegar þurfa þykir, til að ljúka umræðum og knýja fram atkvæðagreiðslu.
Orðið á götunni er að mögulega verði að nálgast þessa stöðu af mildi og mannúð og útvega áfallahjálp fyrir Sjálfstæðismenn sem hafa stjórnað landinu nær óslitið frá lýðveldisstofnun og óslitið í 11 ár áður en þjóðin afhenti þeim uppsagnarbréf í kosningunum í fyrra. Kannski þurfa þeir líka lífsleikninámskeið fyrir þá sem fá ekki að ráða alltaf.