

Fjöldi Íslendinga hefur gert garðinn frægan í erlendum óperuhúsum. Frægasti söngvarinn á erlendri grund er þó Þorsteinn drómundur í Grettissögu. Honum tókst að heilla íbúa Miklagarðs (Istanbul) með söng sínum. Rík og glæsileg kona að nafni Spes, sem var mikill óperuaðdáandi, giftist söngvaranum í hrifningarvímu. Segja má að Drómundur hafi því unnið fyrstu verðlaun í þessari söngkeppni.
Íslendingar kepptu ekki í tónlist aftur fyrr en með Júróvísjón. Flestir jafnaldrar mínir muna hvar þeir voru staddir árið 1986 þegar Gleðibankinn keppti í Söngvakeppni Evrópu. Lagið átti að vinna keppnina og þjóðin trallaði með í gleðivímu. Þegar 16. sætið var staðreynd brast viðkvæmur strengur í þjóðarsálinni. Æ síðan hefur Ísland tekið þátt í keppninni með misgóðum árangri. Stöku sinnum var stefnt á verðlaunasæti en oftast var farið af stað með framlag sem átti engan möguleika. Keppnin breyttist með árunum. Hún varð fjölmennari eftir fall járntjaldsins og framandi þjóðir birtust á sviðinu með allt öðru vísi lög og dansa. Framlag okkar breyttist á hinn bóginn lítið. Sömu bakraddasöngvarar um árabil og keimlík lög sem stundum voru sungin á ensku. Árangurinn var eftir því.
Þeir sem græddu mest á Júróvisjón var klíkan inni á RÚV sem hafði atvinnu sína af keppninni. Ótrúlegur fjöldi undirbúningsþátta var á dagskrá allt vorið með lærðri umræðu um dægurlagatónlist. Stór hópur fylgdi tónlistarfólkinu hvert sem það fór. Nokkrir blaðamenn voru líka í fylgdarliðinu og birtu frásagnir af hrifningu áheyrenda í svokölluðu rennsli. Síðan fór allt í skrúfuna. Fararstjórnin var þó alltaf jákvæð og sagði að allt hafi gengið ótrúlega vel þrátt fyrir botnsætið.
Nú lýkur þessari harmsögu. Þjóðir Evrópu vilja endilega hafa Ísrael með keppninni en forsvarsmenn RÚV alls ekki. Þeir hafa því ákveðið að hætta þátttöku í mótmælaskyni af „dagskrártæknilegum ástæðum (!!)“
Öllum þeim fjölmörgu sem hafa þjáðst vegna tilgerðarinnar í kringum Júróvisjón er verulega létt við þessi tíðindi. Loksins er lag að losna við þann klafa sem keppnin er og gleyma henni eins og hverju öðru harðindatímabili íslenskrar sögu. Tómarúmið sem skapast hjá RÚV má nota til að gera glæsilega heimildarkvikmynd um Þorstein drómund og sigurför hans á söngsviðinu í Istanbul fyrir 1000 árum.