fbpx
Þriðjudagur 25.nóvember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Gagnrýni á falsfréttir Morgunblaðsins nú réttmæt – aðförin að eigendum Fréttablaðsins var það ekki

Eyjan
Þriðjudaginn 25. nóvember 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, hefur gagnrýnt vinnubrögð Morgunblaðsins við fréttaflutning um vímuefnaneyslu ungmenna og staðhæfingar blaðsins um að hann hafi farið með rangt mál er hann upplýsti Alþingi um að fréttir um aukna  almenna neyslu ungmenna væru rangar. Vitnaði ráðherrann Íslensku æskulýðsrannsóknina, sem kynnt var í síðustu viku. Þátt í þeirri könnun tóku 25 þúsund börn og ungmenni og þar kemur fram að neysla ungmenna hefur dregist saman undanfarna áratugi og líka síðustu tvö árin.

Morgunblaðið hélt því fram að ráðherra hefði farið með rangt mál. Vitnaði það hvergi til Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar en þess í stað til skýrslu Barna- og fjölskyldustofu um samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónustu árin 2022-2024. Sú skýrsla tekur hins vegar ekki á nokkurn hátt til almennrar neyslu heldur einungis þeirra tilfella sem tilkynnt eru. Á því er mikill munur.

Orðið á götunni er að Morgunblaðið hafi leynt og ljóst beitt sér af öllu afli gegn þessari ríkisstjórn, málum hennar og einstökum ráðherrum og ekki sést fyrir í þeim efnum. Nærtæk dæmi eru veiðigjaldamálið, heimsókn Ursulu von der Leyen, mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur og upphlaupið vegna skráningar Flokks fólksins og styrki til stjórnmálaflokka. Morgunblaðið hefur verið órjúfanlegur hluti stjórnarandstöðunnar, og þó sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, og hefur harkan í málflutningi og óbilgirnin jafnan verið mikil og þá ekki síst þegar spjótunum er beint gegn Flokki fólksins, sem Morgunblaðið og önnur stjórnarandstaða elur með sér von um að sé veikasti hlekkurinn í þessari ríkisstjórn.

Orðið á götunni er að Morgunblaðið sé komið út á hættulega braut þegar stjórnarandstaða þess og hlutdrægni birtist ekki lengur einungis í ritstjórnarskrifum heldur smitast alvarlega út í almenn fréttaskrif. Slíkt stuðlar í besta falli að upplýsingaóreiðu en mætti líka kalla bara falsfréttaflutning.

Orðið á götunni er að fréttaflutningur Morgunblaðsins, þar sem því er haldið fram að ráðherra hafi farið með rangt mál er hann sagði á Alþingi, og vitnaði í Íslensku æskulýðsrannsóknina, að neysla íslenskra ungmenna hefði dregist saman undanfarna áratugi og líka þau tvö ár sem haldið hafði verið fram að hún hefði aukist, hafi beinlínis verið falsfréttaflutningur. Morgunblaðið vitnar ekki í heimildina sem ráðherra vísaði til heldur dregur fram aðra skýrslu sem fjallar alls ekki um neyslu ungmenna heldur einungis fjölda tilvika sem tilkynntur hefur verið til barnaverndarþjónustu. Reginmunur er þar á og það að fleiri tilkynningar hafi borist gefur enga vísbendingu um að almenn neysla ungmenna hafi aukist.

Orðið á götunni er að það hafi verið furðuleg ákvörðun hjá formanni Blaðamannafélagsins að taka sér stöðu með Morgunblaðinu til varnar falsfréttaflutningi þess um þetta mál. Mikilvægt sé að Blaðamannafélagið standi vörð um heiðarlega blaðamennsku og dapurlegt sé að sjá það ljá falsfréttamennsku lið sitt.

Orðið á götunni er að furðulegt hafi verið, þótt ekki kæmi það á óvart, að hlusta á Jens Garðar Helgason, varaformann Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í gær þar sem hann fáraðist yfir því að mennta- og barnamálaráðherra hefði leyft sér að gera athugasemdir við fréttaflutning Morgunblaðsins. Það er þá komið á hreint að varaformaður Sjálfstæðisflokksins telur rétt Morgunblaðsins til falsfréttamennsku heilagan og enginn, allra síst ráðherra sem orðið hefur fyrir barðinu á þeirri falsfréttamennsku, hafi leyfi til að gagnrýna vinnubrögðin.

Orðið á götunni er að mikil sinnaskipti hafi orðið í Sjálfstæðisflokknum síðan Davíð Oddsson, þá formaður flokksins og forsætisráðherra, reyndi að afnema prentfrelsið í landinu árið 2004 og banna eigendum Fréttablaðsins að eiga fjölmiðla vegna þess að honum fannst blaðið of gagnrýnið á ríkisstjórn hans sem um það leyti beitti reyndar öllu afli íslenska ríkisins til að reyna að koma eigendum blaðsins bak við lás og slá og á kaldan klaka í viðskiptum.

Orðið á götunni er að ólíku sé saman að jafna; gagnrýni mennta- og barnamálaráðherra á falsfréttir Morgunblaðsins nú og aðför forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokksins að Fréttablaðinu og eigendum þess þá. Sú aðför og eftirköst hennar varð reyndar til að binda enda á stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar á fremur snautlegan hátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Guðni Ómarsson: Kannski bara eitt app sem gerir allt – spurning hver verður með það

Jón Guðni Ómarsson: Kannski bara eitt app sem gerir allt – spurning hver verður með það
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbrún Bergþórsdóttir: Öllum er nákvæmlega sama um Sjálfstæðisflokkinn – hann hefur ekkert að segja

Kolbrún Bergþórsdóttir: Öllum er nákvæmlega sama um Sjálfstæðisflokkinn – hann hefur ekkert að segja
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Úrsúla frá Lundi

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Úrsúla frá Lundi