Annars staðar í heiminum er sjávarútvegur einhvers konar hobbí eða gengur út á byggðastefnu. Fjármunamyndunin í íslenskum sjávarútvegi er einstök á heimsvísu. Það þarf hins vegar að ávarpa þá tilfinningu meðal þjóðarinnar, að það eigi að vera meira til skiptanna af afrakstrinum úr sjávarútvegi. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Hægt er að hlusta á brot úr þættinum hér:
Eyjan - Dilja Mist - 2
„Víðast hvar annars staðar, alls staðar annars staðar í heimum, þá er þetta bara dútl. Sjávarútvegur er bara byggðastefna eða eitthvað hobbí á landsbyggðinni,“ segir Diljá Mist.
Ég held að fáir sem kynna sér sjávarútveginn gagnrýni kerfið sem slíkt, kerfið er gott …
„Ja, það er öllu blandað saman.“
Kerfið er gott.
„En hvað er kerfið? Kerfið er m.a. það að það séu til fjármunir, eins og verið hefur í íslenskum sjávarútvegi, til mikilla fjárfestinga, til þess að nýsköpun hafi þrifist o.s.frv., sem hefur auðvitað verið einstakt á heimsvísu.“
Já, já, en það eru nægir peningar í það jafnvel þótt veiðigjöldin séu tvöfölduð. Það sjáum við t.d. á fjárfestingum sjávarútvegsins, eða eigenda í sjávarútveginum, í óskyldum greinum.
„Þú getur auðvitað sagt þetta um eiginlega hvaða atvinnuveg sem er. Þú getur alltaf klipið meira og meira og fært fyrir því þau rök að það sé alltaf nóg til skiptanna að lokum en ætla bara að segja það aftur: Við megum ekki vanmeta þessa tilfinningu, sem er mjög ríkjandi í íslensku samfélagi, sem er að það eigi að vera meira til skiptanna, að fólk sjái ofsjónum yfir hagnaði og arðgreiðslum þó að það sé hægt að sýna fram á að þær séu sambærilegar við aðrar atvinnugreinar. Við þurfum að ávarpa þessa tilfinningu, við verðum að gera það.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.