
Í síðustu sýningunni sem Karl Ágúst Úlfsson lék af Fíflinu gerðist það í fyrsta sinn á hans ríflega 40 ára leikferli að hann gleymdi textanum á leiksviði. Hann spann sig út úr því þannig að áhorfendur urðu einskis varir og sonur hans, Eyvindur, sem lék á móti honum í sýningunni gantaðist með að nú væri aldurinn farinn að segja til sín. Þetta var skömmu áður en Karl Ágúst greindist með heilaæxli. Hann er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Karl Ágúst - 7.mp4
þetta náttúrlega gjörbreytir þínu lífi. Þú þarft að byrja upp á nýtt. Ekki gæti ég bent á þig og sagt: „Já, þetta er greinilega maður sem hefur fengið heilaæxli.“
„Nei, þakka þér fyrir það. Ég er mjög þakklátur fyrir það. Ég hef náð eiginlega, í raun og veru, þá hef ég náð lengra heldur en ég þorði að vona. Mér var sagt að það tæki tvö ár að komast jafn langt til baka og maður gæti komist og ég skyldi ekkert endilega reikna með að verða alveg nákvæmlega eins aftur og ég bara svo sem sætti mig við það frá byrjun. En nú eru komin þrjú ár og mér finnst ég enn þá vera á uppleið. Þannig að ég er enn þá að vinna þessa vinnu og ég er enn þá að nota prógrammið sem ég bjó til sjálfur til að koma mér til baka.“
Já, þú þarft að, ertu að gera æfingar? Ertu að þjálfa heilann?
„Já, ég þjálfa heilann svolítið. En ég geri það ekkert endilega með því að láta hann rembast mikið. Ég nota alls konar hluti. Til dæmis nota ég það sem er kallað hljóðheilun. Þá er ég með bæði málmskálar og kristalskálar sem ég læt hljóma og tek hljóðin inn og leyfi heilanum að njóta þeirra. Og sendi þau á rétta staði, finnst mér.
Ég er nú búinn að vera mikill trommuspekúlant í einhverja áratugi og hef mikið stúderað afrískan trommuleik og svona alþjóðlegan trommuleik. Og sett mig inn í margvíslegar kenningar um það hvaða áhrif trommusláttur hefur á bæði þann sem stundar trommusláttinn og þá sem hlusta. Þetta nýti ég mér núna líka, á hverjum degi eiginlega. Og fleira. Ég stend á haus á hverjum morgni.“
Nei, er það?
„Já, í þrjár mínútur.“
Vá!
„Og það gerir mér gagn, mér finnst það.“
Já, ég er ekki viss um að ég gæti staðið á haus.
„Það er spurning, en allavega, ég er búinn að gera þetta í mörg ár.“
Ég man að þú sagðir við mig einhvern tímann að þú ættir í erfiðleikum. Þú treystir ekki alveg minninu þínu.
„Já. Já. Það er enn þá svolítið eftir. Ég ég gerði mér að vísu mikið gagn þegar ég var að skrifa þessa bók með því að toga til mín þessar minningar og einhvern veginn orða þær þannig að þær væru réttar í mínu höfði. Og kæmu réttar frá mér. En á enn þá erfitt með að muna vissa hluti og ég kunni til dæmis söngtexta alveg endalaust. Þeir eru margir hverjir horfnir, það er erfitt fyrir mig að finna þá aftur. Ég á mjög erfitt með að muna nöfn á fólki. Það segja nú flestir, já, já, það á við mig líka, en það er svo skrítið með mig að ég kannski man hvað einhver heitir í smástund og svo gleymi ég því aftur. Kannski það er búið að kynna einhvern mann fyrir mér, eða konu, og ég segi, já, komdu sæl, og nota nafnið kannski tvisvar, þrisvar. En svo 10 mínútum seinna, allt í einu er nafnið horfið.
Nöfn á bókum, á bíómyndum, á leikritum, meira að segja á sumum af verkunum sem ég skrifaði sjálfur. Það verður erfitt fyrir mig að finna þau. Og svo eitt sem að mér finnst alveg agalegt, og hreinlega hlægilegt, landafræðin er orðin svo, henni hefur farið svo aftur í mínum huga. Ég man oft ekki í hvaða landi tilteknar borgir eru. Hvar örnefni hérna á Íslandi, hvar þau eiga heima og svo framvegis. Ég var bara fjári góður í þessu einu sinni, en þetta eru vandamál sem ég er að glíma við. En ég tekst á við þau.“
Mér heyrist nú sum þessi vandamál vera vandamál sem við dauðlegir menn þurfum að glíma við þrátt fyrir að hafa ekki fengið heilaæxli.
„Það má nú alveg til sanns vegar færa, Maður veit ekkert hverju maður á að kenna um, nema ég tengi þetta náttúrulega því sem ég lenti í. En það var nú svolítið hlægilegt, hann Eyvindur sonur minn lék á móti mér í leiksýningunni Fíflinu.“
Þið tókuð lagið saman í útgáfuhófinu.
„Jú, einmitt, akkúrat.“
Það var alveg stórskemmtilegt.
„Það var lag úr sýningunni, já, akkúrat. Og hann náttúrlega samdi músíkina. Eitt af því allra fyrsta sem að benti til, eða sem ég varð var við og gat þýtt að eitthvað væri að, var að ég í síðustu sýningunni sem ég lék af Fíflinu í Tjarnarbíói, þá gleymdi ég texta. Það hafði bara ekki gerst hjá mér áður á öllum mínum ferli, sem var orðinn ríflega 40 ár, að ég myndi ekki textann sem ég átti að fara með á sviði.
En ég bara spann mig út úr þessu og lét ekki áhorfendur sjá að neitt væri að. En í hléinu þá hlógum við að þessu saman feðgarnir og Eyvindur sagði, já, aldurinn nú farinn að segja til sín þannig að það er nú eins gott að þú sért að hætta. Og, já, já, ég hló að því með honum, en það reyndist ekki alveg vera það sem var að angra mig.“
Sérðu fyrir þér að fara aftur á svið?
„Já, já. Það var nú eitt af því sem gerðist í höfðinu á mér þegar ég var svona aðeins farinn að átta mig og farinn að verða heldur skárri í daglegu lífi, þá sagði ég: Þessi ákvörðun um að kveðja sviðið og stíga ekki framar á svið. Hana tók ég áður en ég vissi af þessu æxli. Núna finnst mér næstum því eins og það hljóti að líta út eins og ég hafi gefist upp vegna þess að ég fékk æxli. Það get ég eiginlega ekki gert með góðu móti. Þannig að ég fór svona að fá þessa hugmynd að reyna að skora á sjálfan mig að ráða við kannski, eitthvert eitt hlutverk eða eitthvað, prófa að fara á sviðið og vita hvort ég gæti ekki gert þetta enn þá. Þannig að núna erum við félagarnir, ég, Örn Árna og Siggi Sigurjóns að plana það að setja upp sýningu um Harry og Heimi. Á þessu leikári, svona með vorinu. Það ætlum við að gera í Þjóðleikhúskjallaranum.“
Maður á eftir að fara sem sagt aftur í Þjóðleikhúskjallarann.
„Ég vona það. Þetta er áskorun. Þetta er áskorun fyrir mig. Ég er að skora á sjálfan mig.“