
Það voru mikil mistök hjá Stundinni á sínum tíma að ganga í eina sæng með Kjarnanum svo úr varð Heimildin. Rekstur Stundarinnar hafði verið í jafnvægi og réttu megin við núllið en Kjarninn kom með 100 milljóna taprekstur inn í dæmið. Í dag er Heimildin rekin á Stundarmódelinu og allir sem komu frá Kjarnanum horfnir á braut þótt eigendur Kjarnans séu enn í eigendahópi Heimildarinnar. Reynir Traustason er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Reynir Traustason - 6
„Við stofnuðum Stundina upp úr þessu uppnámi á DV það voru bara algjörar hreinsanir. Meira að segja auglýsingadeildin var hreinsuð út af því að það var talið að þeir gætu verið hliðhollir mér. Bróðir minn var þarna í auglýsingum. Helvíti seigur og hafði verið á RÚV og gerði góðan hlut. En Þorsteinn Guðnason hringdi í hann og sagði: Því miður verði að reka þig. „Nú?“ segir Þórir: „Hvað, af hverju er það?“ „Ja, þú ert bróðir hans Reynis, þú bara verður að fara.“ Þannig hreinsuðu þeir eiginlega alla út og það voru mjög fáir sem stóðu eftir.“
Þið farið í að stofna Stundina.
„Já, það er sem sagt farið á Karólína-fund og það voru slegin öll met. Ég held að það hafi safnast yfir sjö milljónir á þeim tíma sem var mjög gott í startið á nýja miðlinum og það vildu allir koma með okkur sem að höfðu verið á DV og meira að segja þeir sem þraukuðu þar vildu fá að koma. Það var svo sem ekki pláss fyrir mjög marga á Stundinni upphaflega. Blaðið kom út einu sinni í mánuði en þetta gekk allt frábærlega vel í öll þessi ár þangað til við gerðum þau mistök að taka Kjarnann um borð.
Stundin var rétt um eða við strikið, var alltaf í plús. Síðan tökum við Kjarnann yfir. Það er miðill sem átti sér sögu um nærri 100 milljón króna tap á líftíma sínum. Þarna voru dómínerandi Vilhjálmur Þorsteinsson og Hjálmar Gíslason og svo auðvitað Þórður Snær [Júlíusson] sem var nú flett rækilega ofan af. En það voru, held ég að allir átti sig á í dag, það voru mikil mistök að sameinast, en við létum þá hafa 30% prósent í fyrirtækinu, rúmlega. Bara sannast sagna, þá er ekkert eftir af Kjarnanum í dag og menn eru bara komnir á þann stað að einbeita sér að Stundarmódelinu eins og það var. En ég hef svo sem ekkert verið með nein afskipti af hvorki Stundinni né Heimildinni frá því ég var stjórnarformaður og hætt, var með Mannlíf nokkur ár.
Ég skipti mér ekkert af þessu nema að vera svona silent partner, eins og það heitir. Nema, ég að vísu mætti á hluthafafund þegar að þeir gerðu uppsteyt þarna, Vilhjálmur og Hjálmar. Giftusamlega þá sögðu þeir af sér og eru farnir. Þannig að þeir eru ekkert lengur í stjórn en eru innanborðs.“
Eru innanborðs og þessi sameinaði miðill, Stundin og Kjarninn, tók upp nafnið Heimildin sem er í dag í raun Stundin?
„Það sem stendur eftir af fólki er, það er enginn af Kjarnanum lengur. Það er bara Stundarfólkið eftir og ég hef fulla trú á því að fólk nái bara að halda dampi og rís upp úr Kjarnaöskunni.“