Samkvæmt gildandi lögum ber þeim sem bera ábyrgð á sjóði eða stofnun að senda Ríkisendurskoðun ársreikning sjóðs eða stofnunar ásamt skýrslu um hvernig fé hefur verið ráðstafað. Er árlegur skilafrestur 30. júní.
Þann 1. júlí síðastliðinn höfðu aftur á móti aðeins 155 aðilar uppfyllt þessa skyldu, eða 23% þeirra sem voru á skrá á síðasta ári. Skilin á sama tíma árið 2023 voru um 22% og um 30% árið 2022. Bendir Ríkisendurskoðun að því sé ljóst að skil sjóða hafi farið versnandi.
„Ríkisendurskoðun lítur þetta mjög alvarlegum augum og ekki hvað síst í ljósi þess að í nýjasta áhættumati Ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka sem gefið var út í desember 2023, er sérstaklega fjallað um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og ófullnægjandi skil þeirra á ársreikningum síðustu ár,“ segir í frétt Ríkisendurskoðunar. Þar segir enn fremur:
„Athygli stjórnvalda hefur á undanförnum árum verið vakin á slælegum skilum og skorti Ríkisendurskoðunar á úrræðum vegna þessa. Þann 22. júní sl. voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá sem taka munu gildi 1. janúar 2025. Lögin fela í sér talsverðar breytingar og mun sýslumaður taka alfarið við málaflokknum, m.a. móttöku og yfirferð ársreikninga. Ríkisendurskoðun mun fyrir árslok birta útdrátt úr þeim ársreikningum sjálfseignarstofnana og sjóða fyrir rekstrarárið 2023 sem borist hafa sem og lista yfir þá sjóði sem eru í vanskilum.“