Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir þingmaður Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað Vilhjálmi Árnasyni, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, gengur til með að boða til opins fundar um einkamálefni Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra. Fundurinn hófst klukkan 9 í morgun og er yfirstandandi.
Kolbrún skrifar á Facebook að henni ofbjóði þessi framkoma og telur þetta ekki vera stjórnarandstöðunni til framdráttar. Á bak við þetta mál sé fjölskylda sem liðið hefur nóg.
„Ég veit ekki hvað formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis gengur til með að boða til opins fundar um persónulegt málefni þingmanns og fyrrum ráðherra. Aldrei man ég eftir svo grófu dæmi um að stjórnarandstaða velti sér upp úr og nuddist í persónulegu máli félaga síns á Alþingi. Heldur stjórnarandstaðan virkilega að þetta verði henni til framdráttar? Mér er ofboðið og minni á að bak við þetta mál er fjölskylda sem liðið hefur nóg í þessu máli.“