Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur hætt við þáttöku sína á haustfundi SVEIT, Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, sem fara á fram 24. september.
Í gær skoraði Efling á ráðherrann að taka ekki þátt í að hvítþvo SVEIT með þátttöku sinni.
Jóhann Páll staðfestir í samtali við DV að hann hafi tilkynnt SVEIT um ákvörðun sína um miðjan dag í gær.
Áskorun Eflingar til ráðherra má lesa í frétt á vef Eflingar.
„Ég lýsi furðu minni á því að þú skulir kjósa að taka þátt í viðburði á vegum SVEIT sem augljóslega þjónar þeim tilgangi að hvítþvo samtökin og ljá þeim yfirbragð virðuleika. Það kemur mér á óvart að þú viljir láta nota þig og stöðu þína sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands á þennan hátt,“ sagði meðal annars í áskorun Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar.
Eins og kom fram í frétt DV í gær sagðist Einar Bárðarson framkvæmdastjóri SVEIT ekki hafa áhuga á að draga ráðherrann inn í deilur samtakanna við Eflingu og gerði hann ráð fyrir að ráðherrann drægi þátttöku sína á haustfundi SVEIT til baka. Einar sendi tilkynningu á fjölmiðla í gær þar sem hann sagðist hafa verið í sambandi við aðstoðarfólk ráðherra.
Sjá einnig: Sólveig Anna hæðist að svari Einars Bárðarsonar – „Gæti verið efni í spennandi sálfræðitrylli“