fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Endurvekja þarf samræmd próf

Eyjan
Sunnudaginn 26. maí 2024 16:35

Galíuleuvatn varð á svipstundu sem ólgandi haf í ógurlegu hvassviðri eins og lesa má í um fjórða kapítula Markúsarguðspjalls. Hér í túlkun Rembrandts frá árinu 1633. Myndin heitir á frummálinu „Christus in de storm op het meer van Galilea“ og var lengi varðveitt á Isabella Stewart Gardner Museum í Boston. Henni var stolið ásamt fleiri dýrmætum listaverkum árið 1990 og hefur ekki fundist síðan.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir réttri viku fjallaði ég hér á þessum vettvangi um mikilvægi norræns málsamfélags sem við gætum ekki orðið fullir þátttakendur í nema læra dönsku eða eitthvert hinna skandinavísku málanna. Mig langar að þakka þeim sem höfðu samband við mig í kjölfarið og bentu mér á eitt og annað forvitnilegt í þessu tilliti. Þrautreyndur maður úr heimi fjölmiðlanna sagði mér frá því að hér áður fyrr hefðu aðalfréttastofur íslenskra fjölmiðla um erlend málefni verið NTB (Norsk Telegrambyrå) og danska fréttastofan Ritzau. Fyrir vikið birtust daglega í íslenskum miðlum fréttir af hinum Norðurlöndunum í bland við aðrar erlendar fréttir. Bréfritari orðaði það svo að skammsýnir menn hefðu síðar breytt þessu, lokað fyrir norrænu fréttaveiturnar og skipt yfir í Associated Press. Fyrir vikið fá Íslendingar nákvæmar fregnir af því hversu margir voru vegnir í Súdan næstliðna nótt en heyra sáralítið af málum meðal þeirra þjóða sem þeim eru þó skyldastar.

Mér var sömuleiðis bent á afar náin tengsl íslenskra stjórnmálaforingja við norræna starfsbræður á árum áður. Frá þeim hefðu þeir þegið alls kyns þekkingu og aðstoð. Sér í lagi hafi þetta átt við um Alþýðuflokkinn, alla vega fram á áttunda áratuginn. Þá var mér bent á að það sé nýtilkominn ósiður að alþingismenn tali ensku í norrænu samstarfi, slíkt hefði ekki hvarflað að mönnum fyrir fáeinum áratugum.

Tungumálagarpar

Fyrir næstsíðustu jól komu út endurminningar Júlíusar Sólnes, fyrrv. verkfræðiprófessors og ráðherra. Hann brautskráðist frá Tækniháskólanum í Kaupmannahafn árið 1961 og lýsir í bókinni hversu feiknavel íslenskir stúdentar voru búnir undir háskólanám erlendis á þeim tíma. Dönskukunnáttu Íslendinga hefði verið viðbrugðið og gjarnan hefðu íslenskir menntamenn sýnt af sér meiri færni í danskri réttritun en Danir sjálfir.

Þar sem ég var á skíðum í Sviss fyrir fáeinum misserum var svissneskur öldungur einhverju sinni samferða okkur upp með kláfnum. Hann heyrði á máli okkar hvaðan við vorum en hann hafði á áttunda áratugnum átt íslenska kærustu og kynnst mörgum íslenskum vinum hennar sem voru við nám víðs vegar á meginlandinu. Þeim gamla varð að orði að honum hefði helst þótt einkenna Íslendingana hvað þeir voru miklir tungumálagarpar.

Einhvern veginn kannaðist ég ekki við þessa lýsingu á íslenskum menntamönnum en Júlíus Sólnes rekur í bók sinni hversu vel hann og samstúdentar hans frá Menntaskólanum á Akureyri voru búnir undir lestur fræðirita á ensku, þýsku og frönsku, að ekki sé minnst á Norðurlandamálin.

Rétt að varast einfeldningslega framfaratrú

Við lifum á tímum fjarska einfeldningslegrar framfaratrúar þar sem vangaveltur á borð við þær sem hér eru reifaðar eru gjarnan afgreiddar sem svartagallsraus og fortíðardýrkun. Mannkynssagan hefur þó að geyma óteljandi dæmi samfélagslegrar hnignunar og hér á landi eru uppi merki um alvarlega menntahnignun sem sást best í niðurstöðum nýjustu PISA-könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Þar er mæld þekking 15 ára námsmanna í stærðfræði, náttúruvísindum og lestri, en svo sem kunnugt er mælist þekking íslenskra námsmanna svo að segja hin lakasta í gervallri álfunni. Í þessu efni, líkt og á svo mörgum sviðum öðrum, hafa Íslendingar orðið viðskila við aðrar Norðurlandaþjóðir.

Niðurstöðurnar vöktu athygli í fáeina daga en ekkert hefur borið á raunhæfum tillögum stjórnmálanna til lausnar á vandanum sem rétt er að kalla neyðarástand. Á sama tíma mátti til að mynda lesa í þýskum og frönskum miðlum rækilega umfjöllun um leiðir til úrbóta — þó svo að hnignun þekkingar væri mun minni þar en hér.

Það vakti sér í lagi athygli mína að frönsk yfirvöld menntamála töldu rétt að fjölga samræmdum mælingum á þekkingu nemenda í grundvallarfögum, ekki eingöngu í grunnskólum, heldur einnig í framhaldsskólum, og að sama skapi yrði að fella nemendur milli bekkja stæðust þeir ekki námskröfur. Í skólamálum hefðu menn villst af leið og þyrftu að rétta kúrsinn.

