fbpx
Sunnudagur 08.september 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: 1150 ár

Eyjan
Sunnudaginn 18. ágúst 2024 16:30

HIC HAROLD REX INTERFECTUS EST segir hér á mynd af refilsaumaða klæðinu frá Bayeux, en það þýðir að hér sé Haraldur konungur Guðinason drepinn, en þetta var í orrustunni við Hastings þegar Vilhjálmur bastarður sigrar England.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir réttri viku gerði ég hér að umtalsefni fólkorrustu múhameðstrúarmanna og kristinna við borgina Tours árið 732. Þar stöðvuðu Mervíkingar sókn Serkja en hefðu hinir síðarnefndu haft betur er næsta víst að þeir hefðu haldið áfram norður á bóginn enda þjóðflokkar þar nyrðra lítt samhentir og mótspyrna því orðið lítil.

Nokkrum áratugum síðar hefst víkingaöld og úr norðri koma stríðsmenn og sæfarar sem enn eru annálaðir fyrir hreysti og vígfimi. Snemma á tíundu öld stofnsettu norrænir menn meira að segja jarlsdæmi við Signumynni, landssvæði sem enn er eftir þeim nefnt og kallað Normandí. Frægastur jarla þar var Vilhjálmur bastarður sem sigraði England 1066 en Normannar höfðu líka betur gegn herjum Serkja á Sikiley. Í einni frásögn segir að aðeins 136 norrænir víkingar hafi sigrað her 30 þúsund múhameðstrúarmanna sem hafi „trístrast eins og skýflókar sundrast í hvassviðri, eða fuglahópar dreifast fyrir hraðfleygum haukum“. Auðvitað er þetta í meira lagi ýkjukennt en hvað sem því líður þá voru hér á ferðinni óvenju harðgerir stríðsmenn og kannski ekki að undra að keisarinn í Miklagarði tæki sér norræna menn sem einkalífvörð, hina víðfrægu Væringja.

Afrakstur víkingaaldar

Víkingar voru afburðar skipasmiðir og sæfarar, og í reynd einu farmennirnir á fyrri hluta miðalda sem gátu siglt án þess að hafa landsýn. Okkar menning, okkar þjóðfélag, er afrakstur landafunda víkingatímans og sé tekið mið af aldalangri hefð eru í ár liðin 1150 ár frá upphafi landnáms og minnugt þessa efndi Alþingi til einhverra mestu hátíðar Íslandssögunnar á Þingvöllum í júlímánuði fyrir hálfri öld þegar 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar var fagnað. Réttri öld fyrr var 1000 ára afmælinu fagnað með fyrstu konungskomunni hingað til lands og fjölmennasta mannfagnaði hérlendis frá því á miðöldum. Samhliða fengu Íslendingar stjórnarskrá svo hún er 150 ára á þessu ári.

Minna fer fyrir áhuga á því að fagna áföngum í sögu þjóðarinnar á okkar dögum og hátíðahöld á sjálfan þjóðhátíðardaginn meira að segja orðinn næsta fábrotinn í samanburði við ýmsa aðra tyllidagaviðburði sem yfirvöld kosta gríðarlegum fjármunum til. Í þætti Stöðvar 2 fáeinum dögum fyrir kosningar nú í vor kom í ljós að forsetaefnin þekktu vart til persóna Íslendingasagna eða höfuðviðburða í sögu þjóðarinnar. Og kannski ekki að undra í ljósi þess að lítið fer fyrir kennslu í Íslandssögu í grunnskólum og stór hluti brautskráðra stúdenta lærir enga sögu í framhaldsskóla, hvorki sögu Norðurlanda né annarra heimshluta. Þessu þarf að gefa gaum í umræðum um bága stöðu skólakerfisins og leita leiða til úrbóta.

Ultima Thule

Mér hafði orðið hugsað til víkingatímans þegar ég var staddur í Tours fyrr í sumar og las meðal annars um hinn nafntogaða víking Hástein, sem víða er getið í frankneskum annálum. Hálfum mánuði síðar var ég kominn til Dyflinnar, borgar sem einnig er afrakstur víkingaaldar, og dvaldi lengi dags á forngripasafni Íra. Þar eru orrustunni við Cluain Tarbh (e. Clontarf) gerð rækileg skil enda fer miklum sögum af henni í írskum annálum, en bardaginn er oft nefndur síðasta fólkorrusta víkingaaldar. Þar áttust við herir Íra undir forystu Brjáns konungs og norrænna manna þar sem Sigurður Hlöðvisson Orkneyjajarl og Sigtryggur Ólafsson silkiskegg, konungur í Dyflinni, fóru fremstir. Í því liði voru meðal annarra Íslendingar. Sagnir af bardaganum lifðu hér norður frá og í sýningartextum á forngripasafni Íra er hvort tveggja vitnað til Njálu og Orkneyingasögu.

