Sjálfstæðismenn dreymir um að komast til valda í Reykjavík eins og tíðkaðist oft á síðustu öld. Sá draumur virðist vera mjög fjarlægur en engu að síður virðast ýmsir vilja taka að sér að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum eftir átta mánuði. Flokkurinn á nú mikið safn af einnota leiðtogum í Reykjavík síðasta aldarþriðjunginn, allt frá því að Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra eftir níu ára valdaferil. Þessir einnota leiðtogar eru Markús Örn Antonsson, Árni Sigfússon, Björn Bjarnason, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Halldór Halldórsson, Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir sem sækist eftir endurkjöri sem leiðtogi. Hún vill ekki vera einnota eins og hinir.
Orðið á götunni er að það hafi ekki verið nein tilviljun þegar einn af þessum einnota leiðtogum, Halldór Halldórsson, steig nýlega fram og lagði til að flokkurinn veðjaði áfram á Hildi en losaði sig við alla aðra frambjóðendurna frá síðustu kosningum. Halldór benti á að borgarstjórnarflokkurinn væri ekki samstiga og hefði engan veginn náð að sanna sig þrátt fyrir vandræði meirihlutans eins og þegar fyrrverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, plottaði yfir sig með þeim afleiðingum að meirihlutinn féll og Einar lenti úti í skurði með sig og félaga sína úr Framsókn.
Jafnvel við þessar aðstæður tókst Sjálfstæðisflokknum ekki að komast til áhrifa því að aðrir töldu flokkinn ekki stjórntækan enda er hann þríklofinn. Halldór lýsti þeirri skoðun sinni að Hildur hafi vaxið og ætti að leiða listann áfram og fá að velja sér nýtt fólk í framboð. Djörf hugmynd. En hvað á flokkur að gera sem nær engri fótfestu í borginni þrátt fyrir nýja og nýja framboðslista? Hugsun Halldórs virðist vera sú að það sé allt að vinna til að auka fylgið en engu að tapa.
Hildur Björnsdóttir er einbeitt í því að vilja leiða flokkinn áfram í borginni. En leiðin er ekki greið og vafalaust nokkrar hindranir á vegi hennar. Hún vann ótvíræðan sigur í síðasta prófkjöri en missti samt tvo borgarfulltrúa frá því að Eyþór Arnalds leiddi listann. Flokkurinn í Reykjavík hefur verið klofinn í tvennt á undanförnum árum milli fylkinga Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þegar kosið hefur verið milli fylkinganna hefur Guðlaugur Þór ávallt borið sigur úr bítum. Hildur tilheyrir fylkingu Áslaugar Örnu sem hefur nú horfið af vettvangi stjórnmálanna – alla vega í bili. Óvíst er hvort brottför hennar breytir einhverju þegar kemur að vali á lista flokksins fyrir kosningarnar næsta vor.
Hins vegar er talið fullvíst að Hildur njóti stuðnings „flokkseigenda“ Sjálfstæðisflokksins, fyrrum formanns, sægreifa og þeirra fjölmiðla sem leggja flokknum lið. Ekki þarf að efast um að miðlar Sýnar muni leggja Hildi lið enda er eiginmaður hennar, Jón Skaftason, fyrrum formaður þar og einn eigenda. Þá er fulltrúi sægreifa komin í stjórn Sýnar, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, sem lætur vafalaust til sín taka. Ekkert bendir til annars en að Morgunblaðið muni styðja Hildi af þunga. Vert er þó að hafa í huga að stuðningur þessara miðla er engin trygging fyrir árangri eins og nýleg dæmi sýna. Þeir stóðu með Katrínu Jakobsdóttur í forsetakosningum fyrir rúmu ári, þeir börðust með fyrrverandi ríkisstjórnarflokkum fyrir alþingiskosningarnar þann 30. nóvember í fyrra og þeir börðust gegn myndun núverandi ríkisstjórnar og voru alltaf í tapliðinu.
