„Eftir umhugsun og samtal við fjölmarga flokksmenn og áskoranir úr öllum landshlutum hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína til embættisins í þágu flokksins,“ segir Ingibjörg í tilkynningu til fjölmiðla.
„Ég hef víðtæka reynslu og hef ætíð valist í störf þar sem samskipti við fólk skipa veigamikinn sess. Ég starfaði í utanríkisþjónustunni í ríflega 25 ár, meðal annars sem sendiherra Íslands í Noregi, var síðan m.a. ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í utanríkismálum í forsætisráðherratíð hans, ásamt því að starfa í sendiskrifstofum víða um heim,“ segir Ingibjörg í tilkynningunni.
Hún segist vera sveitabarn og þegar ræturnar hafi farið að toga fast í hana hafi hún viljað leggja sitt af mörkum við að ýta undir frekari verðmætasköpun í landbúnaði og fæðutengdri starfsemi.
„Markmið mitt var að stuðla að byggðafestu og lyfta landsbyggðinni. Stofnun íslenska fæðuklasans gegndi þar veigamiklu hlutverki. Á sviði stjórnmálanna sá ég hagsmunum bænda og landsbyggðar best borgið innan Miðflokksins. Frá seinustu alþingiskosningum hef ég notið þess heiðurs að vera oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi,“ segir hún og bætir við að fram undan séu mikil tækifæri.
„Styðja þarf við innra starf flokksins með samtali við grasrótina. Sveitastjórnakosningar eru í vor, verja þarf fullveldið, fólkið, frelsið, fyrirtækin og framtíð Íslands. Koma þarf á skynsamlegri stefnu í málefnum hælisleitenda. Okkur ber að tryggja landamærin og öryggi borgaranna, fæðuöryggi og innlenda matvælaframleiðslu og margt fleira.
Hér eftir sem hingað til mun ég leggja mig alla fram fyrir flokksmenn alla. Ég hlakka til Landsþings og eiga samtal um framtíðina og hvernig við flokksmenn getum eflt þau gildi sem við í Miðflokknum viljum að hann standi fyrir.“
Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Bergþór Ólason hefði einnig gefið kost á sér í embætti varaformanns, en kosið verður í embættið á flokksþingi Miðflokksins um aðra helgi.