
Starf prestsins er þjónustustarf og við erum öll þjónar í þessu lífi. Séra Örn Bárður Jónsson, sem lengi var sóknarprestur í Neskirkju, ætlaði upphaflega að verða endurskoðandi og hóf nám í þeirri grein. Svo varð hann fyrir trúarlegu afturhvarfi og venti kvæði sínu í kross. Hann telur að sendlastarfi í búð föður hans á Ísafirði hafi verið góður undirbúningur fyrir prestskap. Séra Örn Bárður er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Örn Bárður - 1
Þú ert búinn að vera prestur í mörg ár. Þú ert þekktur prestur. En þú ætlaðir ekki alltaf að verða prestur.
„Nei. Ég er fæddur og uppalinn á Ísafirði og eldri bróðir minn stríddi mér stundum og kallaði mig séra Örn. Ég veit ekki hvort það er af því að ég var svona hátíðlegur, það mun varla vera. Ég var nú bara hresst og skemmtilegt barn, held ég. Ég fór að vinna mjög ungur. Pabbi minn opnaði kjörbúð á Ísafirði 1959. Hann var auk þess með Ríkið í bænum og fatabúð og ég var sendill níu ára í versluninni. Og þá var ég að fara með vörur heim til fólks og þjóna fólki í búðinni, tala við það og pakka vörum og allt þetta, í miklum mannlegum samskiptum. Ég hef stundum sagt að þarna lærði ég mikilvæg atriði í prestskap. Það er að þjóna öllum og vera elskulegur við fólk og meta fólk jafnt.“
Þetta er þjónustustarf?
„Já, það er það og í raun og veru erum við öll þjónar í þessu lífi. Svo fór ég í Verslunarskólann í Reykjavík eins og pabbi hafði gert og það var gaman, kom bara svona blautur bak við eyrun í Versló og ægilega gaman þar og ég var búinn að vera þar í tvö ár og þá var búið að kjósa mig sem forseta nemendafélagsins og ég var þannig að ég var strax svona einhvern veginn þannig að ég hef komið inn á sviðið án þess að endilega hafa ætlað mér það.
Ég lærði auðvitað heilmikið af því að vera forystumaður í stórum skóla. Það var dýrmætt. Svo fer ég að læra endurskoðun ásamt vini mínum sem að er nú látinn, blessuð sé minning hans, og ég jarðsöng hann í fyrra. Ég sagði í þeirri ræðu: Við Þorsteinn fórum báðir í endurskoðun eftir Verslunarskólann. Svo hafði ég þögn, sagði: En ég endurskoðaði það. Þá var mikið hlegið í kirkjunni. Það voru um 400 manns í kirkjunni en ég held að það séu um 8.000 manns búnir að lesa ræðuna. Af því hún er á vefnum og ég birti allar ræður mínar á vefnum og er búinn að gera það í yfir 20 ár og er alltaf að hvetja presta til að gera þetta sama, en það gerir þetta enginn.“
Já, þú ert með vefsíðu.
„Ég er með vefsíðu, ornbardur.com. Þar birti ég pistla og og og fréttir og ýmislegt og ég les það allt upp þannig að þetta er svona, má segja, minn miðill eða já, mitt podcast. Svo varð ég fyrir því, ungur maður. Var að byggja í Garðabænum og kominn með fjölskyldu. Þá er ég svona í samræðum við fólk um trúmál og ég finn hvað ég veit lítið um trú. Ég er auðvitað skírður og fermdur sem barn og á Ísafirði og maður fór þar í kirkjuna. Við fórum á Herinn, við fórum til Hvítasunnumanna og svo var maður skáti, maður var í stúkunni. Það var alls staðar kristindómur í þessu.
Svo lærði maður auðvitað bara kristinfræði í skólanum. Nú má það ekki heyrast. Og það er allt að flosna upp. En ’76 um haustið, þá er ég að lesa mér til um kristindóminn og þá bara, kemur svona eins og opinberun bara í huga minn, bara alveg hreint …“
Myndirðu segja að þú hafir frelsast?
„Ja, það myndu sumir kalla það það, já, já, við getum sagt það. Ég verð fyrir trúarlegu afturhvarfi, eins og það heitir. Þetta er þekkt í sögunni. Ég ætla nú ekkert að fara að líkja mér við Pál postula en hann var nú bara óvinur kristninnar og snerist. Þannig að það opinberast mér einhvern veginn hver Kristur er í raun og veru. Og ég er hérna með svona litla bók með mér sem ég les í á morgnana. Ég keypti þetta, heitir Lykilorð og þetta er gefið út fyrir hvert ár af merkum samtökum í Þýskalandi. Þýtt á íslensku og hér fyrir daginn í dag, er tilvitnun í Jesaja spámann, sem var uppi svona, ja, hvað eigum við að segja, 700 árum fyrir Krist, eitthvað svoleiðis. Þá segir Jesaja: „Ó, að þú sviptir himninum sundur og stígir niður.“
Hann þráir að Guð komi nær. Og svo kemur hérna í Lúkas, sem er þá texti einhverjum hundruðum árum síðar. Engillinn sagði við Maríu: „Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita Jesú. Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta.“ Og þarna er komið þetta sem sem allir hafa þráð, kannski þrá innst í hjarta sínu. Það er að finna einhvern veginn tilgang lífsins og skilja það og svona finna sig. Að þetta sé ekki bara einhver kaos, það sé eitthvert samhengi í tilverunni. Það er stundum talað um hið stóra samhengi og það má segja að ég hafi uppgötvað það þarna einn eftirmiðdag. Kom heim úr vinnunni og var að lesa og þá bara: Já, aha! Og ég man morguninn eftir þegar ég fór á fætur og gekk fram í eldhúsgluggann í hálfbyggða húsinu mínu og horfði yfir Reykjavík úr Garðabænum. Og þá, svona hvít jörð og fallegt að vera í nóvember. Og ég hugsa: Vá, veröldin er ný.
Þetta var svo róttæk einhvern veginn hugljómun og þetta varð til þess að við hjónin fórum til útlanda, bara eftir áramótin og fórum í biblíuskóla, eins og það heitir, í Englandi. Og vorum þar í einhverja mánuði og fórum heim svo og ákváðum að fara aftur og vera í hálft ár. Og ég rak litla heildverslun. Ég seldi hana. Seldi allt og fór bara í þetta.
Það endaði svo með því að ég var vígður djákni í Grensáskirkju. Sigurbjörn Einarsson vígði mig. Þar var ég að vinna með séra Halldóri Gröndal, sem að fertugur hafði farið í guðfræði eftir svona, já, eftir svona einhvers konar lífsreynslu sem að varð til þess að hann breytti um stefnu. Hafði verið menntaður í hótel- og veitingarekstrarfræðum í Bandaríkjunum frá Cornell University.“
Var það ekki hann sem var í Naustinu?
„Jú, jú, stofnaði Naustið. Endurvakti Þorrablótin og allt þetta og. Við vorum þarna ásamt hópi af ungu fólki með samkomur í Grensáskirkju á fimmtudagskvöldum. Fylltum húsið, 200 manns hvert einasta kvöld, má segja. Fólk var að vakna til vitundar um trúna og við báðum fyrir mörgum og fólk læknaðist. Það var alls konar hlutir sem gerðust. Þetta voru óskaplega spennandi tímar.“