Orðið á götunni er að stórir hópar innan Sjálfstæðisflokksins vilji algerlega hreinsa út hjá flokknum í borginni og tefla fram nýjum leiðtoga og nýju fólki með honum. Staldrað hefur verið við nokkur nöfn flokksmanna sem fallnir eru af stalli en eru vanir pólitísku starfi. Sigurður Kári Kristjánsson er 52 ára lögmaður sem kom ungur inn á Alþingi en féll út og hefur ekki fundið leið inn í forystuna aftur. Sama gildir um Illuga Gunnarsson, fyrrverandi þingmann og ráðherra um tíma. Hann hvarf af vettvangi stjórnmála eftir vandræðamál sem hann réði ekki við. Illugi er 58 ára. Þá er talið að ýmsir staldri við Birgi Ármannsson, fyrrverandi þingmann og forseta Alþingis. Hann er traustur og virðulegur og að vissu marki táknrænn fyrir það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill standa fyrir en gengur illa að láta raungerast, einkum í borgarmálunum. Birgir er 57 ára og fæst nú við lögmannstörf. Hann er þrautreyndur félagsmálamaður, allt frá unglingsárum.
Fleiri nöfn hafa svo sem verið nefnd enda er hér um talsvert tekjudæmi að ræða. Fyrir störf í borgarstjórn er nú farið að greiða vel, allt upp í ráðherralaun, jafnvel þó um sé að ræða fólk í valdalausum minnihluta eins og hefur verið hlutskipti Sjálfstæðisflokksins um árabil. Sem dæmi um það má nefna að samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar vegna tekna ársins 2024 var Hildur Björnsdóttir með 2,1 milljón í laun á mánuði og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi flokksins, með 2,3 milljónir á mánuði. Frá þeim tíma hafa laun hækkað. Fólk vill umfram allt verja slík laun sem slaga upp í starfskjör ráðherra.
Loks er að geta þess að harða kjarnann í kringum Guðlaug Þór Þórðarson dreymir um að fá hann til að taka slaginn og reyna við borgina. Orðið á götunni er að það sé hreint ekki eins góð hugmynd og ætla mætti þegar horft er til mikillar pólitískrar reynslu Guðlaugs. Hvers vegna ætti hann að taka slíka áhættu? Hvers vegna ættu kjósendur að veðja á hann? Vert er að hafa í huga að Guðlaugur Þór átti sæti í þeirri ríkisstjórn sem kjósendur höfnuðu gjörsamlega í lok nóvember á síðasta ári. Hann leiddi lista flokksins í Reykjavík norður sem fékk 17,4 prósent fylgi. Áslaug Arna leiddi listann í Reykjavík suður þar sem fylgi flokksins reyndist vera 17,6 prósent. Bæði áttu þau sæti í fráfarandi ríkisstjórn en náðu þó ekki meira fylgi fyrir flokkinn í Reykjavík. Kjósendur sem höfnuðu fyrri ríkisstjórn með afgerandi hætti verða ekki búnir að skipta um skoðun og jafna sig næsta vor. Það lítur því ekki vel út fyrir flokkinn að tefla fram föllnum ráðherrum úr þeirri ríkisstjórn þó að um hæfa og reynda stjórnmálamenn sé að ræða.
Guðlaugur Þór á 20 ára feril að baki á Alþingi og hefur verið ráðherra tæpan helming þess tíma. Hann sat áður í borgarstjórn og gegndi ýmsum trúnaðarstöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Guðlaugur Þór nálgast sextugt og væri að taka mikla pólitíska áhættu með því að sækjast eftir því að leiða lista flokksins í borginni næsta vor. Hann þyrfti að berjast um sætið við Hildi Björnsdóttur sem hefur stuðning „flokkseigenda“ og stórir hópar innan flokksins fyrirgefa honum ekki að hafa boðið sig fram gegn sitjandi formanni flokksins á sínum tíma þótt engum detti í hug að gera lítið úr hinu harðsnúna liði fylgjenda hans.
Svo stendur Sjálfstæðisflokkurinn frammi fyrir þeirri stóru spurningu hver ætti að vilja mynda meirihluta með honum í borginni næsta vor, jafnvel þótt hann næði þokkalegum árangri? Væntanlega nær Framsóknarflokkurinn engum borgarfulltrúa kjörnum en Miðflokkurinn gæti náð einhverju fylgi. Væntanlega er ekki öðrum hugsanlegum samstarfsaðilum til að dreifa.
Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór Þórðarson sé of reyndur og klókur til að tefla sér fram í slíkan slag. Aðrir flokksmenn hafa ekki bakland þannig að Hildur Björnsdóttir mun leiða listann að nýju. Hún mun reyna allt sem unnt er til að hrista út af listanum nokkra núverandi fulltrúa og tefla fram yngra fólki en sjálf er hún á góðum aldri, 39 ára.
Hlutskipti Hildar verður áfram að vera oddviti stjórnarandstöðunnar í borginni – valdalaus á ráðherralaunum.