Eftir því sem baráttan verður erfiðari hjá Trump eru heimildarmenn farnir að leka trúnaðarupplýsingum úr einkasamtölum sem Trump hefur átt um kosningabaráttu sína. Segja þeir að Trump sé brjálaður yfir að Kamala Harris hafi á síðustu dögum stolið sífellt meira af sviðsljósinu frá honum en á sama tíma virðist vera kyrrstaða hjá framboði hans um að ná hylli kjósenda.
Washington Post skýrir frá þessu og byggir á upplýsingum frá fimm ónafngreindum heimildarmönnum sem standa nærri kosningastjórn Trump.
Kamala Harris hefur verið miklu meira áberandi en Trump í fréttum bandarískra fjölmiðla á síðustu vikum. Það ýtti mjög undir áhuga fjölmiðla og almennings á henni að hún valdi Tim Walz sem varaforsetaefni sitt.
Kevin Madden, sem er kosningasérfræðingur og Repúblikani, sem starfaði fyrir Mitt Romney þegar hann bauð sig fram til forseta 2012, að nú hafi staðan breyst og nú sé það Kamala Harris sem hafi byr í seglin en ekki Trump.
„Það sem hefur gerst á síðustu vikum, er að við erum í raun byrjuð að sjá alvöru kosningabaráttu. Nú verður þetta kosningabarátta þar sem taktík skiptir máli, þar sem peningar skipta máli, þar sem tíminn skiptir máli og það er ekkert pláss fyrir mistök,“ sagði hann.
Skoðanakönnum, sem var gerð fyrir New York Times um helgina, sýnir að Harris er nú með fjögurra prósentustiga forskot á Trump í sveifluríkjunum Pennsylvania, Michigan og Wisconsin en úrslitin í þessum þremur ríkjum geta ráðið úrslitum um hver verður næsti forseti Bandaríkjanna.
The Guardian segir að í innsta hring Trump óttist fólk að kosningabarátta hans sé ekki undir það búin að takast á við Harris í sveifluríkjunum.
Til að reyna að snúa þróuninni við, mætti Trump í viðtal hjá Elon Musk á X aðfaranótt þriðjudags að íslenskum tíma. En viðtalið gekk ekki sem skyldi. Vegna tæknivandamála varð að seinka því í hálfa klukkustund því margir gátu ekki fylgst með því.
Í viðtalinu sagði Trump Harris vera „óhæfa“ og „vinstrisinnaðan brjálæðing“. Ummæli sem þessi, sýna að Trump er að reyna að snúa kosningabaráttunni og fá hana til að snúast um Harris.