fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Það er hægt að breyta um pólitískan kúrs

Eyjan
Laugardaginn 15. júní 2024 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sögulegustu umskiptin í íslenskri pólitík eru þau þegar Reykjavíkurlistinn komst til valda fyrir réttum þrjátíu árum. Þá var íhaldinu veitt náðarhöggið í borginni, eitthvað sem forhertustu og innmúruðustu afturhaldsseggir höfuðstaðarins töldu að væri með öllu óhugsandi um aldur og ævi.

Auðvitað hafði lestin runnið út af sporinu fáeinum árum áður, en þá mistókst þáverandi krónprins flokksins í Reykjavík að fylgja eftir ævilangri áskrift hægrimanna að völdunum við Sundin blá. En það var þeirra tíma klaufaskapur, að sögn. Og slíkt og hið sama og gerðist í kosningunum 1978 átti aldrei að geta gerst á ný, svo vissir voru valdsins menn í sinni sök.

Og höfðu rétt fyrir sér. Um alllangt skeið.

Davíð Oddsson reif upp fylgi sjálfstæðismanna í kosningunum 1982 sem nýr og heillandi oddviti flokksins sem þótti um margt óvenjulegur stjórnmálamaður og binda pólitíska bagga sína öðrum hnútum en áður hafði þekkst. Davíð virkaði. Og kannski best í háði sínu um sundraða vinstrið sem vissi ekki hvort það var að koma eða fara í Ráðhúsi Reykjavíkur, svo ekki sé fastar að orði komist.

Og allt færðist í samt lag.

„Saga Reykjavíkurlistans er sönnun þess að pólitík getur verið verkfæri til velmegunar og víðsýni.“

Næsti áratugur var sem enduruppfærsla á leikverkinu um Bubba kóng. Sá hinn sami átti sviðið og endaði sína plikt á slíku yfirburðafylgi í kosningunum 1990 að borgin virtist endanlega óhaggandi. Sextíu prósenta íhaldsfylgið það árið var jafnvel meira en nokkru sinni hafði þekkst við Tjörnina.

En það er engum flokki hollt að vera maður einn. Það sannaðist á Sjálfstæðisflokknum á árunum sem fóru í hönd. Það var enginn arftaki nógu öflugur til að feta í fótspor Davíðs í borginni. Og svo er raunar enn. Formannsraunir flokksins í meira en þrjá áratugi eru á við annað leikrit, Beðið eftir Godot, en líklega full til leiðinlegt og langdregið fyrir hægrimenn í höfuðstaðnum. Hjaðningavígin hafa orðið illvígari fyrir vikið, misklíðin öll og undirferlin langtum alvarlegri, svo og sundurlyndið út í eitt.

Borgarbúum hefur einfaldlega sýnst æ síðan sem flokkurinn sé ekki á sviðið setjandi.

Reykjavíkurlistinn breytti öllu. Ekki bara fyrir flokkinn sem missti völdin, jafn sárt og það hefur verið honum svo langa lengi. Heldur fyrst og síðast fyrir borgarbúana sjálfa. Sjálfstæðisflokkurinn hafði öðru fremur setið að völdum svo að aðrir gætu engu breytt í borgarkerfinu. Þannig virkar íhaldið. Og valdstjórnin var alltaf vilhöll sínum. Það var pólitíkin. Sérhlífin í sérhygli sinni. Og það er arfleifðin.

Og í stað fyrirgreiðslupólitíkur flokksklíkunnar varð til þjónustustarfsemi þvert á flokksskírteini. En það hafði ekki þekkst fram að því. Hvað þá að leikskólar þættu mikilvægari en malbik. Og græn svæði merkilegri en monthús. En það var einmitt byrjað að hlusta á raddir almennings, raddir fjöldans.

Saga Reykjavíkurlistans er sönnun þess að pólitík getur verið verkfæri til velmegunar og víðsýni. Hún minnir okkur á hvað stjórnmálamenn eiga raunverulega að gera, en það er að þjóna, í stað þess að láta þjóna sér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
27.03.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna
EyjanFastir pennar
26.03.2025

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?