Loðvík IV (1638-1715) var konungur í Frakklandi og þótti sjálfhverfur og ráðríkur. Honum er eignuð setningin „Ríkið, það er ég“ sem var til marks um alræðistilhneigingar hans og drjúgt sjálfsálit.
Manni verður óhjákvæmilega hugsað til þessara orða þegar maður hlustar á íslenska ráðherra tjá sig um málefni, sem tilheyra þeirra ráðuneyti: „Ég ætla…, Ég vil…, Ég mun…“ o.s.frv. Þegar þeir svo tjá sig í rituðu máli má iðulega lesa: „Ég hef…, Mitt ráðuneyti…“ o.s.frv. Það er ekkert „VIГ í ráðuneytunum, bara „ÉG“. Hroki og yfirlæti trompa iðulega hógværð og auðmýkt, þótt vissulega séu á því ánægjulegar undantekningar. En ráðherrunum er e.t.v. vorkunn, fréttamenn alltaf að hringja í þá eða ota framan í þá hljóðnema: Hvað ætlar „ÞÚ“ að gera í málinu o.s.frv.?
Þetta eilífa „ÉG“ opinberar enn og aftur veikleikann í íslenskri stjórnsýslu. Ráðherrar eru alla jafna valdir úr þingliði þeirra flokka sem skipa meirihlutann. Þeir þurfa ekki að hafa neina þekkingu á þeim málefnum, sem undir þá heyra, þeir þurfa bara að hafa verið trúir og traustir flokksmenn og þess eru fjölmörg dæmi að sami maðurinn hafi gegnt mörgum mismunandi ráðherraembættum eftir því hvernig vindar blása í stjórnmálunum. Í núverandi fyrirkomulagi er ráðherra bæði með löggjafar- og framkvæmdarvald, dritar lögum inn í þingið og veitir sjálfum sér aðhald.
Þessi skipan mála er tímaskekkja. Ráðherrar eiga ekki jafnframt að vera þingmenn. Annaðhvort eru ráðherrar valdir m.t.t. þekkingar þeirra á viðkomandi málaflokki eða ef verðlauna skal þingmann fyrir trúfestu við flokkinn, þá segi hann af sér þingmennsku. Eitt vandamál við slíkt fyrirkomulag er, að þá þurfa þingmenn að fara að vinna við að semja og setja lög og þeir nenna því ekki. Þeir vilja heldur að ráðherrarnir og embættismenn ráðuneytanna sjái um þá vinnu, þannig að þeir geti dundað sér við það sem þeim þykir skemmtilegast – að deila um keisarans skegg og láta sig dreyma um að verða einhvern tímann ráðherra, því ætla mætti að æðsti draumur sérhvers stjórnmálamanns sé að verða „ÉG“.
Á meðan þetta fyrirkomulag varir, er hætt við að við sitjum uppi með ráðherra sem hugsa og haga sér eins og þeir séu Ríkið.
Bestu kveðjur úr óbærilegum léttleika tilverunnar.