Vextir eru einn stærsti kostnaðarliður hvers heimilis og þeirra fyrirtækja sem skulda. Stór hluti fyrirtækja á Íslandi, þar með talin flest stærstu fyrirtækin, m.a. öll stærri útgerðarfyrirtæki, hafa yfirgefið krónuhagkerfið og nota nú ýmist evru eða Bandaríkjadal. Það þýðir að þau fyrirtæki fjármagna sig í hinum erlendu myntum en ekki í íslenskum krónum.
Þetta skiptir mjög miklu máli vegna þess að krónuvextirnir eru u.þ.b. þrefalt hærri en vextirnir í evrum og kannski um tvöfalt hærri en vextir í Bandaríkjadal. Af þessum sökum er útgerðinni og flestum stærri fyrirtækjum á Íslandi slétt sama hvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gerir í vaxtamálum hverju sinni. Vaxtaákvarðanir hafa engin bein áhrif á rekstur þessara fyrirtækja. Þær hafa hins vegar óbein áhrif vegna þess að í hávaxtaumhverfi er óhjákvæmilegt að launakröfur séu meiri – til að fólk hafi efni á því að lifa.
Orðið á götunni er að peningastefnunefnd Seðlabankans sé komin í sjálfheldu, rétt eins og rolla í klettabelti. Þrátt fyrir að hagvöxtur hér á landi hafi um árabil verið nær enginn og neikvæður á síðasta ári segist peningastefnunefndin vera að berjast við þenslu og því þurfi að halda raunvaxtastiginu margföldu á við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Svo eru verðbólguvæntingar miklar og þá þarf nú heldur betur að herða á vaxtaokrinu, segir peningastefnunefndin.
Það er athyglisvert að á meðan Seðlabankinn telur 3,5 prósent raunvexti vera heldur í lægri kantinum í baráttunni við verðbólguna eru ríkin í kringum okkur með raunvexti sína á bilinu -0,7-1,2 prósent. Raunvextirnir eru innheimtir af skuldugum heimilum og fyrirtækjum en lagðir inn á reikninga hjá þeim sem eiga peninga. Þarna er því um gríðarlega eignatilfærslu að ræða og er sú eignatilfærsla aldeilis ekki í anda Hróa hattar sem stal af þeim ríku til að gefa þeim fátæku. Hér á Íslandi stelum við af hinum fátæku til að gefa hinum ríku. Allt í boði Seðlabankans og gráðugra viðskiptabanka sem fitna nú eins og púkinn á fjósbitanum sem aldrei fyrr.
Samtök iðnaðarins hafa bent á þann vítahring sem Seðlabankinn hefur sett íslenskt hagkerfi í. Verð húsnæðis hefur sögulega verið helsti verðbólguvaldur á Íslandi, eins og verðbólgan er hér mæld – en sú reikniaðferð er eins og svo margt annað hér á landi SÉRÍSLENSK. Háir vextir hækka byggingarkostnað og valda því hækkun húsnæðisverðs. Háir vextir Seðlabankans viðhalda því með beinum hætti háu og hækkandi húsnæðisverði hér á landi. Það eru því vextirnir sem drífa áfram verðbólguna.
Orðið á götunni er að verðbólguvæntingar stjórnist ekki síst af því að í hávaxtaumhverfi er vaxtakostnaður fyrirtækja hærri en ella, kostnaðarþáttur sem munar um, og því sjá fyrirtæki fram á að hækka verð til að geta staðið undir vaxtakostnaði. Ekki þarf annað en að sjá nýbyggðar tæknihallir sem allar stærri heildsölur á Íslandi hafa byggt á liðnum áru. Þessar hallir eru skuldsettar og þær þarf að borga. Sama má segja um allar matvöruverslanirnar sem hafa verið endurnýjaðar fyrir stóra fjármuni á skömmum tíma. Hagar og Festi rífa þá aura ekki bara upp úr vasanum heldur eru tekin lán fyrir þessu. Þau lán eru á íslenskum vöxtum og þau þarf að borga til baka. Það kemur fram í vöruverði. Svo má ekki gleyma því að eigendurnir vilja líka geta greitt sér arð út úr fyrirtækjunum. Allt fer þetta inn í vöruverð.
Og heimilin, sem eru að sligast undan húsnæðislánunum á okurvöxtum og hækkandi vöruverði, verða auðvitað líka að fá auknar tekjur til að standa undir öllu þessu balli. Það gerist í kjarasamningum. Auðvitað verður að sækja hærri laun til að borga alla vextina og allar hækkanir á mjólk, kjöti og fleiru.
Orðið á götunni er að af þessu megi sjá að það er Seðlabankinn sjálfur sem leggur línuna um hærri verðbólgu og „óábyrga“ kjarasamninga hér á landi. Tækin sem hann þykist vera að nota í sinni baráttu eru í raun eldsneyti á verðbólgubálið.
Orðið á götunni er að eina raunhæfa tillagan til að slá á vaxta- og verðbólgubálið, önnur en að ganga í ESB og taka upp evru til að komast í eðlileg vaxtakjör, hafi komið frá Vilhjálmi Birgissyni, sem stingur upp á því að verðtrygging lána verði bönnuð með öllu hér á landi. Þá myndi Seðlabankinn og bankarnir neyðast til að snarlækka vexti sína vegna þess að annars myndi stór hluti heimila og fyrirtækja stefna lóðbeint í greiðsluþrot.
Orðið á götunni er að við núverandi aðstæður liggi beint við að líkja athæfi Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, og félaga hans í peningastefnunefnd við það þegar Neró Rómarkeisari spilaði á fiðlu á meðan Róm brann.