fbpx
Mánudagur 10.nóvember 2025
Eyjan

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera

Eyjan
Mánudaginn 10. nóvember 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á sama tíma og vextir á framkvæmdalánum til verktaka eru 3,9 prósent á evrusvæðinu eru þeir 16 prósent hér á landi, eða fjórfaldir, og einn stærsti kostnaðarliðurinn við húsbyggingar. Samt eru samtök í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingin lítið að tala um þetta, rétt eins og vextir séu eins og veðrið og ekkert hægt að gera í þeim. Samtök atvinnurekenda tala um íþyngjandi launakostnað en minnast vart á íþyngjandi vaxtakostnað. Dagur B. Eggertsson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum hér:

Eyjan - Dagur B - 4
play-sharp-fill

Eyjan - Dagur B - 4

„Okkur gengur hægar að ná henni niður heldur en öðrum, vegna þess að verðbólga fór víða af stað eftir Covid. Og þess vegna eru vextir háir og viðvarandi háir hér. Og við erum reglulega í umræðum um: Já, en það snýst bara um ábyrgð í efnahagsstjórn og eitthvað og sannarlega skiptir efnahagsstjórn máli, bæði fyrir þá sem eru með evru og krónu. En gallinn er sá hér heima að það dugir ekki til. Við verðum kannski bara að horfast í augu við það ef við ætlum að vera með krónu, að þá eru heimilin að borga fyrir það. Fyrirtækin eru að borga fyrir það. Það að minnsta kosti þessi langstærsti hluti fyrirtækja sem eru lítil og meðalstór, en það verður að athuga að þeir sem draga mest lappirnar varðandi umræðu um Evrópu og evruna eru kannski stærri aðilar, útflutningsfyrirtæki, í sjávarútvegi meðal annars, en ekki eingöngu, sem eru bara fyrir löngu farin að gera upp í evrum eða dollurum. Þau eru farin úr krónunni og geta varið sig fyrir þessum sveiflum sem lenda á heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Og þeir sem að eru mikið að spá í þetta geta meira að segja jafnvel haft einhverja hagnaðarvon út úr því að lifa í besta heimi, sitt hvorum megin, eftir því hvernig efnahagsástandið sveiflast miðað við þessi hagkerfi.“

Nú, við sjáum það náttúrlega að þessi fyrirtæki, þessir aðilar sem eru komnir út úr krónunni, eru farnir að gera upp í, ja, aðallega evru, einhverjir dollar. Þessi fyrirtæki eru með mikið forskot gagnvart öðrum íslenskum fyrirtækjum, til dæmis bara hér á Íslandi. Við sjáum alveg hvernig fyrirtæki sem í grunninn eru farin út úr krónuhagkerfinu eru að kaupa upp fyrirtæki í ólíkum greinum.

„Akkúrat. Og vegna þess að ef þú gerir upp í evrum og ert með tekjur í evrum, þá er miklu minni áhætta fyrir þig að taka lán í evrum. Þá ertu allt í einu kominn inn á einhvern íslenskan krónumarkað með fjármagnskostnað af evrulánum sem er ótrúlega mikill munur á. Við vorum að tala um heimilin áðan. en ég skoðaði líka hvað skammtímafjármögnun fyrir fyrirtæki, hvað hvað munurinn væri lítill og af því ég var með athygli á húsnæðismarkaðnum. Þá skoðaði ég skammtímafjármögnun fyrir verktaka, litla og meðalstóra verktaka sem eru í að byggja kannski 50 en alveg upp í 250 íbúðir eða eitthvað.

Öll svona verkefni af einhverri stærðargráðu eru fjármögnuð á byggingartímanum með svokölluðum framkvæmdalánum. Þetta eru skammtímalán sem eru síðan endurgreidd þegar að íbúðirnar eru seldar. Þú bara byrjar með lítið lán og svo er það allt að heildarfjárfestingin í lok lánstímans. Þannig að ég skoðaði bara hvað kostaði að taka lán, 40 milljón króna lán, sem er þá framkvæmdalán á kannski 80 milljónir króna íbúð, eitthvað svoleiðis. Það eru mjög aðgengilegar upplýsingar á heimasíðu Evrópska seðlabankans um á hvaða kjörum svona skammtímalán eru á evrusvæðinu. Það er 3,9% óverðtryggt.

