

Hægrimenn halda því fram í orði að þeir einir haldi aftur af álögum á fólk og fyrirtæki. Þeir hampa gjarnan sjálfum sér fyrir að draga heldur úr skattaáþján á landsmenn sína, fremur en að auka þær, og gæti í það minnsta hófs í gjaldtöku af hvaða tagi sem er. Þar sé erindi þeirra í pólitíkinni komið.
Í verki blasir annað við, því skemmst er að minnast innviðagjaldsins sem þeir afréðu að leggja á komur skemmtiferðaskipa á síðasta kjörtímabili þegar íhaldið sýndi síðast á spil sín í skattamálum. Án þess að hendi væri veifað var ákveðið að heimta 2500 krónur af hverjum einasta farþega skipanna sem hingað leggja leið sína, og hér skyldi ekki vera um eingreiðslu að ræða, heldur bæri gestunum að greiða þessa upphæð fyrir hvern þann sólarhring sem þeir dveldu í landinu. Til viðbótar átti svo að afnema tollfrelsi sem minni leiðangursbátar hafa notið í hálfan annan áratug, en þeir sigla gjarnan hringinn í kringum landið, og koma við í fjölda hafna í fjörðum og víkum eyjunnar.
Enginn veit hvaðan þessi hressilega upphæð er komin, sem velflestir eru núna sammála um að megi heita algert skattaokur og einbeitt árás á atvinnugreinina. En þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan í Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kveðst ekki nokkur embættismanna þjóðarinnar vita hvernig næsta kokkáluð krónutalan var reiknuð út. Og þegar að því er spurt hvaða greining fór fram á áhrifum af svona óhóflegri skattheimtu í einni svipan, án nokkurrar aðlögunar, er jafn fátt um svör.
Þetta bara varð si sona til, suður við Arnarhól, einmitt á íhaldsins vakt. Og það skeytti engu þótt hér væri farið fram af meiri innheimtugleði en áður hefði fyrirfundist í atvinnulífi landsmanna. Gilti einu þótt engan samjöfnuð væri þar að finna. Þetta væri kærkominn og kræsilegur skattstofn úr vösum ríkustu túristanna sem sækja Ísland heim. Þeir mættu sko blæða. Og myndu í engu breyta ferðum sínum. Ráðuneytið við Arnarhól hélt því nefnilega fram að skipakomum ætti ekkert eftir að fækka!
„Langbesta tækinu til að dreifa ferðamönnum um landið hefur verið kippt úr sambandi.“
Ný ríkisstjórn fékk þessa gölnu geðþóttaákvörðun fyrri stjórnvalda í fangið. Og enda þótt sú gamla pólitík viðurkenni núna að alltof geyst hafi verið farið í skattagleðinni þeirri arna, hefur hún varla notað tíma sinn í ræðustól í annað en að uppnefna nýju stjórnina fyrir skattahækkanir. Kristrún og kó kunni ekki annað en að okra á landi og þjóð. En það er auðvitað heldur holur hljómur í þeirri gagnrýni þegar fyrir liggur að sjálf setti sú gamla Evrópumet í álögum á eina og sömu atvinnugreinina.
Og hverjar eru afleiðingarnar fyrir bæjarfélögin, stór og smá, hringinn í kringum landið? Það stefnir í hrun í þessari tegund ferðaþjónustu. Almennt er búist við ríflega fjörutíu prósenta samdrætti í komum skemmtiskipa á komandi árum. Og verst leikur þessi hægrisinnaða kerfisbreyting þau sveitarfélög sem veikust eru fyrir, en hafa einmitt getað byggt upp bátalægi sín í krafti hafnargjalda á síðustu tímum.
Árás þessi á landsbyggðina sést best á því að komur skipa til Djúpavogs færu úr 64 á síðasta ári í 31 árið 2027, gengju meðalspár eftir, á Siglufirði úr 27 í 8, á Húsavík úr 50 í 19, í Vesturbyggð úr 26 í 7 og á Borgarfirði eystri úr 21 í 1, svo dæmi séu tekin héðan og þaðan af landinu.
Jafnvel stærstu hafnirnar myndu líða fyrir þetta skattamet íhaldsins, næði það allt saman fram að ganga á næstu árum. Í Reykjavík færu komur skemmtiferðaskipa úr 259 í fyrra í 174 árið 2027, á Akureyri úr 256 í 153, á Ísafirði úr 195 í 136 og í Vestmannaeyjum úr 103 í 61.
Ör fjölgun skemmtiferðaskipa hér við land frá aldamótum hefur reynst þeim landsvæðum best sem ekki hafa notið uppgangsins í hefðbundinni ferðaþjónustu á suðvestanverðu horni landsins. Hér hefur verið um hreina og klára viðbót í greininni að ræða sem dreift hefur ferðafólki hvað best um Ísland. Og margfeldisáhrifin á smærri stöðum eru ærin. Fjöldi kvennastarfa hefur skapast. Og forsendur þess að reka rútur allt árið, sem gagnast skólaakstri og íþróttaferðum að vetrum, hafa aldrei verið betri.
Í Grundarfirði, svo eitt dæmi sé tekið, var höfnin alltaf á kúpunni frá því þorpsbúar mundu eftir sér – og átti ekki bót fyrir boruna á sér, líkt og sveitarstjórinn orðaði það nýverið á nefndasviði Alþingis. Tíð koma skemmtiferðaskipanna á síðustu árum hafi öllu breytt, og raunar vel það.
Hér stefnir því í alger óefni. Langbesta tækinu til að dreifa ferðamönnum um landið hefur verið kippt úr sambandi. Af álagaglöðu íhaldi. Við svo búið má ekki standa, svo mikið sem augljóslega er í húfi.