fbpx
Miðvikudagur 07.maí 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Traust er undirstaða réttláts samfélags

Eyjan
Miðvikudaginn 7. maí 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við búum í samfélagi þar sem við höfum sameinast um að hjálpast að. Tryggja grunnþjónustu, innviði, byggðir, búsetuskilyrði – öryggi og velferð fyrir okkur öll. Í því skyni greiðum við skatta og gjöld og treystum stjórnvöldum til að ráðstafa þeim fjármunum af ábyrgð. Það er ekki sjálfgefið að svona samfélagsgerð gangi upp. Til þess þarf að ríkja traust og trúverðugleiki. Fólk þarf að finna að það fái eitthvað raunverulegt til baka fyrir það sem það leggur til. Því miður hefur það ekki verið reyndin. Ég hef skynjað það sterkt í samtölum mínum við fólk um allt land að fólk trúir því ekki að stjórnvöld standi við stóru orðin. Það er skiljanlegt miðað við brostin loforð síðustu áratuga – það er nefnilega munur á orðum og efndum.

Markaðsverð – ekki innri verðlagning

Veiðigjöld hafa verið í brennidepli að undanförnu. Atvinnuvegaráðherra Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, hefur nú lagt fram breytingar á gjaldstofni veiðigjalda sem miða að því að gjaldið endurspegli raunverulegt aflaverðmæti. Að þjóðin fái þannig réttlátt auðlindagjald við aðgang að miðunum. Veiðigjöld eru tekin af umframhagnaði og eru einnig frádráttarbært frá tekjuskatti.

Þannig er ætlað að styðjast við markaðsverð (íslenskt í botnfiski og norskt á uppsjávartegundum) í stað þess að styðjast við það verð sem fyrirtækin sjálf gefa upp til Fiskistofu vegna kaupa á afla af eigin útgerð inn í vinnslur. Með svokallaðri lóðréttri samþættingu veiða og vinnslu. Með frumvarpinu er ekki verið að kollsteypa fiskveiðistjórnunarkerfinu. Með frumvarpinu er ekki verið að banna umræddum fyrirtækjum að kaupa fisk inn í eigin vinnslu af eigin útgerð á undirverði. Réttlætið felst í því að fá greitt fyrir auðlindina út frá raunverulegu verði.

Afsláttur til lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Frumvarpið tekur tillit til minni og meðalstórra útgerða með ríflegu frítekjumarki. Þannig nemur frítekjumark 9% af fyrstu 9 milljónum í öllum tegundum nema þorski og ýsu – en þar er frítekjumarkið 40% afsláttur af fyrstu 50 milljónunum. Miðað við áætlanir ættu veiðigjöldin því að nema um 17 milljörðum króna 2026. Tíu stærstu fyrirtækin greiða 67% af öllum veiðigjöldum. 30 stærstu greiða 90%. Það er því ljóst að þau sem mest hafa greiða mest.

Árið 2023 var EBITA sjávarútvegsins 110 milljarðar. Eigið fé fyrirtækjanna nam 505 milljörðum. Markaðsvirði fiskveiðikvótans er metið á um 1.200 milljarða króna. Til samanburðar er innviðaskuld samfélagsins – m.a. í vegakerfinu, flutningskerfum raforku, hafnarmannvirkjum og fleira – metin á um 700 milljarða króna. Þannig skildi síðasta ríkisstjórn við. Óreiða og skuld. Auk þess sem ríkissjóður var rekinn með gríðarlegum halla. Eitthvað sem núverandi ríkisstjórn hyggst snúa við á næstu árum.

Þetta eru framkvæmdir eða öllu heldur skortur á þeim sem skipta öllu máli fyrir áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í dreifðum byggðum. Þegar vegir eru ófærir, rafmagn ótryggt eða fólk býr við lífsógn eða óöryggi, verður ekki unnt að hámarka verðmætasköpun. Það er hinn raunverulegi landsbyggðaskattur. Og auðlindagjöld – réttlát og sanngjörn – eru meðal annars algjört lykilatriði til að brúa þessa gjá.

Stolt útgerðar má birtast í sanngjörnu framlagi

Sjávarútvegurinn er ein af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Mörg útgerðarfyrirtæki eru rekin af kraftmiklu fólki sem vinnur af heilindum og hugsjón. Við eigum að vera stolt af þeim árangri sem íslenskur sjávarútvegur hefur náð í alþjóðlegum samanburði. Það er ekki verið að boða „norska leið“ – heldur að bæta íslensku leiðina. Þau fyrirtæki sem eru aflögufær eru beðin um að leggja sitt af mörkum. Fyrir samfélagið, fyrir innviðina – sem þau nota sjálf á hverjum einasta degi. Svo að þjóðin sjái ágóðann. Svo að við getum skapað traust og komið okkur upp úr skotgröfum í umræðu um sjávarútveginn. Ný ríkisstjórn er staðráðin í að láta verkin tala og byggja upp innviði og öryggi í landinu.

Rétt verð – rétt gjald

Loks vil ég skilja þig eftir með eina hugsun um gjöld og rétt verð:

Ef ég tek þá ákvörðun að selja barninu mínu fasteign og það á töluverðu undirverði miðað við markaðsverð íbúðarinnar. Þá get ég ekki þar með gert þá kröfu að stjórnvöld eigi að innheimta fasteignagjöld á þeim grunni. Fasteignagjöld miðast við markaðsverð – ekki sérverð innan fjölskyldu. Það sama hlýtur að gilda um veiðigjöldin. Rétt skal vera rétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
05.04.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks
EyjanFastir pennar
05.04.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
30.03.2025

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
29.03.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu