
Króatar sem sóttu um aðild að ESB um svipað leyti og Ísland tóku upp evruna 2023. Í aðdraganda upptökunnar var deilt um evruna en nú, þegar komin er tveggja ára reynsla á hana er mikil og almenn ánægja með hana. Stöðugleiki hefur aukist. Heimskautalandbúnaðarlausnin sem ESB samdi við Finnland um gæti nýst íslenskum bændum og þeir orðið fremstir í hópi þeirra sem styðja aðild að ESB. Dagur B. Eggertsson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Dagur B - 6
„Ég leyfði mér að skoða í síðustu viku nýjasta landið sem tók upp evruna, Króatíu. Króatar voru samferða okkur að hluta til í aðildarumsóknarferli í upphafi. Þá voru nú margir sem sögðu af því er geta verið að tala um þessa evru, það tekur svo langan tíma að taka hana upp. En það heppnast nú um síðir og við værum líklega fljótari að því en flestir aðrir vegna þess að við uppfyllum meira eða minna öll skilyrðin nú þegar. En Króatar, þeim tókst þetta um síðir og það var 2023 sem að þeir tóku upp evruna.
Það var umdeilt á leiðinni þangað og í aðlöguninni. Samt var það þannig að áður en evran er tekin upp að þá fær Króatía skjól af Evrópska seðlabankanum í svokölluðu ERM II kerfi þannig að stór hluti af lánum Króata voru þegar komin í evru þannig að búhnykkurinn hjá þeim að komast á lægri vexti var aðeins minni. Það var alveg 70% af þeirra lánum sem var í evrum. En það sem að mér fannst merkilegt voru nokkrir hlutir. Í fyrsta lagi, stöðugleikinn á banka- og á fjármálamarkaði jókst. Ég er gríðarlega ánægður með það. Í öðru lagi höfðu verið svona tveir svolítið álíka stórir hópar í skoðanakönnunum sem lýstu hrifningu eða áhyggjum af þessu. Núna er ánægjan ótvíræð. Mér fannst mjög merkilegt að ein sú atvinnugrein í Króatíu sem þetta hafði eitthvað best áhrif á, það var ferðaþjónusta.
Króatar eru nefnilega með mjög stóran hluta sínu hagkerfi byggðan á ferðaþjónustu, um 20%, og þessi mikilvæga atvinnugrein hjá þeim nýtur mjög góðs af þessu. Þetta hefur skilað því að það er, það er mjög mikil ánægja með evruna í Króatíu og ef ég man rétt þá taka Búlgarar upp evruna núna um áramótin. Mér finnst þessar sögur skipta máli vegna þess að það sem við eigum sameiginlegt er að við erum að ræða þetta og það eru skiptar skoðanir. Eins og var í Króatíu, en svo þegar það er komin einhver smá reynsla á þetta, tveggja ára, þá er staðan önnur.“
Það er í stjórnarsáttmálanum að það skuli kjósa um framhald aðildarviðræðna ekki síðar en árið 2027. Er ástæða til að bíða svo lengi?
Það vona ég að fólk bara hugleiði og ræði. Ég talaði um þetta sem fyrri atkvæðagreiðsluna. Þetta er í raun ekkert mjög dramatískt. Það er verið að sækja umboð til þjóðarinnar til þess að klára viðræður, til þess að sjá hver samningsniðurstaðan er. Hættan með að hafa svona tvær atkvæðagreiðslur, sem er mjög óalgengt, er að alls konar aðilar telji sig vita að við fáum hræðilegan samning og þess vegna …“
Já, og það sé ekki um neitt að semja …
„Akkúrat og þess vegna sé þetta bara algjör vitleysa og reyna að snúa þessu upp í atkvæðagreiðslu með og móti Evrópusambandinu. Ég held að við eigum að afdramatísera þessa fyrri atkvæðagreiðslu. Það er bara sjálfsagt mál að þjóðin sé spurð. Og ég bara fagna því. Ég er ekkert viss um að það sé ástæða til að bíða og mér finnst bæði rök úr þessu alþjóðlega varnar- og öryggisumhverfi fyrir því að gera þetta fyrr. Til þess að þetta ferli sé þá alla vega í gangi, ef einhverjar blikur verða á lofti og einhverjar breytingar verða í alþjóðlegu öryggisumhverfi. En líka út af því að ég held að það séu bara svo margir, meðal annars þessi samtök sem við vorum að ræða áðan í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni, sem í raun setja þetta ekkert á dagskrá hjá sér nema þeir viti að það eigi að fara að vinna eitthvað í þessu. Og þess vegna setja þau ekkert í gang einhverja vinnuhópa í einhverja alvöru vinnu um evru og Evrópumál fyrr en að það sé ljóst að þau eigi að fara í þessar viðræður. Ég hef alla vega sannfærst um það að fólk sé svolítið að bíða eftir þessu. Og mér finnst ekki eftir miklu að bíða. Við þurfum ekki að vita allt fyrir fyrri atkvæðagreiðsluna, við erum bara að sækja umboð til þess að fara í þessar viðræður. Og svo fer þá samfélagið af stað í vonandi mikla uppbyggilega en opna umræðu um Evrópu og evruna í kjölfarið og við vinnum þetta svolítið saman. Við eigum að hafa þetta ferli mjög opið. Við eigum að hleypa öllum að borðinu, líka þeim sem að eru jafnvel brjálaðir Evrópuandstæðingar eða með efasemdir.
Þegar ég tala við fólk, segjum bara bændur, unga bændur sérstaklega en reyndar alla bændur sem eru með fjármagnskostnað í sínum rekstri, þá er fólk forvitið. Það er búið að heyra af því að þegar Finnar fóru inn í Evrópusambandið, þá var búið til hugtakið heimskautalandbúnaður sem gæti jafnvel bara þýtt að landbúnaður á Íslandi byggi við allavega jafngóð ef ekki betri kjör innan Evrópusambandsins heldur en núna. Og af hverju ekki að að skoða það? Þannig að ég hugsa stór hluti bænda myndi allavega segja já í fyrri atkvæðagreiðslunni og sjá hvað kæmi út úr útfærslu varðandi heimskautalandbúnað áður en þeir ákveddu að segja nei í seinni og jafnvel verða bændur bara fremst í stuðningsliði Evrópusambandsaðildar þegar að búið verður að semja. Og mig grunar stundum að það séu einhverjir hagsmunaaðilar sem telja hagsmunum sínum ekki borgið, sem vilja ekki að bændur fái að sjá hvað er í boði og bara vilja ekki að það takist að að ná niðurstöðu í samninga út frá hagsmunum Íslands vegna þess að þeir eru hræddir um að þjóðinni lítist bara vel á þetta og þetta sé bara í þágu heimila, þetta sé í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. En þeir sem eru búnir að koma sér vel fyrir í krónuhagkerfinu, eru kannski að gera upp í erlendri mynt og eru að spila á þetta allt saman, að þeir séu að draga lappirnar.“