Þrátt fyrir að fáir Írar tali gelísku að staðaldri er henni haldið hátt á lofti og gaman rýna í skilti og hvers kyns áletranir írskar. Ísland kalla þeir Íoslainn en Jesú heitir Íosa á þeirra máli en í fornri írsku var nafn Jesú Ís(s)u sem hefur vakið upp spurningar um hvort írskir munkar hafi gefið Íslandi nafn og sagan af Flóka Vilgerðarsyni sé tilbúningur, eftiráskýring. Ísland sé ekki snæland heldur land Jesú. Það er sannarlega áhugavert í ljósi umræðunnar í liðinni viku um krosstáknið og kirkjugarðana.

Frændur Íra í Wales kalla Ísland Gwlad yr Iâ sem mun þýða „ís eyja“ en á skoskri gelísku heitir Ísland Innis Tìle. Þessar þrjár keltnesku þjóðir hafa því hver sitt heiti á eyjunni í norðri. Tìle er vitaskuld Thule sem Pýþeas frá Massalíu átti að hafa komið til til á fjórðu öld fyrir Kristburð, en þangað átti að vera sex sólarhringa sigling norður af Bretlandseyjum. Enginn veit hvar Thule var en langt fram eftir öldum var það óskilgreint fyrirbrigði á endimörkum veraldar.

Írski munkurinn Dicilus segir frá því í riti sömdu 825 að þremur áratugum fyrr hafi hann rætt við írska munka sem dvalist höfðu á Thule. Lýsing Dicilusar þykir svo greinargóð að vart þurfi að efast um að þar sé átt við Ísland. Enski sagnaritarinn Beda sem lést 735 getur þess líka að írskir munkar hafi siglt til Thule. Íslendingar þekkja síðan vel frásögn Ara fróða af því að hér hafi verið kristnir menn írskir þegar landnámsmenn komu. Ari vildi hafa það sem sannara reyndist en í hinn ensku kirkjusögu Beda segir hann sannleikann æðsta boðorð sagnaritunar (l. vera lex historae veritas). Það breytir því ekki að sagan er umskrifuð af hverri kynslóð sem sér hana í nýju ljósi. Slíkt er höfuðeinkenni á lifandi menningararfi, en til að svo megi verða þarf að uppfræða nýjar kynslóðir um söguna, vekja áhuga á henni, tungunni og bókmenntaarfinum.

Að skilja sjálfan sig

Öllum rituðum heimildum ber saman um að fyrstur landnámsmanna hafi verið Ingólfur sem ýmist er sagður Arnarson eða Björnólfsson. Ari segir hann hafa numið hér land 870 og miðar þar við dráp Játmundar helga Englandskonungs. Í Landnámabók kemur aftur á móti fram ártalið 874 sem virðist vera útreikningur síðari tíma manna og jafnan verið miðað við það ártal sem upphafsár Íslandsbyggðar. En þrátt fyrir að engin leið sé að segja með fullri vissu hvaða ár landnám norrænna manna hófst hér á landi er mikilvægt að minnast upphafs byggðar hér sem var heimssögulegur viðburður, ef til vill einhverjar fyrstu skipulögðu úthafssiglingar sem um getur. Að ekki sé minnst á hið sérstæða samfélag sem hér varð til með menningu og stjórnkerfi sem vart á sér hliðstæðu. Að gaumgæfa þetta allt er að skilja okkur sjálf, hver við erum og hvaðan við komum. Sjálfsskilningur er nauðsynlegur vegvísir til framtíðar. Að glutra niður menningu sinni og þar með minni sínu og frumleika er ekkert annað en dauðadómur þjóðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 klukkutíma
Björn Jón skrifar: 1150 ár

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það má jafnt virða söguna og læra af henni

Sigmundur Ernir skrifar: Það má jafnt virða söguna og læra af henni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjartað mitt

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjartað mitt
EyjanFastir pennar
04.08.2024

Björn Jón skrifar: Af setningarhátíðum og guðlasti

Björn Jón skrifar: Af setningarhátíðum og guðlasti
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið
EyjanFastir pennar
28.07.2024

Björn Jón skrifar: Trénað Alþingi

Björn Jón skrifar: Trénað Alþingi
EyjanFastir pennar
27.07.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði