Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar segist mikill áhugamaður um allt sem bandarískt er og elska það land af öllu hjarta, með kostum þess og göllum.
„Bandaríkin gáfu mér það sem mér var neitað um hér; nafnið mitt. Ég fékk Gnarr samþykkt sem ættarnafn þegar ég bjó í Texas. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Enda ber ég húðflúr því til heiðurs, af Texas fylki og með lone star stjörnunni yfir Houston, beint undir Jolly Roger sem var fyrsta flúrið mitt 1989 og varð kápan á bók minni Sjóræninginn,“
segir Jón í færslu sinni og birtir með mynd af flúrinu.
Segist Jón því alltaf áhugasamur um sendiherra Bandaríkjanna. Nýlega var Billy Long skipaður sendiherra hér á landi og segist Jón búinn að vera að lesa sér til um manninn.
„Billy Long er 69 ára og menntaður uppboðshaldari. Hann er hvítasunnumaður og virðist frekar íhaldssamur og með dæmigerðar skoðanir á þungunarrofi, vopnalögum og málefnum hinsegin fólks. En hann þykir samt almennt hress og jafnvel uppátækjasamur. Ég óska honum til hamingju og hlakka til að fá tækifæri til að hitta hann.“