fbpx
Fimmtudagur 16.október 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið

Eyjan
Fimmtudaginn 16. október 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við svona kannski höfum ákveðið að búa með krónunni og því umhverfi sem er á Íslandi.“

Þetta er tilvitnun í ummæli Róberts Wessmans forstjóra Alvotech í pallborði á ársfund SA á dögunum.

Áður hafði formaður SA gagnrýnt stjórnvöld fyrir skilningsleysi á rekstri fyrirtækja og sagt stefnu núverandi ríkisstjórnar skaðlega fyrir íslenskt atvinnulíf.

Í ljósi stóryrða leiðtoga atvinnulífsins er ástæða til að velta fyrir sér spurningunni: Lýsir „svona kannski“ ákvörðun Alvotech að lifa með krónunni næmari skilningi á rekstrarumhverfi venjulegra íslenskra fyrirtækja en finna má hjá þeim sem sitja í stjórnarráðinu?

Samviskuveiki

Orðin „svona kannski“ gætu lýst því að forstjórinn væri ekki alveg viss í sinni sök. En þau kunna líka að vera merki um smá samviskuveiki.

Veruleikinn er nefnilega sá að fyrirtækið sem „svona kannski“ hefur ákveðið að búa með krónunni er rekið í bandarískum dollurum!!!

Tekjurnar eru í erlendum gjaldmiðlum. Það tekur lán í allt öðru vaxtaumhverfi en þekkist á Íslandi. Kostnaðurinn er greiddur í ýmsum gjaldmiðlum, þar á meðal í íslenskum krónum.

Reikningar þess eru gerðir upp í bandarískum dollurum. Stjórnendur þess geta metið efnahagslegan árangur af starfseminni í samkeppnishæfum og viðmiðunarhæfum gjaldmiðli. Það er eitt af þremur meginhlutverkum gjaldmiðla, sem krónan uppfyllir ekki.

Forstjórinn kaus svo á fundinum að tilgreina í bandarískum dollurum upphæðina, sem fyrirtækið greiðir í skatta til ríkissjóðs. Þá var eins og ákvörðunin um að lifa með krónunni væri orðin nokkuð mikið: „Svona kannski.“

Hlutahagsmunir

Útflutningsfyrirtæki geta tekið lán utan krónuhagkerfisins. Raunvaxtamismunurinn milli krónuhagkerfisins og helstu gjaldmiðla er um það bil þrefaldur.

Þau fyrirtæki sem njóta þessarar aðstöðu velta um 40% af þjóðarframleiðslunni. Samkeppnisstaða þeirra á þessu mikilvæga sviði er því nokkuð góð.

Öll hin fyrirtækin, flest lítil og meðalstór, sem keppa á innlendum markaði starfa sem sagt í vaxtaumhverfi þar sem raunvextir eru þrefalt hærri.

Hvergi í vestrænum markaðsríkjum þekkist viðlíka aðstöðumunur. Þetta veit forstjóri Alvotech. Hann kaus hins vegar að nefna ekki þennan helsta samkeppnisvanda fyrirtækja á innlendum markaði á nafn.

Ráðgátan er: Hvers vegna ræða talsmenn SA ekki samkeppnisvanda þessa hluta atvinnulífsins? Er það skilningsskortur eða pólitík?

Heildarhagsmunir

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra sat í pallborðinu á ársfundinum.

Aðspurður sagði hann að „heimsmeistarinn“ í útflutningi þyrfti stöðugan gjaldmiðil. Hann hnýtti því við að sjálfsagt væri hægt að ná stöðugleika með núverandi fyrirkomulagi, en það yrði dýrt.

Þetta er kjarni málsins. Krónan verður alltaf þrefalt dýrari.

Forstjóri Alvotech gerði lítið úr því. Hann sagðist hafa fullt af tólum til að verjast gengisáhættu.

Hann sýndi því engan skilning frekar en formaður SA að litlu og meðalstóru fyrirtækin á innlenda markaðnum geta hvorki keypt gengistryggingar né tryggingar gegn þrefalt hærri vöxtum. Aðildarfyrirtæki SA selja þó ekki nýja bíla nema í erlendri mynt.

Fjármálaráðuneytið og hús atvinnulífsins

Myndin er býsna skýr:

Í fjármálaráðuneytinu er verið að hugsa um heildarhagsmuni atvinnulífsins.

Í Húsi atvinnulífsins er boðskapurinn: Sumir eiga að hafa samkeppnishæfan gjaldmiðil, en bara alls ekki allir.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um hvort tryggja eigi öllum samkeppnishæfan gjaldmiðil, bæði launafólki og fyrirtækjum.

Forstjóri Alvotech og formaður SA standa á hinn bóginn með stjórnarandstöðuflokkunum þremur í baráttu þeirra gegn því að þjóðin fái þetta vald.

Hvar liggur skilningurinn?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heitirðu Óttar?

Óttar Guðmundsson skrifar: Heitirðu Óttar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Þykir engum vænt um Stefán Einar og Morgunblaðið?

Svarthöfði skrifar: Þykir engum vænt um Stefán Einar og Morgunblaðið?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Séra Friðrik, Friðrik V og Guðríður Þorbjarnardóttir

Björn Jón skrifar: Séra Friðrik, Friðrik V og Guðríður Þorbjarnardóttir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flækjusaga af rugluðu regluverki

Sigmundur Ernir skrifar: Flækjusaga af rugluðu regluverki
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Feimnismál

Óttar Guðmundsson skrifar: Feimnismál
EyjanFastir pennar
14.09.2025

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans
EyjanFastir pennar
13.09.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin í íslenskum fjárlögum

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin í íslenskum fjárlögum