fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Eyjan
Laugardaginn 6. júlí 2024 21:30

Eiffelturninn í París. Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andúð, hótanir og ofbeldi í garð fólks af erlendum uppruna eru sögð vera á uppleið í Frakklandi nú þegar hægri-popúlista flokkurinn Rassemblement National og bandamenn hans eru á barmi þess að verða stærsti flokkurinn á þingi en seinni umferð þingkosninga fer fram í landinu á morgun. Spennan er mikil og raunverulegur ótti er til staðar að til ofbeldisverka og átaka komi sama hver úrslitin verða, ekki síst á milli eindregnustu stuðningsmanna Rassemblement National og hörðustu stuðningsmanna fylkingar vinstri flokkanna.

Kosningabaráttan hefur verið ofbeldisfull og til víðtækra mótmæla hefur komið sem hafa ekki síst beinst að Rassemblement National og uppgangi flokksins.

France24 greinir frá því að alls hafi 51 frambjóðandi og aðstoðarfólk frambjóðenda orðið fyrir árásum þar sem líkamlegu ofbeldi hefur verið beitt. Alls hafa 30 manns sem sagðir eru ýmist öfgavinstri menn eða öfgahægri menn verið handteknir.

Í umfjöllun sama fjölmiðilis kemur fram að síðustu þrjár vikur séu einnig fjölmörg dæmi um ofbeldisverk og hótanir gagnvart almennum borgurum af erlendum uppruna, einkum afrískum. Eru ofbeldismennirnir margir hverjir sagðir hafa lýst yfir stuðningi við Rassemblement National.

Nefnd eru nokkur dæmi um slíkar árásir. Til að mynda var úðað orðum sem fólu í sér rasisma og hatur gegn samkynhneigðum á veggi bakarís í Avignon og því næst var kveikt í því, af þeirri ástæðu einni að þar hafði maður frá Fílabeinsströndinni verðið ráðinn í vinnu. Eigandi verslunar fékk bréf þar sem viðkomandi var varaður við og sagt að koma sér til Afríku áður en hverfið sem búðin er í yrði hreinsað af fólki af erlendum uppruna án miskunnar. Strætóbílstjóri í París varð fyrir árás manns sem hrópaði að honum niðrandi orðum á grundvelli þess að bílstjórinn er af arabískum uppruna. Árásarmaðurinn sagði strætóbilstjóranum að hann væri orðinn þreyttur á fólki eins og honum. Sagðist maðurinn ætla að kjósa Rassemblement National og myrða hann.

Skilur ekki skilaboðin

Fréttamaðurinn Karim Rissouli sem starfar fyrir franska ríkisútvarpið fékk hótunarbréf þar sem honum var tjáð að hann hefði ekki skilið þau skilaboð sem fólust í því að Rassemblement National fékk flest atkvæði í Evrópuþingskosningunum í Frakklandi, sem varð til þess að Emmanuel Macron forseti Frakklands rauf þing og boðaði til kosninga.

Í bréfinu segir að skilaboðin með góðu gengi Rassemblement National séu þau að innfæddir Frakkar séu búnir að fá nóg af fólki í landinu, eins og Rissouli, sem á uppruna sinn að rekja til Norður-Afríku. Innfæddir Frakkar muni aldrei samþykkja fólk af þessum uppruna.

Samtökin SOS Racisme sem fylgjast með og berjast gegn rasisma segja að með hinum mikla uppgangi Rassemblement National og annarra afla sem eru lengst til hægri hafi orðið sprenging í fjölda rasískra árása í Frakklandi. Fólk sem aðhyllist slíkar skoðanir telji að komist Rassemblement National til valda muni það í raun öðlast leyfi til að standa fyrir slíkum ofbeldisverkum.

Minni líkur á meirihluta

Forsætisráðherraefni Rassemblement National, Jordan Bardella, hefur lagt áherslu á að þjóðin haldi ró sinni og sagt eins og aðrir stjórnmálaleiðtogar að ofbeldi megi ekki öðlast sess í frönskum stjórnmálum. Hann hefur hins vegar sakað andstæðinga flokksins um ólýðræðislega hegðun.

Bandalag miðjuflokka og bandalag vinstriflokka hafa sameinast um að draga framboð þeirra frambjóðenda sinna flokka til baka í þeim kjördæmum þar sem viðkomandi varð í þriðja sæti en komst í aðra umferð. Þetta er gert til að minnka dreifingu atkvæða þeirra á milli og minnka líkurnar á því að frambjóðendur Rassemblement National og bandamanna flokksins sigri í viðkomandi kjördæmi, en eins og Bretlandi er Frakklandi skipt í einmenningskjördæmi.

Nýjustu kannanir benda til að þetta hafi borið þann árangur að líkurnar á því að fylking Rassemblement National fái meirihluta á þingi hafi minnkað þó að eftir sem áður sé líklegt að flokkurinn og fylking hans verði stærst á þingi.

Jordan Bardella segist ekki vilja mynda ríkisstjórn nema að Rassemblement National fái meirihluta.

Verði niðurstaðan í samræmi við nýjustu kannanir virðist þá blasa við að myndi þá bandalag miðjuflokka og bandalag vinstri flokka ekki ríkisstjórn bíði Frakka ekkert annað en stjórnarkreppa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“