fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Eyjan
Sunnudaginn 3. mars 2024 14:30

Linda Pétursdóttir, íslensk alheimsfegurðardrottning, kynnir saltfisk.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðið föstudagskvöldið sá ég umtöluðustu leiksýningu þessa vetrar, Lúnu, sem áður hét Kvöldstund með Heiðari snyrti. Hér er óþarft að rekja þá gagnrýni sem birtist á verkið áður en það var frumsýnt og sannarlega einkennilegt að menningarstofnunum og listamönnum sé gert að taka við skipunum frá fólki utan úr bæ — fólki sem átti það sammerkt að hafa ekki séð verkið (og ætlaði sér ekki að sjá það). Blaðamaður Vísis spurði leikskáldið, Tyrfing Tyrfingsson, út í þetta fyrir skemmstu og hann svaraði:

„Ef fólk er ofboðslega viðkvæmt og jafnvel aðframkomið af siðferðisþreki — ekki sjá þessa sýningu! Sjáið eitthvað annað, það er alls konar annað í boði. Hugsið um eitthvað annað. Þetta er líka svolítið það, eitthvað svona: Mér finnst þetta erfitt þannig við ætlum að taka þetta af dagskrá. Það er kannski óþarfi. Leyfið okkur syndaselunum að vera með okkar „show“.“

Nýi titillinn nær engan veginn utan um verkið, enda er þetta kvöldstund með Heiðari snyrti. Blessunarlega náðu ritskoðunartilburðirnir þó ekki lengra en með breytingu á heiti verksins. Jón Viðar Jónsson leiklistarfræðingur sagði fyrir skemmstu á fésbókinni að mest um vert væri að stjórn Leikfélags Reykjavíkur hefði ekki látið

„fólk úti í bæ, sjálfskipaða siðgæðisdómara, kúga sig til að hætta við sýninguna með fordæmingarhrópum og kröfum um ritskoðun. Vissulega var slæmt að heiti verksins skyldi breytt, það náði í rauninni engri átt, enda sýndi sig í vikunni að þetta lið getur ekki sætt sig við neitt minna en allsherjarbann. En stjórn L.R. stendur nú til allrar hamingju föst fyrir. Þeim hefur hvorugum verið slaufað, Heiðari eða Tyrfingi. Við fögnum því!“

Silja Aðalsteinsdóttir, einn okkar helsti leiklistardómari, sagði verkið „listræna nautn“ í dómi sem birtist á vef Tímarits Máls og menningar og bætti við: „Lifi fegurðin í öllum sínum myndum.“ Ég tek undir hvort tveggja enda sat ég dolfallinn yfir sýningunni á föstudagkvöldið var.

Linda Pétursdóttir, íslensk alheimsfegurðardrottning, kynnir saltfisk.

Hvað er fegurð?

Tyrfingur tekst í verkinu á við spurninguna um fegurð og ljótleika. Þetta eru ævaforn viðfangsefni mannsandans. Platón komst svo að orði að það að íhuga fegurð léði sálinni vængi. Hugtakið sjálft er sérhverjum manni tamt en fegurðin verður ekki skilgreind með einföldum hætti.

Goða það líkast unun er
andspænis sitja á móti þér
og stjörnu sjá, þá birtu ber,
á brúna himni tindra.

Þannig þýddi þjóðskáldið Bjarni Thorarensen kunnasta kvæði skáldkonunnar Saffó (gr. Σαπφώ) sem uppi var á sjöundu og sjöttu öld fyrir Krist. Hún orti um fegurð kvenna sem hún bar ástarhug til — nánar tiltekið námsmeyja í stúlknaskólanum sem hún starfrækti á eynni Lesbos. Líkamleg fegurð var Forngrikkjum hugleikin og hana var reynt að fanga og fullkomna í höggmyndalist, við íþróttaiðkun og í fegurðarsamkeppnum. Í því sambandi var notast við hugtakið summetria sem við gætum útlagt sem hlutfallslega samsvörun. Þetta birtist líka í rómverskum ritum, þar sem orðið varð symmetria. Cicero segir á einum stað: „Visst hæfilegt form hlutanna ásamt vissum ljúfleika litarins er sagt að sé sjálf líkamsfegurðin.“ Fegurðin er því ekki fólgin í einfaldleika eða einhverjum einum þætti — hið fagra er samsetning nokkurra þátta svo úr verði fögur heild. Sama er að segja um aðra fegurð. Fegurð í tungumálinu, í listum, vísindum, handverki er fólgin í fágun sem verður ekki unnin nema með þrautþjálfun svo mönnum sé kleift að skapa heildstætt verk. Heimspekingurinn Plótínos kemst svo að orði í skrifum sínum Um fegurðina

„allt formlaust sem fallið er til að taka á sig lag og form er ljótt og utan guðlegrar reglu, svo lengi sem það á enga hlutdeild í reglu og formi. Þetta er hinn algeri ljótleiki.“

Hér er orðið regla notað í stað forngríska orðsins logos sem engin leið er að þýða á íslensku en merkt getur, orð, tungumál, skynsemi eða regla.

Samt sjáum við í ævagömlum textum hugmyndina um þær hættur sem þrá eftir fegurðinni skapar. Nefna mætti sírenurnar í Ódysseifskviðu Hómers sem tæla sjómenn með söng sínum — og ráða þeim síðan bana. Sjómennirnir falla í öngvit af söngnum líkt og menn geta orðið hugstola af fegurð og dæmi er nefnt um í verki Tyrfings. Heimspekin hefur síðan um aldir leitast við að slíta fegurðina frá hinu líkamlega.

Fölnar fold, fyrnist allt og mæðist;

hold er mold, hverju sem það klæðist.

Vont að dvelja við ljótleikann

Í okkar samtíma er því gjarnan haldið fram að fegurð sé einungis huglæg, já og jafnvel hreinlega afstæð. Hún sé ekkert annað en einstaklingsbundinn smekkur.

Og á listin að hafa það takmark að tjá fegurð eða er fegurð bara hugsanleg aukaafurð listaverks? Fyrr á tímum var það gjarnan fremur álitið vera hlutverk listarinnar að fegra og upphefja veruleikann en á síðari tímum er ljótleikinn æði oft dreginn fram í listum í viðleitni til að varpa raunsærra ljósi á veruleikann. Tyrfingur veltir því upp í verki sínu hvort listamaður sé ekki þar með jafnvel að upphefja ljótleikann — í stað þess að túlka veruleika — og þá má velta því fyrir sér hvort það sé ekki eðlislíkt upphafningu fegurðarinnar.

Eftir stendur þá spurningin hvort ekki sé æskilegra að líta til hins fagra, keppa að hinu fagra, þrautþjálfaðri samstillingu hugar og handa — og um leið dást að líkamlegri fegurð? Er mannsævin ekki full stutt til að dvelja um of við ljótleikann?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
02.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið

Sigmundur Ernir skrifar: Þegar afturhaldið andar ofan í hálsmálið