The New York Post skýrir frá þessu og segir að stjórn Biden hafi reynt að halda þessum hljóðupptökum leyndum en nú hefur Axios birt þær.
Jacob Heinel Jensen, fréttamaður Berlingske í Bandaríkjunum, sagði í Berlingske að upptökurnar „skeki Bandaríkin“.
Upptökurnar eru frá yfirheyrslu yfir Biden í tengslum við rannsókn á ólögmætri vörslu skjala, sem varða þjóðaröryggismál, frá 2016-2017 en þá var hann varaforseti Barack Obama.
Í yfirheyrslunni haltrar Biden nánast í gegnum spurningarnar, gleymir smáatriðum og virðist ekki muna hvenær sonur hans lést.
Svo er að heyra að Biden telji að þetta hafi gerst á sama tíma og hann hætti á þingi en það var 2009 og sonur hans Beau lést 2015. Biden virðist telja að hann hafi fengið skjölin á sama tíma og Beau lést.
„Þetta gerðist . . . Í hvaða mánuði lést Beau? Þann 30. maí . . .“ segir Biden í upptökunni og þá grípur lögmaður hans inn í og minnir hann á að Beau hafi látist 2015.
„Lést hann 2015?“ spyr Biden sem var greinilega mjög illa áttaður.
Biden og hans fólk hefur margoft vísað fullyrðingum um slæmt andlegt og líkamlegt ástand hans á bug en nú er eitt og annað farið að koma fram í dagsljósið sem styður þær fullyrðingar.