Guy Verhofstadt, formaður alþjóða Evrópuhreyfingarinnar og fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, flutti magnað ávarp á landsþingi Viðreisnar um helgina. Hann kom víða við og greindi meðal annars frá því að hann hefði tjáð samningamönnum Bretlands um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu að þeir ættu ekki að horfa svona mikið á Brexit og halda að í því fælist fullkomin breyting á högum Bretlands vegna þess að Bretland hefði í raun staðið utan ESB um áraraðir vegna þess að landið hefði ekki átt aðild að mörgum grundvallarstoðum ESB. Nefndi hann sem dæmi Schengen og evruna en sagði dæmin vera miklu fleiri.
Hann tók þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit sem kennslubókardæmi um það hvernig á ekki að standa að þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hann ákvörðun Davids Cameron, þáverandi forsætisráðherra, um að láta kjósa um aðild Bretlands að ESB vera stærstu mistökin á hans pólitíska ferli.
Í kosningabaráttunni hefðu Cameron og aðrir stuðningsmenn ESB aðildar lýst því yfir að þeir styddu áframhaldandi aðild að sambandinu en svo hefðu þeir farið að tína til hin og þessi atriði sem þeir væru ekki sáttir við varðandi aðildina og ESB: Við erum á móti evrunni og Schengen og við erum á móti hinu og þessu. Svo töpuðu þeir atkvæðagreiðslunni og skildu ekkert í því vegna þess að í byrjun kosningabaráttunnar var stuðningur við áframhaldandi aðild um 60 prósent.
Verhofstadt segir lærdóminn sem af þessu megi draga vera þann að ef farið sé í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB sé það grundvallaratriði að tala fyrir ESB sem heildstæðu verkefni sem gefi von til framtíðar en ekki reyna að velja og hafna mismunandi þáttum samstarfsins innan ESB eins og Bretar hafi reynt að gera í marga áratugi.
Evrópusambandið snýst um svo miklu meira en krónur og aura. Það er ekki matseðill sem hægt er að velja af og hafna. Það þarf að leggja áherslu á hugmyndina, á kúltúrinn sem stendur að baki og þann pólitíska veruleika sem stendur að baki ESB og raunar þá geopólitísku nauðsyn að Evrópa verði sterki í veröld morgundagsins.
Verhofstadt segir að við verðum að gera okkur grein fyrir því að heimurinn hafi ekki bara breyst heldur hafi hann gerbreyst frá því sem var fyrir tíu eða tuttugu árum. Heimsmyndin í dag sé hrottaleg. Ekki sé um að ræða friðsamlega samkeppni milli þjóðríkja heldur ríki hrottaleg samkeppni milli heimsvelda sem ekki láti sér nægja að stýra sínum heimshluta heldur vilji þau stjórna öllum heiminum og ekki bara pólitískt heldur líka efnahagslega, á sviði tækni og hernaðarlega. Raunar horfi þau líka út fyrir himinhvolfið í þessum efnum.
Hann nefndi Kína sem heimsveldi. Kína er ekki þjóð heldur eru hundruð þjóða innan Kína og yfir þeim trónir Kommúnistaflokkurinn. Í Indlandi eru um 200 þjóðir sem tala 20 tungumál og í landinu eru fern stór trúarbrögð ástunduð. Í dag er Indland stærsta lýðræðisríki í heimi. Verhofstadt sagði það vera áfellisdóm yfir vestrænum lýðræðisríkjum að Indland leggur nú lag sitt við alræðisríki á borð við Rússland og Kína.
Vestanhafs eru Bandaríkin heimsveldi sem nú lýtur forystu sem því miður væri ekki hægt að kalla frjálslynda og alls ekki frjálslynda og lýðræðissinnaða. Í Suður-Ameríku má búast við því að Brasilía sé vaxandi heimsveldi og í Arabaheiminum væru Tyrkland og Íran í lykilhlutverkum. Í öllum þessum löndum er einræði eða hætta á yfirvofandi einræði.
Verhofstadt segir litlu ríkin í Evrópu verða að íhuga stöðu sína við þessar aðstæður. Hann sagði öll Evrópuríki. líka Þýskaland, vera lítil í þeirri heimsskipan sem nú er. Hver er framtíð þessarar heimsálfu í svona heimi? spyr hann. Nú horfum við á baráttuna milli lýðræðis og einræðis á hverjum degi.
Hann segir að Evrópa verði að meta það hvort hægt sé að halda áfram undir óbreyttri regnhlífinni sem við höfum, með Bandaríkin sem vinaríki, raunar þurfi að setja gæsalappir utan um „vinaríki“ þegar að Bandaríkjunum kemur um þessar mundir.
Verhofstadt segir fullveldi verða mikilvægt í veröld morgundagsins en ekki síður verði öryggi mikilvægt. Ætli Evrópa að njóta öryggis verði hún að gera það með náinni samvinnu innan álfunnar. Við séum þegar farin að sjá merki um það að Evrópuþjóðir séu að bregðast við þessari breyttu heimsmynd.
Fyrir fimm árum hefði lítið þýtt fyrir hann að halda því fram á svona fundi að Svíþjóð og Finnland myndu ganga í NATO. Menn hefðu haldið að hann væri búinn að fá sér of mikið neðan í því. Innrás Rússa í Úkraínu hefði breytt öllu og bæði lönd hefðu flýtt sér í skjól varnarbandalags. Hann býst við því að lönd eins og Úkraína og Armenía muni á næstu árum ganga í ESB.
Hann segir að ef Evrópa vilji verja sín lýðræðislegu og frjálslyndu gildi verði Evrópa að verða heimsveldi hins góða. Nóg sé af heimsveldum hins slæma. Evrópa þurfi að verða heimsveldi frjálslynds lýðræðis sem eigi undir högg að sækja í heiminum í dag. Þess vegna þurfi Evrópa að byggja upp varnargetu til að geta varið sig gegn hinum heimsveldunum. Hann segir illt að sjá hvernig Bandaríki Trumps koma fram við Úkraínu, sem er raunverulegt lýðræðisríki, ólíkt Rússlandi sem hafi ekki verið lýðræðisríki í meira en 20 ár.
Hann segir Evrópu nú skorta varnargetu en hana þurfi að byggja upp. Upphaflega hafi NATO átt að vera bandalag tveggja turna; annars vegar Bandaríkjanna með allan sinn hernaðarmátt og hins vegar Evrópu sem hefði sjálfstæða hernaðar- og varnargetu. Þetta hefði hins vegar farið út af sporinu á sjötta áratug síðustu aldar. Hann kennir Frökkum um. Þeir hafi dregið lappirnar og haldið að ekki þyrfti varnarbúnað þegar Stalín væri horfinn af sviðinu. Kjarnorkuvopn yrðu nægar varnir.
Upp úr þessu hafi NATO þróast í varnarbandalag einstakra ríkja undir verndarvæng Bandaríkjanna. Nú þurfi þetta að breytast og Evrópa að stíga upp eins og hún er að gera.