Grein sem eldist vel

Þetta leiðir hugann að því að mest hefur afturför íslenskra námsmanna orðið frá árinu 2009 þegar stjórnvöld ákváðu að ekki yrði lengur stuðst við samræmd próf við inntöku í framhaldsskóla. Tveir ungir stúdentar, Björn Brynjúlfur Björnsson og Sindri Stephensen, rituðu þá grein sem birtist í Morgunblaðinu þar sem þeir bentu á að lokapróf hvers og eins grunnskóla yrðu ómarktæk sem mælikvarði á þekkingu. Fyrirkomulag af þessu tagi myndi óhjákvæmilega leiða af sér einkunnaverðbólgu í samkeppni skólanna um að veita sínum nemendum forskot til inngöngu í framhaldsskóla. Þeir gagnrýndu enn fremur að einstaklingsbundið mat kennara væri látið leysa af hólmi hlutlægan mælikvarða. Sér í lagi kæmi þetta niður á drengjum sem frekar sýndu af sér óstýriláta hegðun en stúlkur.

Sindri er nú dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Björn Brynjúlfur framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Þeir rituðu aðra grein sem birtist á Vísi í desember síðastliðnum sem þeir nefndu „Skakkaföllin í PISA“. Þar drógu þeir saman hvernig afleiðingar afnáms samræmdra prófa hefðu einmitt orðið þær sem þeir vöruðu við. Fjölmargar skýringar hefðu verið nefndar á hnignandi kunnáttu íslenskra grunnskólanema en engin þeirra væri sérkennandi fyrir Ísland. Afnám samræmdra prófa væri aftur á móti ein stærsta breyting sem gerð hefði verið á íslensku grunnskólakerfi þessa öldina. Frá þeim tíma hefði þekkingu nemenda hnignað stórum.

Niðurstaða þeirra Björns Brynjúlfs og Sindra var að taka yrði upp samræmd próf á nýjan leik sem yrðu grundvöllur fyrir inngöngu í framhaldsskóla. Að sama skapi yrði að birta niðurstöður prófanna á einstaka skóla. Að þeirra mati væri það „forsenda þess að endurreisa megi grunnskólastigið þannig að nemendur séu metnir að verðleikum, þeim tryggð jöfn tækifæri til náms og að raunverulegur námsárangur skipti máli á ný“.

Samræmd stúdentspróf

Ég tek heilshugar undir með þeim Sindra og nafna mínum. Þessi dægrin standa stjórnendur framhaldsskóla frammi fyrir inntöku nemenda þar sem enginn samræmdur mælikvarði liggur til grundvallar. Stærðfræðikennari við einn framhaldsskólanna í Reykjavík tjáði mér nýverið að ósjaldan fengi hann til sín nemendur sem hlotið hefðu ágætiseinkunn í stærðfræði úr sínum grunnskóla en kynnu samt ekki skil á þeim grundvallaratriðum sem til væri ætlast að þeir hefðu numið. Einkunnir væru að einhverju marki fals.

Í þessu sambandi má ekki gleymast að samræmd landspróf í kunnáttu í grundvallarfögum eru ekki bara nauðsynleg tæki fyrir skólakerfið og stjórnvöld, heldur ekki síður mikilvæg fyrir nemandann sjálfan sem þar með sér hvar hann stendur í samanburði við aðra.

Íslendingar mega ekki sætta sig við að vera eftirbátar annarra vestrænna þjóða í menntun. Engin efni eru til annars en að þekking íslenskra ungmenna við lok skyldunáms sé jafngóð eða betri en annarra norrænna ungmenna. En svo hægt sé að ná því marki þarf að taka upp samræmda mælikvarða og setja skýr markmið um árangur. Þetta getur ekki gerst öðruvísi en með upptöku samræmdra prófa á nýjan leik.

Að sama skapi væri rétt að horfa til að mynda til Danmerkur þar sem viðhöfð eru samræmd stúdentspróf. Einnig mætti hugsa sér að mæla árangur oftar, til dæmis eftir fyrsta ár í framhaldsskóla. Nýleg rannsókn sýnir að stór hluti íslenskra nýstúdenta er illa búinn undir háskólanám. Fyrsta skrefið til að bæta þekkingu stúdenta gæti orðið að skilgreina nákvæmlega námskröfur þær sem háskólagreinar gera (ekki eingöngu í raungreinum eins og nú er gert) og leggja fyrir samræmd stúdentspróf þar sem dönsk próf yrðu höfð til hliðsjónar. Markmiðið yrði að íslenskir stúdentar hefðu að minnsta kosti ekki lakari þekkingu í grundvallarfögum en jafnaldrar þeirra á hinum Norðurlöndunum. Þetta þarf ekki að hafa í för með sér að miðað yrði við lægsta samnefnara, því skólar með hæfari nemendur gætu hæglega sett markið hærra, sér í lagi ef nemendur eru flokkaðir í bekki eftir getu.

Í þessu tilliti hafa Íslendingar lent í hafvillum, rekið langt af leið, en vel má rétta kúrsinn og miðið eru hinar norrænu þjóðirnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Tvö skref til hægri og vinstri snú – list hins ómögulega

Svarthöfði skrifar: Tvö skref til hægri og vinstri snú – list hins ómögulega
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Tapað – fundið … í naflanum

Svarthöfði skrifar: Tapað – fundið … í naflanum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Tölvulæknar

Óttar Guðmundsson skrifar: Tölvulæknar
EyjanFastir pennar
09.05.2024

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar
EyjanFastir pennar
09.05.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð