fbpx
Föstudagur 17.október 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf

Svarthöfði
Föstudaginn 17. október 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er gömul saga og ný að Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafi allt á hornum sér. Árum og jafnvel áratugum saman hafa þeir verið í minnihluta í borginni og mátt horfa á aðra stjórna. Vitaskuld hlýtur mesti harmurinn í þessu að vera sá að þeir geta sjálfum sér um kennt. Þau eru alls ekki best, sjálfskaparvítin.

Í gær var lögð fram í borgarráði úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á samningaviðræðum um bensínstöðvalóðir. Sjálfstæðismenn þóttust himin höndum hafa tekið. Hildur Björnsdóttir beið ekki boðanna og var snögg að lýsa því yfir að niðurstöður úttektarinnar væru mikill áfellisdómur yfir framgöngu borgarinnar í málinu, hagsmunir íbúa hefðu verið hunsaðir og ekkert samráð haft við minnihlutann, borgarráð hefði bara ekki haft hugmynd um hvað var að gerast. Borgin hefði tapað milljörðum á þessu prívatflippi meirihlutans að krefjast einungis gatnagerðargjalda en falla frá kröfum um byggingarréttargjöld.

Svarthöfði er skeptískur að eðlisfari og ákvað að gera tilraun til að staðreyndaprófa yfirlýsingar Hildar. Í þeim tilgangi las hann úttektina sem dreift var í borgarráði í gær. Eftir þann lestur er hann nokkuð sannfærður um að Hildur Björnsdóttir hefur alls ekki lesið plaggið sem innri endurskoðun sendi frá sér. Svarthöfði þekkir það af eigin raun að þegar menn mæta ólesnir í munnlegt próf vill það gjarnan henda að þeir flaski á spurningunum og fái falleinkunn. Ekki hvarflar það að honum eitt andartak að Hildur hafi vísvitandi farið með rangt mál.

Innri endurskoðun tekur sérstaklega fram að málið hafi allt verið kynnt mjög vel fyrir borgarráði: „Gögn sem lágu fyrir borgarráði 9. maí 2019 þegar það samþykkti samningsmarkmið vegna viðræðna um bensínstöðvalóðir voru ítarleg. Að mati IER höfðu fulltrúar í borgarráði á þeim tíma greinargóðar upplýsingar um bensínstöðvarnar og jafnframt greinargóðar upplýsingar um samningaviðræðurnar og tillögur að þeim.“

Svo mörg voru þau orð. Nokkru síðar stendur í plagginu: „Í samningsmarkmiðunum kom skýrt fram að ef ákveðin skilyrði yrðu uppfyllt þá „[yrði] einungis krafist greiðslu gatnagerðargjalda af hendi lóðarhafa og eftir atvikum framkvæmdaaðila vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni.“ IER telur að ekki sé neinum vafa háð að með þessu samþykkti borgarráð að falla frá kröfum um byggingarréttargjöld ef skilyrðum samningsmarkmiðanna yrði náð og að um það hafi borgarráðsfulltrúar ekki mátt vera í vafa.

IER telur að ganga verði út frá að borgarráð hafi þekkt vel mun á byggingarréttargjaldi og svo mögulegu markaðsverði lóðarréttinda eða a.m.k. að ekki væri nauðsynlega samhengi þarna á milli. Borgarráð hafi með öðrum orðum mátt vita að möguleg uppbyggingaráform á einstökum lóðum gætu falið í sér fjárhagslega hvata fyrir lóðarhafa til að samþykkja breytta nýtingu á bensínstöðvalóðunum og að sá hvati gæti, eftir atvikum, verið umtalsvert verðmætari en eingöngu niðurfelling byggingarréttargjalda.“

Með öðrum orðum: Allt var gert eftir bókinni og minnihlutinn var vel upplýstur. Þetta þýðir að Hildur Björnsdóttir fer með fullkomið fleipur þegar hún heldur því fram að ráðstöfun bensínstöðvalóðanna hafi verið laumuspil meirihlutans sem hafi leynt borgarráð því sem gert var. Ekki mun þetta vera í fyrsta sinn sem það hendir Hildi og væntanlega ekki heldur í það síðasta.

Svarthöfði veit sem er að nú er hafinn kosningavetur og langþreyttur minnihlutinn er fús til að leggja ýmislegt á sig til að koma höggi á meirihlutann svo sem sjá má af þessu upphlaupi Hildar. Það er ánægjulegt að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skuli ekki vera stýrt úr Valhöll heldur starfar hún sjálfstætt og óháð eins og vera ber. En Hildur féll því miður á þessu munnlega prófi, enda alls ólesin í pensúminu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Snjallsíminn og frelsi barnanna okkar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Snjallsíminn og frelsi barnanna okkar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tíðindalaus uppskeruhátíð eða hvað

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tíðindalaus uppskeruhátíð eða hvað
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Veisla hjá Viðreisn

Thomas Möller skrifar: Veisla hjá Viðreisn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu
EyjanFastir pennar
17.09.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús