Orðið á götunni er að allsérstakt sé að fylgjast með látunum í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, vegna kísilmálmverksmiðjunnar CCP Bakka við Húsavík. Hann fer mikinn og hamast á ríkisstjórninni fyrir að hafa ekki komið vonlausum rekstri verksmiðjunnar til bjargar.
Orðið á götunni er að það komi svo sem ekkert sem komi á óvart við það að Sigmundur Davíð taki upp merki PCC Bakka. Hann er þingmaður kjördæmisins og er núna að reyna að vinna sig inn í hug og hjörtu kjósenda sinna með því að heimta skattpeninga til að bjarga vonlausum rekstri.
Orðið á götunni er að kísilmálmverksmiðjan hafi verið vonlaust verkefni frá upphafi. Það komst einungis á koppinn vegna þess að Steingrímur J. Sigfússon, sem þá var þingmaður Norðausturkjördæmis, var í þeirri valdastöðu í ríkisstjórn að geta tryggt óhóflega ríkisstyrki og framkvæmdir til að fá þessa verksmiðju til Húsavíkur.
Kísilmálmframleiðsla er einhver skítugasta stóriðja sem fyrirfinnst og má t.d. nefna að fyrir fulla starfsemi verksmiðjunnar á Bakka þarf að flytja inn og brenna 66 þúsund tonn af kolum á hverju ári. Orðið á götunni er að það sé kaldhæðnislegt að maðurinn sem notaði skattfé í óhóflegum mæli til að fá slíkan mengunarvald til Húsavíkur skuli hafa verið formaður flokks sem kennir sig við græna náttúru. Kjósendur hafa raunar síðan séð í gegnum blekkingarleik Vinstri grænna og höfnuðu flokknum með afgerandi og eftirminnilegum hætti í kosningunum í nóvember síðastliðnum.
Orðið á götunni er að það sé líka kaldhæðnislegt að formaður Miðflokksins sem sér ofsjónum yfir öllum ríkisútgjöldum sem ekki renna til bænda og milliliða skuli nú fara fremstur í flokki þeirra sem heimta ríkisaðstoð við mengandi iðnað sem hefur engan rekstrargrundvöll án ríkisstyrkja.
Orðið á götunni er að ríkisstjórninni beri alls engin skylda til að dæla peningum skattgreiðenda í gæluverkefni sem tækifærissinnaður stjórnmálamaður eyddi stórum fjárhæðum úr ríkissjóði í til að kaupa sér atkvæði kjósenda fyrir einhverjum árum. Raunar má færa rök fyrir því að það hefði verið ámælisvert ef ríkisstjórnin hefði farið í að kasta fjármunum í þessa hít.
Orðið á götunni er að sá málflutningur Sigmundar Davíðs að mögulegir tollar ESB á kísilmálm frá Íslandi og Noregi séu helsta ástæða rekstrarvanda PCC Bakka falli flatur. Það var aldrei sjálfstæður grundvöllur undir þessum rekstri og aldeilis ekki ef kolefnissporið er skoðað. Þá eru aðdróttanir hans um að „aðgerðaleysi“ ríkisstjórnarinnar vegna PCC Bakka séu til marks um „að verið sé að nálgast Evrópusambandið út frá undirgefni.“
Orðið á götunni er að það sé söguleg kaldhæðni að nú sé það hlutskipti Sigmundar Davíðs að feta í fótspor Steingríms J. Sigfússonar. Þegar allt kemur til alls býr greinilega í þeim einn og sami kjördæmapotarinn.