fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Uppsöfnuð hræðsla við skoðanaskipti

Eyjan
Laugardaginn 1. júní 2024 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var alvanalegur siður á kaffistofum landsmanna á árum áður að tala með hrútshornum um annað fólk, einkum og sér í lagi ef það heyrði ekki sjálft til. Og líkast til hefur það fylgt fámenninu í hverju plássi, hringinn í kringum landið, að níða skóinn af næsta manni.

Sú er breytingin að kaffistofan hefur færst inn á samfélagsmiðla. Byltingin er aftur á móti sú að hvoru tveggja illmælgin og rógurinn er nú orðið opinbert – og stendur undir nafni um ókomna tíð sem eilífur vitnisburður um viðhorf manna til þeirra sem málið varðar. Og eftirlifendum og ættingjum mun verða í lófa lagið að sjá hvaða skammir áar þeirrar höfðu í flimtingum um nafngreint fólk.

Það mun verða langur listi.

Þessa hefur ríkulega séð stað í kosningabaráttunni sem nú er á enda. Forsetaframbjóðendur hafa fengið það óþvegið í meira mæli í opinberum miðlum en áður hefur þekkst, og þá ekki síður margir þjóðkunnir Íslendingar sem hafa leyft sér að lýsa yfir stuðningi við einhvern af þeim sem eru í kjöri.

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens er einn þeirra sem hefur haft orð á þessu, en hann kveðst hafa fengið yfir sig skæðadrífu af skömmum, hótunum og ógnunum fyrir það eitt að styðja Katrínu Jakobsdóttur til embættis forseta Íslands. Það hljóti jafnvel að liggja annarlegar hvatir að baki því, í besta falli sé hann að reyna að verða sér úti um frekari listamannslaun.

Undan þessu hrauni hefur Bubbi stigið upp og beðið fólk um að stilla sig.

„… helsti samskiptavandi núlifenda er að þeir hlusta ekki lengur til að skilja, heldur hlusta þeir til þess eins að bregðast við.“

Gott og vel. Það er engin nýlunda að forsetaframbjóðendur fái skammir í hattinn fyrir litlar eða jafnvel engar sakir. Og persónur sem eiga að heita opinberar vegna starfa sinna, frama og frægðar hafa líka þurft að láta sér það líka að talað sé um það og skrifað með alla vega hætti. Það er þar að auki beinlínis eðlilegt að framámenn í samfélaginu sæti umtali og aðhaldi.

Í þessu efni minnast þeir sem komnir eru aðeins á efri árin að kosningabaráttan á milli Gunnars Thoroddsen og Kristjáns Eldjárns um vorið og sumarið 1968 var einstaklega hatrömm og orðljót á köflum. Báðir tveir fengu þeir slíka ofanígjöf, einkum í tali manna í millum, að annað eins hafði varla eða ekki heyrst. Og þess eru dæmi að vinslit hafa orðið á meðal nágranna í einni og sömu götunni.

En þau orð eru flest hver týnd og tröllum gefin. Þau urðu aldrei opinber, og þaðan af síður heyrinkunn allri þjóðinni. Og þar er komin kollvörpunin.

Því nú ber nýrra við. Allur vaðallinn er nú birtur jafn óðum og hann verður til í höfði manna, og sýnir að samskipti fólks hafa tekið stakkaskiptum. Sá ágæti ameríski fræðari og rithöfundur Stephen R. Covey hefur orðað þetta svo að helsti samskiptavandi núlifenda er að þeir hlusta ekki lengur til að skilja, heldur hlusta þeir til þess eins að bregðast við.

Og þar erum við komin að afleiðingum þessa nýja tjáningamáta. Þær felast í fælni við að láta ljós sitt skína. Óttinn við að álit manns og skoðun verði skotin niður verður svo mikill að allt eins er betra að birta ekkert af því sem þann sama langar að leggja til málanna. Skoðanaskipti munu líða fyrir þetta að miklum mun, ekki síður en lýðræðislegur kraftur umræðunnar. Og hræðslan tekur völdin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Tvö skref til hægri og vinstri snú – list hins ómögulega

Svarthöfði skrifar: Tvö skref til hægri og vinstri snú – list hins ómögulega
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Tapað – fundið … í naflanum

Svarthöfði skrifar: Tapað – fundið … í naflanum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Endurvekja þarf samræmd próf

Björn Jón skrifar: Endurvekja þarf samræmd próf
EyjanFastir pennar
18.05.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að
EyjanFastir pennar
18.05.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Tölvulæknar

Óttar Guðmundsson skrifar: Tölvulæknar
EyjanFastir pennar
09.05.2024

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar
EyjanFastir pennar
09.05.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð