Það getur verið erfitt að átta sig á því hvaða mál það eru sem skipta sköpum þegar kjósendur ganga að kjörborðinu. Oft getur það verið frammistaða sitjandi ríkisstjórnar sem veldur úrslitum. Þannig var það t.d. þegar Sjálfstæðismenn töpuðu Reykjavíkurborg 1978. Þá voru með mánaðarmillibili sveitastjórnar- og þingkosningar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var gríðarlega óvinsæl og til allrar óhamingju fyrir Birgi Ísleif Gunnarsson borgarstjóra Sjálfstæðismanna voru það sveitastjórnarkosningarnar sem komu fyrst. Kjósendur fengu útrás fyrir andúð sína á ríkisstjórninni þar og meirihlutinn í Reykjavík féll. Engu máli skipti þótt almennt væri litið svo á að meirihlutinn og borgarstjórinn hefði staðið sig með mikilli prýði.
En það geta líka verið mál sem snúa að sveitarfélögunum sjálfum sem ráða vali kjósenda. Það getur verið allt frá því að snúast um frambjóðendurna yfir í mál sem virðulegum og ábúðarfullum stjórnmálamönnum finnast hálfgerður tittlingaskítur.
Svo lengi sem Svarthöfði man eftir sér hafa leikskólamál verið bitbein. Árið 1990 vann Sjálfstæðisflokkurinn sögulegan sigur í borgarstjórnarkosningum og fékk yfir 60 prósent atkvæða. Fyrir þær kosningar lofaði Davíð Oddsson því að borgin myndi leysa leikskólavandann með einu pennastriki. Ekki með því að byggja fleiri leikskóla og ráða fleiri kennara (Svarthöfða minnir að í þá daga hafi það verið „fóstrur“ en ekki kennarar). Nei, heldur með því að draga úr eftirspurn eftir leikskólaplássi. Kosningaloforðið var að borgin myndi einfaldlega borga konum til að vera heima með börnin sín – kannski fyrsti vísir að borgaralaunum? Þetta loforð virkaði svo vel að flokkurinn vann sinn stærsta sigur fyrr og síðar. Svarthöfði er ekki sannfærður um að þessi nálgun myndi virka svona vel í dag en kannski alveg þess virði fyrir Sjálfstæðismenn að prófa. Eitthvað verða þeir að gera.
Síðan varð mikil stefnubreyting þegar R-listinn felldi Sjálfstæðisflokkinn af stalli í borginni 1994. Þá var farið af krafti í að byggja nýja leikskóla fremur en að senda konur aftur inn á heimilið. Svo virðist sem kjósendum hafi líkað þetta bærilega því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur vart séð til sólar í borginni síðan þá.
Nú er meirihlutinn í Reykjavík búinn að setja fram nýja stefnu í leikskólamálum, stefnu sem að sönnu kemur nokkuð á óvart, hið minnsta úr þeirri átt. Það á að stytta dvalartíma barna á leikskóla, búa til umfangsmikið og án efa flókið skráningarkerfi og, jú, hækka gjaldskrár fyrir heilsdagsvistun.
Þetta er nákvæmlega sú nálgun sem Sjálfstæðismenn í Kópavogi hafa farið. Þetta dregur úr kostnaði sveitarfélagsins við rekstur leikskóla m.a. vegna þess að í raun er um mikla hækkun leikskólagjalda að ræða. Svarthöfði sér ekki betur en að með þessu sé í raun verið að draga úr almannaþjónustu því að þeir sem vilja heilsdagsvistun fyrir börnin þurfa að borga miklu meira en núna og þeir sem ekki geta borgað svona miklu meira verða bara að draga úr eigin vinnutíma til að sinna börnunum sjálfir.
Á mannamáli mun þetta víst þýða að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi er búinn að fínpússa stefnuna í Reykjavík frá 1990. En í stað þess að það eigi að borga konum fyrir að vera heima og passa börnin verða þær einfaldlega rukkaðar ef þær eru ekki heima að passa börnin. Ekki er lengur veifað gulrót heldur er það svipan sem blífur.
Svarthöfði hefði talið að Sjálfstæðismenn í Reykjavík myndu fagna því að meirihlutinn í borgarstjórn tekur upp stefnu Sjálfstæðismanna í Kópavogi en þá bregður svo við að Sjálfstæðismenn í borginni finna stefnunni í Kópavogi allt til foráttu – þ.e.a.s. þeir eru mjög hrifnir af stefnunni í Kópavogi þar sem Sjálfstæðismenn ráða en ekki í Reykjavík þar sem Sjálfstæðismenn ráða engu. Er ekki þarna komið gullið dæmi um að Sjálfstæðismenn hlýða öllu sem Davíð Oddsson segir, en það var einmitt Davíð sem var alltaf á móti öllu sem pólitískir andstæðingar lögðu til, jafnvel þótt hann væri í raun sammála því.
Já, hún er skrítin tík þessi pólitík. Svarthöfði veltir því fyrir sér hvernig kjósendur bregðast við. Hver er t.d. þessi Sjálfstæðisflokkur? Er það Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi sem vill reka konurnar aftur inn á heimilin með illu eða er það Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sem var alsæll með Kópavogsmódelið alveg þangað til meirihlutinn í Reykjavík tók það upp og gerði að sínu?