fbpx
Laugardagur 02.mars 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Horft á heiminn í spegli

Eyjan
Sunnudaginn 4. febrúar 2024 14:51

Narkissus fellur í stafi yfir eigin spegilmynd á vatnsborðinu. Málverk Caravaggio frá því um 1597–1599, varðveitt á þjóðlistasafninu í Róm.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Mínir ágætu móðurmálskennarar í gagnfræðaskóla og Menntaskóla ömuðust mjög við notkun sagnarinnar *upplifa og nafnorðsins *upplifun, enda væri þetta danska. Sem málvöndunarmanni hefur þetta oftsinnis valdið mér vandræðum við tjáningu, svo rækilega sem umræddar slettur hafa fests í málinu. Meira að segja heyrði ég mann á dögunum komast svo að orði að það hefði verið „mögnuð upplifun að upplifa“ einhverja hljómleika. Hefði orðið verið komið fram á söguöld er næsta víst að Gunnar hefði mælt: „Fögur er Hlíðin, svo að ég hef aldrei *upplifað hana jafn fagra.“ — Nei fjandakornið (og afsakið orðbragðið) þetta er afleitt ef betur er að gáð.

Ég styrktist í andstöðu minni við „upplifunina“ síðastliðið mánudagskvöld er ég millilenti á Kastrupflugvelli og rakst fyrir tilviljun á nýútkomna bók danska sálfræðiprófessorsins Svend Brinkmann, Oplevelsessamfundetom det vigtige i at opdage, at dit liv består af andet end oplevelser. Á vondri íslensku væri það þá „upplifunarsamfélagið“. Í byrjun bókarinnar segir Brinkmann frá því að kveikjan að ritun hennar hefði verið nýlegt atvik á salerni sömu flughafnar. Er hann var á leiðinni þaðan út blasti við honum áletrun þar sem stóð: „How was your bathroom experience?“ Síðan var hægt að styðja á hnapp, gulan, rauðan eða grænan sem báru viðeigandi lyndistákn. Honum varð umsvifalaust hugsað hví í ósköpunum væri verið að ræða um oplevelse af salerni? Þetta væri bara nauðsynleg og um leið ofureinföld athöfn og engin ástæða til að velta því fyrir sér hver skynjun notenda umrædds salernis væri.

Andleg fátækt

Hugmyndin um „upplifunarsamfélagið“ er ekki alveg ný af nálinni en þýski félagsfræðingurinn Gerhard Schulze skrifaði fyrir þremur áratugum bókina Die Erlebnisgesellschaft þar sem hann benti á þá tilhneigingu í okkar samtíma að virði einhvers sé metið á grundvelli skynjunar; eitthvað sé gott því það veki ánægjuleg hughrif. Brinkmann bendir á að á allra síðustu árum og áratugum hafi þessar hugmyndir orðið allsráðandi — ekki hvað síst með tilkomu samfélagsmiðla, þar sem allt gangi út á að vekja sterkar tilfinningar eina örskotsstund og á vefmiðlum eru útbúnar „smellibeitur“ svo notendur bíti á agnið. Ég þekki það sjálfur að margfalt fleiri eru líklegir til að styðja á hnappinn sé fyrirsögnin krassandi — að ég tali nú ekki um sé hún beinlínis subbuleg (ekki jafn flöt og þessi hér að ofan).

Annars er fátt nýtt undir sólinni. Á nítjándu öldinni gagnrýndi Søren Kierkegaard að einblínt væri um of á skynjun og hughrif — slíkt lýsti gjarnan andlegri fátækt; skorti á æðri tilgangi. En við blasir af lestri bókar Brinkmanns að tæknin hefur leitt okkur í gönur.

Að mynda sér skoðun út frá hughrifum

Ég rakst á fleira áhugavert lesefni á ferðalaginu á mánudaginn var. Á kaffihúsi í miðbæ Zürich fyrr um daginn fletti ég nýjasta tölublaði bæjarblaðsins Neue Zürcher Zeitung. Þar birtist grein tveggja bandarískra fræðimanna á sviði utanríkis- og varnarmála, Peter W. Singer og Emerson T. Brooking. Umfjöllunarefnið var áróðursstríð það sem hermdarverkasamtökin Hamas hófu á samfélagsmiðlum 7. október síðastliðinn, þar sem dreift var hvers kyns upplognum fréttum, meðal annars þess efnis að ísraelsk stjórnvöld hefðu sjálf staðið að baki hinum hrottafengnu morðum og gíslatökum sem Hamas stóðu fyrir. Samtökunum hefur raunar orðið svo ágengt að meira að segja hér á landi bera ýmsir „málsmetandi“ menn í bætifláka fyrir vígamenn samtakanna.

