

Gmail þjónustan varð tuttugu ára í fyrra. Ég var á sínum tíma snögg að tryggja mér netfang án þess að gera mér grein fyrir því að með þetta algenga alþjóðlega nafn væri ég útsett fyrir tölvupóstsendingum sem ætlaðar væru Nínum úti um allan heim, en með því hefði ég opnað ótal glugga inn í hversdag sem mér var aldrei ætlað að sjá. Nína Richter lifir nefnilega alls konar lífum og er til í alls konar hlutverkum.
Það var í janúar 2012 sem mér fóru að berast undarlegir tölvupóstar á þýsku frá fólki sem ég þekkti ekkert. Ég var vissulega búin að dvelja svolítið í Austurríki og fannst ekkert óhugsandi að æstir aðdáendur vildu ná af mér tali. En þetta var af öðrum toga. Persónulegra og hversdagslegra.
Ég var fyrst hluti af þræði sem var einhverskonar afsökunarbeiðni eða öllu heldur innanhússviðbragð hjá skrifstofu í München eftir jólaboð sem fór úr böndunum. Það var búið að „tala við Sebastian um atvikið.“ Ég hef aldrei á ævinni fundið hjá mér annan eins hvata til að læra þýsku. Ég rýndi í athugasemdir sem mögulega gátu komið mér á sporið um eðli atviksins. Það var ljóst að þetta átti ekki að a) endurtaka sig og b) gerast hjá fyrirtæki eins og þessu. Þýska nafna mín sá að líkindum aldrei þetta stafræna hópefli mannauðsstjórans en ég hugsa enn um þetta tæpum þrettán árum síðar.
Tónninn í öðru bréfi var öllu alvarlegri. Nína bjó í Frankfurt og var greinilega búin að vera veik lengi. Krabbameinslæknirinn vonaði að hún hefði það gott og vildi heyra í henni varðandi niðurstöðurnar úr síðustu prófum. Nína er fædd 1978. Ég þekki hana ekki neitt en velti stundum fyrir mér hvernig henni líði í dag. Hvort að hún hafi ekki örugglega haft gott fólk í kringum sig þegar hún fékk símtalið. Hvort að hún hafi farið í geislameðferð og misst hárið. Meðalhitinn í Frankfurt á sumrin er 25 gráður en sumrin hafa verið heit síðustu árin. Kannski varð hún grönn af lyfjaógleði þannig að gamlir kunningjar hrósuðu henni. Hún hefði kannski þurft að kyngja heilu fjalli af upplýsingum um að hún væri með krabbamein og sagt bara „takk.“
Nína sem ég hef fylgst með hvað lengst, er á rosalegri uppleið. Tískubransa-Nína Richter. Ég hef fengið pósta ætlaða henni í fimmtán ár, frá fólki sem er ýmist að bjóða henni eitthvað eða biðja um eitthvað. Þetta eru oft mjög leiðinlegir póstar vegna þess að ég verð gríðarlega spennt þegar ég sé í titlinum að ritari hjá stórfyrirtæki grátbiður um fund. Svo les ég innihaldið og sé að yfirleitt snýst þetta um að viðkomandi veit að ég verð í París eða Mílanó á ákveðnum dagsetningum. Stundum eru þetta blaðamenn eða aðstoðarmenn hönnuða. Þvílíkt líf, og alls ekki mitt. Ég efast um að þessi Nína Richter noti gmail og mér finnst enn þá ólíklegra að hún svari póstinum sínum sjálf. Ég hef séð hana á myndum í partíum með Nicole Richie, sem mér finnst algjörlega galið að sé dóttir Lionel Richie en það er efni í annan pistil. En þarna er komin tenging mín við kónginn sjálfan, Lionel.
Ætli það sé ekki ágætis niðurlag fyrir þennan pistil. Ég og Lionel bara. Tengd í gegnum netheima í gegnum tölvupósta, tilviljanir og nöfn.