Svo fór ég að kanna, það eru ekki eins aðgengilegar upplýsingar hér heima, bara þannig að það sé sagt, en út frá stýrivöxtum gæti maður ætlað að þessi lán væru á svona 11-12% vöxtum. Það er strax orðinn mjög mikill munur, hann er þrefaldur. En þegar maður talar við verktaka, og ég er nú í tengslum við mjög marga bara eftir að hafa verið hinum megin við borðið hjá borginni, þá eru bara mjög algengir vextir á framkvæmdalánum til verktaka 16%. Samtök iðnaðarins komu fyrir þingnefnd í vikunni og staðfestu þessa tölu, að þetta væri bara algengt, 16%. Þá ertu með fjórfalt meiri vaxtakostnað af hverri íbúð heldur en ef þú værir með evrulán. Og hvað eru þetta miklir peningar? Af þessari íbúð sem ég reiknaði út, þá eru þetta 16 milljónir á íbúðina, bara fjármagnskostnaður á framkvæmdatíma vegna þessara framkvæmdalána. Þannig að þetta er orðinn einn stærsti einstaki liðurinn í byggingarkostnaði á byggingartíma og við tölum eiginlega bara aldrei um þetta. Við látum stundum eins og vaxtakjör íslenskra fyrirtækja, lítilla og meðalstórra, séu eins og veðrið. Við þurfum bara að sætta okkur við það. Það eða flytja.“

Það hefur verið bent á þetta, að þessir háu vextir hér, þeir eru í raun og veru sjálfstæður þáttur, verðbólguvaldandi þáttur.

„Algjörlega. Það er augljóst og hefur auðvitað áhrif á okkar lífskjör. Samtök atvinnulífsins til dæmis tala mikið um það að laun hér á landi séu orðin há, há í alþjóðlegum samanburði, og það er að ýmsu leyti rétt. En það er að hluta til til þess að takast á við fjármagnskostnað heimila, til dæmis á húsnæðismarkaði.

Svo er þessi veruleiki fyrirtækjamegin. Þau eru bæði að borga há laun og að borga háa vexti þannig að þetta hefur auðvitað áhrif á það hvernig er að reka fyrirtæki á Íslandi og mér finnst samtök í atvinnulífinu tala mikið um íþyngjandi launakostnað og lítið um íþyngjandi vaxtakostnað. Ég spyr mig, af hverju? Af hverju er það svona viðkvæmt að bera saman íslensk vaxtakjör og evrópsk? Af hverju fer einhvern veginn allt að titra? Ég held að við verðum að hérna girða okkur í brók hvað þetta varðar og ég í raun bara hvet bæði launafólk, vinnandi fólk, en líka fyrirtækjarekendur, að banka upp á hjá sínum samtökum og hvetja til þess að þetta sé skoðað meira.

Ég gerði það eftir að ég tók sæti á þingi, að ég fór bara svona kerfisbundið að heimsækja bæði verkalýðshreyfinguna, stendur mér mjög nærri, en líka samtök í atvinnulífinu og SA og er búinn að tala við fulltrúa ferðaþjónustunnar og Félag atvinnurekenda og miklu fleiri. Og það er bara segin saga, þó allir átti sig á hvað þetta eru mikilvæg mál, þá hefur í mörg ár mjög lítil vinna eða umræða farið fram innan þessara stóru og öflugu samtaka sem hafa alla burði. Það er í raun eins og þetta hafi ekki almennilega verið rætt síðan við vorum að sækja um aðild að Evrópusambandinu síðast. Og það eru til ýmis gögn frá þeim tíma, sama á við um Seðlabankann. Úttektirnar á krónunni og svona eru meira eða minna gerðar upp úr 2010 þegar það var náttúrulega ekki dæmigert ástand í íslensku hagkerfi, eftir hrun.

Það er gott að fá tækifæri til þess bara að kalla eftir þessu. Þetta er bara einhver heimavinna sem að ætti að vera alltaf í gangi. Þetta er bara mjög stór kostnaðarliður í rekstri fyrirtækja. Þetta er gríðarlega stór liður í bókhaldi heimilisins. Þetta er risastór þáttur í því hvort ungt fólk komist inn á húsnæðismarkaðinn. Og hversu íþyngjandi lánakostnaður eða leigukostnaður er í heimilisbókhaldinu. Þetta skiptir líka máli þegar þú kaupir eða leigir bíl á rekstrarleigu. Þetta kemur við sögu alls staðar.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Það verður bara að buffa þá, sagði yfirlögregluþjónninn

Reynir Traustason: Það verður bara að buffa þá, sagði yfirlögregluþjónninn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fjármál ríkislögreglustjóra: Ítrekuð umframkeyrsla og hallarekstur – verktakagreiðslur hlaupa á milljörðum

Fjármál ríkislögreglustjóra: Ítrekuð umframkeyrsla og hallarekstur – verktakagreiðslur hlaupa á milljörðum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna
Hide picture