Mér virðist sem flestir myndi sér „skoðun“ á þessum efnum út frá myndum og örstuttum myndskeiðum sem stuðningsmenn Palestínuaraba eru iðnir við að dreifa. Og ekki misskilja mig — ísraelsk stjórnvöld reka sömuleiðis öfluga áróðursherferð á veraldarvefnum. Það er líka kannski í ætt við sjálfbirgingshátt nútímamannsins að hópur hljómlistarmanna hérlendra hefur ákveðið að láta átökin á Gasaströndinni snúast um sjálfan sig og þátttöku Ríkisútvarpsins í ónefndum lágmenningarviðburði evrópskra sjónvarpsstöðva. Þeir örfáu íslensku íþróttamenn sem eygja möguleika á þátttöku á Ólympíuleikum eru hófstilltari og láta það ekki spilla keppnisskapinu að Ísraelsmenn verði sömuleiðis gestir í Ólympíuþorpinu.

„Að skapa meðfærilegan sorplýð“

Á dögunum kom út ævisaga heimspekingsins Hönnu Arendt, We Are Free to Change the World, eftir lagaprófessorinn Lindsey Stonebridge. Hannah Arendt var landflótta gyðingur frá Þýskalandi nasismans og settist að í Bandaríkjunum. Hún fylgdist með réttarhöldunum yfir nasistaforingjanum Adolf Eichmann sem fram fóru í Jerúsalem árið 1962. Arendt sætti harðri gagnrýni fyrir skrif sín um réttarhöldin en Eichmann hefði umfram allt komið henni fyrri sjónir sem lítilsigldur og ómerkilegur starfskraftur og fannst henni um of einblínt á hans hlut í helförinni. Hún talaði í þessu sambandi um hversdagslega mannvonsku. Eichmann væri gjörsneyddur tilfinningum og slíkir einstaklingar veldust helst í morð- og pyntingarsveitir nasista og kommúnista.

Annars er athyglisvert hvernig Arendt lýsti tali Eichmanns og málrómi. Hann hefði aldrei sjálfur tekið til máls heldur bara talað í klisjum. Þarna birtist okkur hvernig tungumálið er látið koðna niður undir oki alræðisins. Um leið sljóvgast meðvitundin. Besta ráðið „til að skapa meðfærilegan sorplýð er að rýja menn málkennd,“ eins og ágætur maður orðaði það eitt sinn. Sjálf sagði Hannah Arendt að hugsunin væri hættuleg út af fyrir sig — því hún veitti mönnunum frelsi til að breyta heiminum.

Í áðurnefndu tölublaði Neue Zürcher Zeitung var og fjallað um samstöðufund sem haldinn var á dögunum þar sem minnst var fórnarlamba helfarinnar. Einn viðmælandi blaðsins sagði uggvænlegt að horfa upp á þau andgyðinglegu viðhorf sem birtust í mótmælum stuðningsmanna Palestínuaraba. Rétturinn til mótmæla væri skýr en orðfærið vekti ugg. Öðrum viðmælanda varð hugsað til þess með hryllingi að á götum Zürich sæjust vígorð gegn gyðingum aðeins rúmum hundrað dögum eftir mestu fjöldamorð sem framin hafa verið á gyðingum frá því í síðari heimsstyrjöld, „das Monster des Antisemitismus wütet weiter“ eins og hann orðaði það.

Hendum „upplifuninni“ út á hafsjó

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs verða ekki smættuð í einstaka „upplifun“ og sama er að segja um önnur aðkallandi úrlausnarefni, svo sem þá ógn sem stafar að umhverfinu. Viðfangsefni mannkynsins verða hvorki skilin né leyst út frá huglægum þáttum, enda veruleikinn miklu stærri og flóknari en svo að hann verði greindur út frá hughrifum.

Brinkmann sálfræðiprófessor vill að þjóðfélag okkar leggi aukna áherslu á sanna reynslu, þekkingu, færni og hæfileika en minna verði lagt upp úr skynjun. Huglæg afstaða hafi ætíð áhrif á viðhorf en hún eigi að vera sem gluggi út í veruleikann — ekki skuggsjá. Engin leið sé fyrir manninn að skilja sig sjálfan nema hann öðlist raunverulegan skilning á umheiminum. Ágæt byrjun væri líklega að hlýða boðum minna gömlu kennara og losa tungumálið við *upplifunina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Trúin — menningin — móðurmálið  

Björn Jón skrifar: Trúin — menningin — móðurmálið  
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Lindarhvoll er svarið

Svarthöfði skrifar: Lindarhvoll er svarið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist

Svarthöfði skrifar: Morgunblaðsfrumvarpið fæðist
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Er ríkismiðlinum haldið í stöðugri gíslingu?

Svarthöfði skrifar: Er ríkismiðlinum haldið í stöðugri gíslingu?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nú er hún Valhöll varla annað en stekkur

Sigmundur Ernir skrifar: Nú er hún Valhöll varla annað en stekkur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Öldrunargúlag Kópavogs

Óttar Guðmundsson skrifar: Öldrunargúlag Kópavogs
EyjanFastir pennar
27.01.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin afskrifa Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin afskrifa Evrópu
EyjanFastir pennar
27.01.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Júróvisjón

Óttar Guðmundsson skrifar: Júróvisjón